Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur veitt Samtökunum ´78 húmanistaviðurkenningu ársins 2005 til heiðurs ötulli baráttu Samtakana fyrir almennum mannréttindum samkynhneigðra og tvíkynhneigðra á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Siðmennt veitir þessa viðurkenningu sem ætlunin er að veita árlega eftirleiðis.
Samtökin ´78, félag lesbía og homma á Íslandi, voru stofnuð vorið 1978. Markmið félagsins er að vinna að því að samkynhneigðir og tvíkynhneigðir verði sýnileg og viðurkennd og að samkynhneigðir og tvíkynhneigðir njóti jafnréttis á við aðra í íslensku samfélagi. Það er gert með því að berjast fyrir almennum mannréttindum samkynhneigðra og tvíkynhneigðra og efla fræðslu um reynslu þeirra og sérkenni. Einnig leitast félagið við að skapa samkynhneigðum og tvíkynhneigðum félagslegan og menningarlegan vettvang í því skyni að styrkja sjálfsvitund þeirra, samkennd og samstöðu um sérkenni sín. Samtökin ´78 eiga samstarf við önnur skyld félög hérlendis og erlendis sem stefna að sömu markmiðum og jafnframt styðja þau önnur félagasamtök sem vinna að lýðréttindum og leita stuðnings þeirra.
Kjarninn í mannréttindakröfu samkynhneigðra og tvíkynhneigðra um allan heim snýst um persónulegt frelsi og tilfinningafrelsi – frelsi einstaklings til að haga lífi sínu í samræmi við eigin ástarhneigð. Slíkt frelsi er í eðli sínu helgur réttur hvers manns í samfélagi sem vill kenna sig við mannréttindi, ekki síður en ritfrelsi, málfrelsi eða félagafrelsi. Eftir langa baráttu virðir íslensk löggjöf nú mannréttindi samkynhneigðra og tvíkynhneigðra í meira mæli en dæmi eru um meðal flestra ríkja heims, og mikill meirihluti almennings sýnir þeim sömu mannvirðingu og öðrum íslenskum þegnum.
Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi var stofnað árið 1990. Félagið er málsvari mannúðarstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir borgaralegum athöfnum. Frá 1988 hefur Siðmennt haldið undirbúningsnámskeið og séð um borgaralegar fermingar árlega. Þá hefur félagið gengist fyrir umræðufundum um ýmis mál er tengjast mannúðarstefnu (siðrænum húmanisma) og má þar nefna málefni eins og stefnu félagsins, trúarbragðafræðslu í skólum, mannréttindi samkynhneigðra, trúarskoðanir Schuberts, um að taka dauðann í sátt, sorg og sorgarviðbrögð, hugsanlegt trúfélag trúlausra, um erlend félög siðrænna húmanista o.fl.
Siðmennt tekur ekki beina afstöðu í stjórnmálum og félagsmálum. Undantekning er þó ósk félagsins um jafna stöðu allra trúarbragða og lífsskoðana sem m.a. hlýtur að hafa í för með sér aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi.
Nánari upplýsingar:
Sigurður Hólm Gunnarsson, varaformaður Siðmenntar, s. 898-7585, siggi@sidmennt.is