Á miðvikudaginn næsta, 1. september, mun The god delusion eftir Richard Dawkins koma út á íslensku í þýðingu Reynis Harðarsonar, sálfræðings. Mun bókin heita Ranghugmyndin um guð og vera 490 bls.
Ranghugmyndin um guð er meðal bókanna sem settu hina svokölluðu ný-trúleysishreyfingu af stað og í janúar á þessu ári hafði hún selst í yfir 2 milljónum eintaka á heimsvísu og setið lengi á mörgum metsölulistum. Í bókinni fjallar Richard Dawkins um vísindalega þekkingu sem andsvar við mörgum trúarlegum hugmyndum og leiðir lesandann um landslag guðlausrar heimssýnar.
Þýðingarinnar hefur verið beðið með eftirvæntingu og nú er hún komin í prentun og fer í almenna sölu í bókabúðum frá og með 1. september næstkomandi. Hana er líka hægt að panta beint frá forlaginu af netinu með því að heimsækja vef forlagsins, Orsmtungu: smellið hér til að panta.
Siðmennt óskar Reyni til hamingju með þetta afrek.
Fyrir neðan skilin má lesa brot úr bókinni:
Upphaf 2. kafla í Ranghugmyndinni um guð
eftir Richard Dawkins:
í þýðingu Reynis Harðarsonar.Tilgátan um guð
Trúarbrögð einnar aldar eru bókmenntaleg skemmtun þeirrar næstu.
Ralph Waldo Emerson.Færa má rök fyrir því að guð Gamla testamentisins sé ein ónotalegasta persóna í samanlagðri bókmenntasögunni: afbrýðisamur og stoltur af því; smámunasamur, óréttlátur, miskunnarlaus eftirlitsharðstjóri; hefnigjarn, blóðþyrstur þjóðernishreinsari; kvenhatari; hommahatari; kynþáttahatari; barnamorðingi; þjóðarmorðingi; siðspillandi, sadómasókískur, duttlungafullur og meinfýsinn ofbeldisseggur með mikilmennskubrjálæði. Þau okkar sem hafa vanist honum frá barnæsku geta orðið ónæm fyrir hryllingnum.
Nýgræðingur getur hins vegar litið málið óbrjáluðum augum. Randolph, syni Winstons Churchill, tókst einhvern veginn að vera alls ófróður um ritninguna þar til Evelyn Waugh, félagi hans í hernum, veðjaði að hann gæti ekki lesið alla Biblíuna á hálfum mánuði. Þeir höfðu verið sendir á sama stað í stríðinu og Evelyn gerði þetta í þeirri veiku von að með því tækist honum að fá Randolph til að þegja. „Því miður er útkoman ekki sú sem við höfðum vænst eftir. Hann hefur aldrei lesið neitt í henni áður og er óður og uppvægur, les tilvitnanir upphátt og segir: »Ég er viss um að þið vissuð ekki að þetta er í Biblíunni …« eða slær sér á lær og það iktir í honum: »Almáttugur, er guð ekki skíthæll!«“
Thomas Jefferson – betur lesinn – var á svipaðri skoðun og lýsti guði Móse „sem hræðilegum karakter – grimmum, hefnigjörnum, kenjóttum og óréttlátum.“
Það er ósanngjarnt að ráðast á svo auðvelt skotmark. Tilgátan um guð ætti hvorki að standa eða falla með ógeðfelldustu birtingarmynd sinni, Jahve, né dauflegri andstæðu hans í Kristi, „Ljúfi Jesú, góðlyndur og mildur“. (Til að gæta allrar sanngirni ber að geta þess að þessa kveifarlegu sögupersónu ber að rekja frekar til fylgjenda hans á Viktoríutímabilinu en til Jesú sjálfs. Getur velgjan hafist í hærri hæðir en í ljóði frú C. F. Alexander „Kristnum börnum ber að vera / blíð og hlýðin eins og hann“?).
Ég er ekki að ráðast á ákveðna eiginleika Jahve, Jesú, Allah eða nokkurs annars ákveðins guðs eins og Baals, Seifs eða Óðins. Þess í stað ætla ég að skilgreina tilgátuna um guð með forsvaranlegri hætti: Það er til ofurmannleg, yfirnáttúruleg vitsmunavera sem ákvað að hanna og skapa alheiminn og allt í honum, þar á meðal okkur. Í þessari bók er haldið fram öðru sjónarhorni: Þeir vitsmunir, sem eru forsenda fyrir allri sköpun, verða aðeins til fyrir tilstilli langs ferils þróunar. Þar sem vitsmunir til sköpunar þróast, koma þeir seint til sögunnar í alheiminum og geta því ekki borið ábyrgð á tilurð hans. Guð, eins og hann er skilgreindur, er ranghugmynd, og eins og sýnt verður fram á í síðari köflum, hættuleg ranghugmynd.
Þar sem tilgátan um guð á rætur sínar í reynslu einstakra manna samkvæmt hefðum á hverjum stað er ekki að undra að hún er til í mörgum útgáfum. Sagnfræðingar geta rakið framvindu trúarbragða frá frumstæðri andatrú yfir í fjölgyðistrú eins og hjá Grikkjum, Rómverjum og norrænum mönnum, til eingyðistrúar eins og gyðingdóms og afleiðna hans, kristni og íslam.