Hope Knútsson, formaður Siðmenntar, flutti stutta ræðu á hátíð Siðmenntar á Grand Hótel 10. maí. Þá hittust félagar og velunnarar Siðmenntar til að fagna því að félagið er nú orðið skráð lífsskoðunarfélag.
Kæru félagsmenn og aðrir gestir – gaman að sjá ykkur öll hér!
Við erum komin saman í dag til að fagna mjög mikilvægum tímamótum í 23ja ára sögu Siðmenntar. Það er gleðilegt að fá opinbera viðurkenningu á því að veraldleg lífsskoðun siðrænna húmanista hafi nú fengið sömu lagalega stöðu og trúarlegar lífsskoðanir á Íslandi. Þetta þýðir meðal annars að giftingar framkvæmdar af athafnastjórum Siðmenntar öðlast lagalegt gildi. Fólk sem giftir sig hjá Siðmennt þarf þannig ekki lengur einnig að fara til sýslumanns til að staðfesta hjónabandið.
Hér á landi þurfa allir að greiða sóknargjöld, en gjöld þeirra sem hafa verið skráðir utan trúfélaga fóru lengi vel til Háskóla Íslands en undanfarin ár beint í ríkissjóð. Nú geta þeir sem standa utan trúfélaga en styðja stefnu Siðmenntar skráð sig í félagið hjá Þjóðskrá og styrkt þannig starfsemi félagsins. Þetta er mikilvægt skref í átt að fullu trúfrelsi á Íslandi.
Þetta nýja fyrirkomulag, sem ég vissulega fagna, vekur engu að síður blendnar tilfinningar hjá mér vegna þess að nú mun Siðmennt fá pening úr kerfi sem félagið hefur alla tíð mótmælt! Siðmennt mun áfram, eftir þessar breytingar, berjast fyrir því að sóknargjaldakerfið verði afnumið eða því í það minnsta breytt. Siðmennt telur að ríkisvaldið eigi alls ekki
- að skipta sér af lífsskoðunum fólks
- að skrá fólk í trú-eða lífsskoðunarfélag né
- halda skrá yfir hvaða lífsskoðun fólk aðhyllast.
En á meðan slíkt ófullkomið og óréttlát kerfið er í gangi, viljum við sitja við sama borð og ekki verið mismunað vegna þess að við trúum ekki á yfirnáttúruleg fyrirbæri. Við munum berjast áfram gegn því að fólk sem stendur utan trú-og lífsskoðunarfélaga þurfa að greiða sóknargjöld. Við viljum vinna að því að íslenskt samfélagið á 21. öld verði veraldlegt, réttlátt og veiti engri lífsskoðun sérstök réttindi eða vernd umfram aðrar lífsskoðanir.
Siðmennt berst fyrir umburðarlyndi, jafnrétti og trúfrelsi. Þeir sem skrá sig í félagið hjá Þjóðskrá eru um leið að styðja baráttuna fyrir fullu trúfrelsi og þar með afnámi sóknargjaldakerfisins í núverandi mynd. Að sama skapi er verið að styðja félag sem hefur í aldarfjórðung barist fyrir jafnrétti, umburðarlyndi og fjölbreytni.
Takk fyrir.
Hope Knútsson – formaður Siðmenntar