Páll Óskar hélt ræðu við borgaralega fermingu í Hörpu þann 15 ágúst 2021. Pál Óskar þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, enda einn ástælasti tónlistarmaður landsins og ötull talsmaður sjálfsástar.
Björg Magnúsdóttir, athafnarstjóri, kynnir: "Það sem er svo gaman líka við þennan mann, er að þetta er einstaklingur sem hefur æft sig í mörg ár að vera nákvæmlega eins og hann er, og hann bara dýrkar það og við dýrkum það öll. Þetta er að sjálfsögðu Páll Óskar Hjálmtýsson, vertu velkominn, gefum honum gott klapp!"
Jess, Hommi - ég er sem sagt hommi. Og ekki nóg með það. Ég elska að vera hommi. Ég er mjög sáttur í eigin skinni, ég elska líkamann minn og ég elska starfið mitt og ég elska hvern dag sem ég lifi. Þess óska ég fyrir alla, grínlaust sama hvort sem þið eruð hommar eða ekki. Ég óska þess að öllum geti liðið svona yndislega með sjálfum sér burtséð frá kyni, kynhneigð, kynvitund, útliti, húðlit, þjóðerni, stöðu, stétt, aldri, instagram lækum eða kílóafjölda. Öllum ætti að líða svona vel.
Mér þykir svakalega vænt um það að geta byrjað ræðuna á orðinu hommi - ég man að þetta er orð sem við þurftum að berjast fyrir að fá að nota, við þurftum að berjast fyrir því í almannarýminu, í fjölmiðlum og auglýsingum, í umræðum og blaðagreinum, á okkar forsendum og samkvæmt okkar skilningi á orðinu. Þegar þú ert stoltur af því að vera hommi, þá er orðið hommi ekki ljótt orð. Alveg eins og ef þú ert stoltur af því að vera feministi, þá er feministi ekki ljótt orð.
Foreldrar mínir höfðu alveg geðveikar áhyggjur af mér þegar ég kom út sem hommi árið 1987. Þegar ég var 17 ára. Þau héldu að lífið mitt myndi fara til andskotans. En - Ólíkt því sem foreldrar mínir héldu, þá hefur kynhneigð mín hefur ekkert með það að gera hvort ég kjósi að byggja lífið mitt upp -
eða rústa því. Ég er nú þegar frjáls til að gera hvort tveggja alveg nákvæmlega eins og mér sýnist. Ég gekk í gegnum mjög erfiðan kafla um aldamótin 2000, og þetta er ákv kafli sem ég vil aldrei endurtaka aftur í lífinu. En ég kaus að byggja lífið mitt aftur upp á nýtt. Ég er enn að byggja líf mitt upp, enn þann dag í dag. Ég er enn að skynja það betur, dag frá degi, og dýpka upplifun mína af því. Þessi vinna stoppar aldrei og ykkar vinna er núna rétt að byrja.
Þessi uppbygging á lífi mínu hefur ekki baun með kynhneigð mína eina og sér að gera. Ég myndi aldrei gera þá kröfu til kynhneigðarinnar að hún gerði mig hamingjusamann og sé lykillinn að velferð minni í lífinu. Þar með gæti ég skellt skuldinni á kynhneigðina mína í hvert sinn sem mér mistekst, ég fokka upp eða mér verður á fótaskortur. Kynhneigðin mín á betra skilið en að vera notuð sem afsökun fyrir öllum mínum bömmerum.
Það skiptir mig hreinlega meira máli hvernig ég kem fram við fólk, og hvernig ég kem fram við sjálfan mig, það er mjög mikilvægt að sjálfvirðingin mín sé í lagi - að hún sé í jafnvægi og svo skiptir bara miklu máli hvernig annað fólk kemur fram við mig, hvar ég dreg línuna og hvar ég set mín mörk. Ef þau samskipti eru í lagi, og í jafnvægi, þá skiptir mig engu máli kyn, kynhneigð, kynvitund, húðlitur, þjóðerni, staða, stétt, aldur, instagram læk eða kílóafjöldi.
Ég var spurður hérna frammi ... ef ég fengi að fara í tímavél, og hitta sjálfan mig þegar ég var 14 ára, árið 1984 - Hvað myndi ég segja við sjálfan mig þá? Ókei, þetta er kannski pínu svindl, af því núna veit ég að ég varð poppstjarna - en þið hérna inni vitið ekkert hvað þið verðið þegar þið verðið orðin stór. Sumir hérna inni eru kannski að tryllast úr áhyggjum yfir því, ég var einn af þeim þegar ég var 14 ára - en gerið mér bara greiða - veljið ykkur æfistarf sem tengist áhugamálunum ykkar. Í hverju eruð þið best? Hvað hefur þú mestan áhuga á í lífinu? Trúðu mér, veldu þér það starf, jafnvel þótt það borgi illa til að byrja með og hljómi ópraktískt. Ég hef tekið eftir því á fólki i kringum mig að þeir sem vinna við það sem þeir eru bestir í gengur venjulega mjög vel í lífinu.
En ég get sagt ykkur eitt leyndó að þegar ég var 14 ára þá vissi fólk í kringum mig að ég gæti sungið, en ég var samt mjög ólíkleg poppstjarna. Ég vissi ekkert að ég færi að gera popp. Ég vissi að ég yrði listamaður, en ég vissi ekkert í hvaða listgrein ég myndi fíla mig best... og hvar annað fólk fílaði best að sjá mig.
Nú ætla ég að gefa ykkur smá punkta. Það sem ég er að fara að segja við 14 ára sjálfan mig gæti líka komið ykkur að gagni, þótt þið hafið engan áhuga á að gerast poppstjörnur eða hommar. Passið bara að taka til ykkar það sem ykkur geðjast að - takið til ykkar allt sem þið getið notað fyrir ykkur sjálf og látið annað liggja milli hluta. Ekki eyða tíma í að pæla bara í því sem þið eigið ekki sameiginlegt með mér. Ef við loksins hættum að pæla bara í því sem við eigum ekki sameiginlegt, og förum að spá betur í alla þá hluti sem við eigum sameiginlega, þá verður þessi jörð miklu betri staður til að búa á.
Ef ég myndi hitta sjálfan mig þegar ég var 14 ára myndi ég byrja á því að faðma sjálfan mig - faðma þetta barn, faðma þennan ungling - eins og ég kann að faðma fólk í dag, ég lærði ekki að faðma fólk fyrr en kringum tvítugt. Mig vantaði þetta faðmlag þegar ég var barn og unglingur og ég er alveg til í að gefa sjálfum mér þetta faðmlag núna. Mjög lengi.
Ég myndi faðma mig, og segja mér að draga djúpt andann - halda niður í mér andanum - og svo myndi ég ranta á ÚTÖNDUN: "Hafðu engar áhyggjur, þetta verður allt í lagi, þú verður allt í lagi, það fer allt eins og það á að fara, bara aldrei eins og þú vilt að það fari. Þetta fer samt vel og þú getur verið alveg rólegur og alveg slakur. En ekkert er að fara að gerast eins og þú heldur að það sé að fara að gerast. Allir þínir hæfileikar og allur þinn pótensjall og allir þínir möguleikar í lífinu verða mögulegir - draumarnir þínir munu rætast - með ógeðslega mikilli vinnu. Ógeðslega mikilli vinnu. Lærðu á þetta píanó, lestu þessar ljóðabækur, farðu í þessa danstíma, djobbið sem þú ert að fara að gera verður mun auðveldara ef þú fokking æfir þig og þjálfar þig út í eitt. Allt í einu ertu farinn að gera stöff sem er ógeðslega erfitt fyrir margt fólk að gera og þú gerir án þess að blása úr nös. Þá ertu búinn að finna æfistarfið. Mundu að þú getur átt mörg æfistörf, við höfum ekki bara einn höfuðhæfileika heldur marga. Það skiptir engu máli hvað þú ert hæfileikaríkur, hæfileikar eru bara fræ, fræ þurfa mold og næringu og rigningu og sól. Og líka hvatningu, ég var svo heppinn að ég fékk hvatningu. Hvatningin var mín rigning og sól. Ég óska þess núna að allir hérna inni fái hvatningu. Öllum stundum - æfilangt. Það þarf að rækta hæfileikana, allir þurfa þjálfun, allir þurfa að æfa sig og þeir sem sjá hæfileikana sína blómstra eru þeir sem drullast til mæta á æfingar. Enginn losnar undan vinnu. Ekki heldur hæfileikaríka liðið. Þau vinna harðast. Allir þurfa að vinna. Bæði fyrir salti í grautinn og að vinna í sjálfum sér, bæði líkamlega og andlega. Ég mæli með því að allir vinni bæði líkalega vinnu og andlega vinnu. Þeir sem hafa gengið í gegnum erfiða andlega hluti, verða líka að vinna í þeim, með fagfólki, sálfræðingum eða fólki sem veit hvað það er að gera. Það er til hjálp. Enginn er einn. Allir fá verkefni í lífinu. Enginn sleppur undan verkefnunum. Þú getur alveg leyst öll verkefnin sem þú færð í lífinu ef þú hefur rétt attitúd til þeirra. Passaðu þig á því að fara ekki í fýlu. Þú getur leyst öll verkefni með góðu viðhorfi og góðum viðbrögðum. Taktu þessi verkefni þegar þau koma feisaðu þau, ekki forðast þau og kláraðu þau."
Ég myndi líka segja 14 ára sjálfum mér hvað ég væri bjútíful, með fallegt andlit, því mér fannst ég vera ljótt barn. Ég þróaði nefnilega með mér fullkomnunaráráttu þegar ég var barn og unglingur. Ég þróaði líka með mér dómhörku. Fullkomnunaráráttan og dómharkan eru gallar og sjúkdómseinkenni sem ég vil losna við. Ég hata þá. Ég vil ekki vera hafa þetta í heilanum á mér. Ég er alltaf að hakka mig í spað, sama hvort ég stend mig vel eða illa í lífinu. Ég dæmi sjálfan mig og allt sem ég geri alveg ógeðslega hart og illa, jafnvel þegar ég geri eitthvað perfekt. Eins og þess ræðu hérna. Það er hræðilegur staður að vera á. Ég er búinn að læra það núna með aðstoð sálfræðinga og hjálp frá góðu fólki, að það er allt í lagi að vera vandvirkur og vilja gera eins vel og flott og maður mögulega getur, - en vandvirknin má ekki stjórna ferðinni og því síður reyna að hafa áhrif á útkomuna. Fullkomunarárátta fyrirgefur ekki neitt og hefur engan húmor, og þess vegna truflar hún alla sköpun. Ég vil ekki lengur dæma mig hart - ég ætla að gera ákkurat öfugt - ég vil byrja að lesa mig rétt.
Hætta að dæma mig hart. Byrja að lesa mig rétt.
Nú ætla ég að sleppa tökunum á að faðmlaginu á Palla 14 ára, og segja honum að fara út að leika sér og vera bjútíful. Ég veit hvernig sagan um hann fer. En hér er salur fullur af fólki sem er 14 ára núna og þau vita ekki hvernig sagan fer. Nú byrjar stuðið hjá ykkur.
Hjartanlega til hamingju með borgaralegu ferminguna hér hjá Siðmennt, og megi ykkur vegna vel í lífinu. Einu get ég lofað ykkur. Þetta verður ógeðslega gaman. Og bannað að fara í fýlu.
Takk.