Arna Sigríður Albertsdóttir, hjólreiðakona og nemi, hélt ræðu við Borgarlega fermingu Siðmenntar í Arnardal, Ísafirði þann 28. júlí 2018.
Kæru fermingarbörn og fjölskyldur – innilega til hamingju með daginn.
Það er oft talað um að á þessum tímapunkti sé maður kominn fullorðinna manna tölu, en mér finnst ég ennþá ekkert mjög fullorðin. Svo ég ákvað að segja ykkur hvað ég held að ég hefði verið til í að heyra þegar ég fermdist, fyrir 14 árum. Þá var ég feimin og frekar óörugg í rauðri flauelsdragt með lítil ferhyrnd gleraugu og rauðum skóm í stíl. Það var flott þá, ég lofa!
Ég á það sameiginlegt með ykkur að hafa verið svo heppin að alast upp hérna á Ísafirði. Ég ólst upp á Eyrinni með foreldrum mínum og bróður. Ég var alltaf ,,úti að leika’’ með krökkunum í hverfinu og á tengdi því margar góðar minningar.
Ég æfði íþróttir og var komin á fullt í skíðum þegar ég varð fyrir því óláni að slasast í skíðaslysi 16 ára.
Ég man ekkert eftir því sem gerðist, kannski sem betur fer, en í kjölfarið varð ljóst að ég var með mænuskaða. Ég hef enga tilfinningu eða hreyfigetu fyrir neðan brjóst svo að nú þarf ég að nota hjólastól.
Það var ótrúlega erfitt að þurfa að læra á lífið upp á nýtt með mænuskaða- ég fór í langa og stranga endurhæfingu.
Mér reyndist það ekki síður andlega en líkamlega erfitt að lenda í þessu slysi og glíma við afleiðingar þess.
Það lenda flestir í áföllum, því miður! Áföll eru allskonar og hafa ólík áhrif á þann sem í þeim lendir. Þá er eðlilegt að vera sorgmæddur, hræddur, reiður og pirraður og það er líka bara stundum alveg nauðsynlegt.
Það er líka nauðsynlegt að láta það ekki vara of lengi. Muna að maður sjálfur hefur hellings áhrif á það hvernig manni líður.
Ég hef lært það að það hjálpar mér ekki neitt að vera neikvæð, það breytir ekki aðstæðunum sem ég er í.
Þess vegna reyni ég alltaf að vera þakklát fyrir það sem ég hef.
Ég er nefnilega ótrúlega heppin. Ég á góða fjölskyldu og vini og hef fengið fullt af skemmtilegum tækifærum: Ég fór einu sinni í hraðasta rússíbana í heimi og ég hef líka flogið í svifvæng yfir Reynisfjöru, eitthvað sem allir fá ekkert að gera.
Ef maður er jákvæður og þakklátur er allt miklu skemmtilegra og auðveldara, þá opnast líka möguleikarnir. Ef maður síðan leggur hart að sér geta ótrúlegir hlutir gerst.
Það sem hefur samt hjálpað mér einna mest er handahjólið mitt, en með því get ég hjólað með höndunum. Mér finnst það að stunda hreyfingu og útivist besta lyf sem til er. Það er eitthvað svo magnað við það að komast út þegar maður vill og þangað sem maður vill þegar maður notar bara eigin krafta. Það er ennþá betra í mínum sporum þegar það sem stoppar mig er kannski bara einn ómerkilegur gangstéttarkantur.
Það er alls ekki svo langt síðan að ég lá inni á sjúkrahúsi og gat ekki séð fyrir mér hvernig ég ætti nokkurn tíman eftir að geta sest upp í rúminu, en ég lærði það upp á nýtt og svo ótal margt annað, núna get ég gert eiginlega hvað sem ég vil. Ég get hjólað 100 kílómetra og er ég er að fara á heimsmeistaramótið í handahjólreiðum um næstu helgi. Það hefði ég aldrei getað ímyndað mér.
Þess vegna vil ég hvetja ykkur til að finna ykkar ástríðu, vera dugleg að prófa hluti sem eru utan þægindarammans og að setja ykkur markmið, þau þurfa ekki að vera stór eða flókin, en mega auðvitað verða mjög stór.
Ég á fullt af markmiðum, bæði stórum og litlum, litlu markmiðin eru nefnilega líka alveg nauðsynleg því það er fátt jafn skemmtilegt og hvetjandi en að ná markmiðunum sínum.
Auðvitað ganga markmiðin alls ekki alltaf upp á þann hátt eða þeim tíma sem maður vill, en þá verður maður bara að finna aðrar leiðir eða önnur markmið. Það er mikilvægt að gefast aldrei upp.
Þó þið séuð kannski ekki fullorðin, þá styttist í að þið farið að taka meiri ábyrgð og fáið meira um hlutina að segja. Þess vegna vil ég skora á ykkur að nýta öll þau tækifæri sem ykkur bjóðast, að hafa kjark og þor til þess að fara ykkar leið, gera það sem ykkur þykir skemmtilegt, ekki það sem allir hinir eru að gera. Ég skora á ykkur að njóta náttúrunnar og nána samfélagsins hérna á Ísafirði, vera góð og hjálpsöm og fyrst og fremst standa með ykkur sjálfum.
Arna Sigríður Albertsdóttir