Anna Lára Steindal flutti erindi við borgaralega fermingu á Akranesi 15. apríl 2018.
Kæri fermingarbörn,
kæru foreldrar, ættingjar og vinir,
Ég heiti Anna Lára Steindal og er heimspekingur og starfa hjá Rauða krossinum. Fyrst af öllu vil ég segja ykkur hvað ég er ánægð með að fá að vera með ykkur hér í dag á þessum mikilvæga degi í lífi ykkar. Að fermast er merkur áfangi. Þó nú séu liðin 35 ár og fimmtán dagar síðan ég fermdist sjálf hér á Akranesi man ég eftir þeim degi einsog það hefði verið í gær. Ég var spennt og glöð og stolt, það man ég. En tilfinningin sem ég man best eftir var aukin ábyrgðartilfinning. Mér fannst ég vera að stíga inn í lífið sem ábyrg manneskja og mér væru allir vegir færir. Á þessum degi var ég nefnilega að taka talsvert stóra ákvörðun um hvernig manneskja ég vildi vera og leggja línurnar um þær hugmyndir og gildi sem hafa verið mér leiðarljós í lífinu síðan. Mér hefur ekki alltaf tekist vel upp, stundum hef ég gert kjánalega hluti sem ég er ekki stolt af, stundum hef ég misst sjónar á þessum gildum og þeim hugmyndum sem ég þó veit að eru farsælt veganesti í þessa vegferð sem við köllum líf. En á heildini litið hefur það sem ég lærði í fermingarundirbúningi fyrir þrjátíu og fimm árum og sú ákvörðun sem ég tók um að vera manneskja sem ber ábyrgð á sjálfri sér, sýnir öðrum góðvild og sanngirni reynst heilladrjúg. Mér finnst ekki ólíklegt að eftir þrjátíu og fimm ár munið þið hugsa með svipuðum hætti til þeirrar stundar sem við deilum nú hér, að Görðum. Og það er reyndar ákaflega viðeigandi að hugsa um þetta hér að Görðum sem er gamalt menningar- og höfðingjasetur sem geymir sögu sem við erum öll örlítill hluti af því það leiðir hugann að því að í gegnum aldirnar hafa manneskjur alltaf þurft að taka þessa ákvörðun – meðvitað eða ómeðvitað: Hvernig manneskja ætla ég að vera? Og hvernig ætla ég að fara með þá ábyrgð sem lífinu fylgir? Hvaða leið ætla ég að velja? Það er nefnilega þannig að við höfum öll alltaf val – nema um það eitt að þurfa að velja.
Jean Paul Sartre var mjög frægur heimspekingur og hann orðaði þetta á þá leið að manneskjan væri dæmd til að vera frjáls. Kannski hafið þið lesið eitthvað um Sartre eða eitthvað eftir hann í fermingarundirbúningnum. Heimspekin hans hefur verið kölluð tilvistarheimspeki – því hún fjallar um listina að lifa og lifa vel. Í öllu falli veit ég að þið hafið verið að hugsa um frelsið, valkosti og ábyrgð ykkar sem manneskjur í fermingarundirbúningnum. Og þið völduð að fermast – þess vegna erum við hér samankomin á þessum fallega degi.
Á hverju ári fermist mikill fjöldi barna á vegum Siðmenntar og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt. Börnin njóta undirbúnings og kennslu hjá Siðmennt og er fernmingarundirbúningurinn fjölþættur og vandaður. Tilgangurinn er að þið fáið að kynnast og tileinka ykkur skapandi og gagnrýna hugsun, temja ykkur sjálfstæði í orðum og athöfnun, þroskast til að komast vel og farsællega til manns. Með öðrum orðum – þið fáið leiðsögn um hvernig þið getið farið vel með frelsið okkur er gefið og náð góðum tökum á listinni að lifa. Það er með listina að lifa einsog aðrar listir, hana þarf að æfa og ástunda til að ná tökum á henni.
Ferming Siðmenntar kemur frá orðinu confirmation sem merkir styrking og er til eflingar þroska ungmenna á þeim aldri þar sem horft er æ meira til fullorðinsára og barndómurinn hverfur senn og verður að minningum. Mörg menningarsamélög hafa einhverskonar athöfn sem markar skilin á milli þess að vera barn og vera fullorðinn. Einu sinni var ég á ferðalagi í Kenía, landi Afríku, þar sem mér var boðið í te í litlu þorpi í Masai Mara hjá fólki sem tilheyrir ættbálki Masaia. Þar var ungur maður, fáum árum eldri en þið, sem skar sig úr hópnum því á meðan allir voru með rautt teppi yfir axlirnar var hann með blátt. Þegar ég spurði út í þetta var mér sagt að þetta væri vegna þess að hann hefði nýlega staðist þá eldraun að breytast úr dreng í mann. Hjá Masaium er athöfnin þó svolítið öðruvísi og hættulegri en hjá okkur. Því drengir eru sendir út á sléttuna í hóp og mega ekki koma heim fyrr en þeir hafa veitt ljón. Eða þannig var það að minnsta kosti þangað til bannað var að veiða þau á sléttunni. Sá sem felldi ljónið fél bláa skikkju, og reyndar líka hatt úr höfði ljónsins, á meðan hinir sveipuðu sig í rautt. En allir fóru þeir sem drengir út á sléttuna en sneru til baka sem menn. Og mestan heiður hlaut sá sem sýndi mest hugvit og hugrekki – sá sem felldi ljónið. Hann var höfðingjaefni.
Þessi athöfn er mjög fjarri okkar hugarheimi og veruleika og vísast finnst ykkur þetta skrýtin leið, jafnvel svolítið hlægileg. Og það fannst mér líka. En á meðan ég sat og drakk te með þessu góða fólki áttaði ég mig á því að tilgangurinn er sá sami og hjá okkur – það eru bara aðstæðurnar sem eru ólíkar. Markmiðið er að kenna drengjunum að bera ábyrgð á sjálfum sér, innræta þeim hugrekki og visku og færni í listinni að lifa. Að kenna þeim að takast á við lífið og forðast þær hættur sem eru algengastar á þeirra heimaslóðum. Það er nefnilega svolítið erfitt að vera manneskja og bera ábyrgð á lífi sínu, draumum og vonum. Það er svo margt sem afvegaleiðir og stundum er langtum auðveldara að berast með straumnum, láta duttlunga tilverunnar teyma sig áfram frekar en að standa í lappirnar, standa með sjálfum sér og draumum sínum, lífi sínu.
Ég veit að kennslan sem þið nutuð í vetur fór gjarnan fram á formi heimspekinnar þar sem þið fenguð að velta fyrir ykkur ýmsum spursmálum lífsins af ýmsum og ólíkum sjónarhóli og í ólíku samhengi. Allt er það til þess að örva hugsunina, opna nýja heima, efla yfirvegun og þroska greinandi samtal og hugsun svo þið getið farið vel með þá ábyrgð sem felst í því að vera manneskja. Það er nefnilega ekki alltaf auðvelt – alls ekki. Ég verð að segja þetta einu sinni enn, því það er svo mikilvægt.
Námsefnið og umræðuefnin í undirbúningi fyrir daginn í dag hafa verið margvísleg, eiginlega um allt milli himins og jarðar. Mestu skiptir þó að þið hafið lært eitthvað og námið hafi opnað hug ykkar og gert ykkur bæði forvitnari og víðsýnni en áður. Námskeið hafa engan tilgang, ef þau skilja ekki eftir í huga manns og hjarta eitthvað nýtt og sterkan hvata til að halda áfram að læra og þroska sig. Það er verkefni sem tekur alla ævina, því námi lýkur aldrei og má aldrei ljúka. Maðurinn er að mótast og breytast alla ævi, en það sem við lærum ung fylgir okkur í lífinu og þess vegna er svo mikilvægt að það sé bæði gott og jákvætt.
Í dag eru liðin þrjátíu og fimm ár og fimmtán dagar síðan ég fermdist. Ykkur finnst það vísast einsog heil eilífið, en mér finnst svo örstutt síðan. Þegar ég leiði hugann að þessum þrjátíu og fimm árum átta ég mig samt á því að á leiðinni hef ég týnt upp viskumola –öðlast lærdóm sem byggir þó á þeirri ákvörðun sem ég tók og staðfesti á fermingardaginn um að vera ábyrg og almennileg manneskja. Þessi ár hafa verið skemmtilegt ferðalag, sumt fór einsog ætlað var og annað ekki, einsog gengur. En ég hef gert eina mjög dýrmæta uppgötvun sem mig langar til að deila með ykkur: Það er að þegar við erum opin og víðsýn og höfum hugrekki til að kynnast nýjum hugmyndum, nýju fólki, nýjum stöðum, nýrri veröld – þá vöxum við sem manneskjur og lærum svo margt dýrmætt. Ekki aðeins um aðra heldur líka um sjálf okkur og heiminn sem við erum hluti af.
Það er nefnilega þannig að margbreytileiki mannlífsins gefur lífinu óneitanlega mikið gildi, stækkar hann og dýpkar. Með því að fermast borgaralega hafið þið lagt það á ykkur að skera ykkur úr fjöldanum og benda öðrum á að það er ekki bara allt í lagi að vera öðruvísi, heldur getur það líka verið gott og skemmtilegt. Kannski hefur það verið erfitt, kannski hafið þið þurft að réttlæta ákvörðun ykkar fyrir öðrum. En bara með því að gera það standið þið örugglega sterkari fyrir vikið og betur undir það búin að takast á við áskoranir fullorðinsáranna og standa undir þeirri ábyrgð að vera manneskja sem stendur á eigin fótum í risastórri veröld.
Hvaða ráðleggingar á ég svo að gefa ykkur sem verðið brátt fullorðin? Þegar ég var að velta því fyrir mér hvaða heilræði ég ætti að gefa ykkur á þessum tímamótum kom margt upp í hugann en þessi fimm einföldu ráð stóðu upp úr:
- Verið heiðarleg, bæði gagnvart sjálfum ykkur og öðrum.
- Verið dugleg, bæði í skólanum og heima hjá ykkur.
- Verið glöð, því lífið býður þá upp á svo margt skemmtilegt og skrýtið.
- Undirst og verið forvitin, haldið áfram að safna fróðleik og færni alla ævi.
- Sýnið væntumþykju, umburðarlyndi og mannúð, því saman getum við svo margt.
Þetta eru heilræðin sem ég vil miðla til ykkar.
Aldamótaárið 2000 kom út lítil bók á íslensku sem ekki lét mikið yfir sér. Hún heitir Siðfræði handa Amador og er eftir spænskan heimspeking sem hetir Fernando Savater. Bókin er í raun bréf til sonar hans, Amador, þar sem rætt er um frelsið, mennskuna og ábyrgð okkar sem manneskjur. Ég ætla enda á því að lesa fyrir ykkur örlítið brot úr eftirmála bókarinnar – með mínum innilegustu óskum um velfarnað í framtíðinni.
„Hvernig er best að lifa? Þessi spurning þykir mér miklu safaríkari en aðrar sem hafa stórkostlegri hljóm eins og: Hefur lífið einhverja merkingu? Er lífið þess virði að lifa því? Er líf eftir dauðann?
Sjáðu nú til, lífið hefur merkingu, það hefur eina merkingu: það heldur áfram, verður ekki spólað til baka, ekki stokkað upp á nýtt og leiðrétt eftir á. Þess vegna er nauðsynlegt að hugleiða vel hvað maður vill og veita því athygli hvað maður gerir. Og að því búnu … missa ekki móðinn þótt eitthvað fari úrskeiðis. Því engum er gefið að taka sífellt réttar ákvarðanir.
Merking lífsins? Í fyrsta lagi, að reyna að skjátlast ekki; og svo: að leggja ekki árar í bát þó manni skjátlist.“
Kæru fermingarbörn – gangi ykkur vel!
Anna Lára Steindal