Ingrid Kuhlman, leiðbeinandi og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun, flutti eftirfarandi ræðu við borgaralega fermingu í Háskólabíó 2019.
Kæru fermingarbörn, foreldrar, forráðamenn, ættingjar, vinir og aðrir.
Mig langar að byrja á því að óska ykkur innilega til hamingju með daginn. Það eru mér forréttindi og heiður að fá að deila þessum stórmerkilega degi með ykkur.
Mamma John Lennon, sem var einn af Bítlunum sem var um tíma vinsælasta popphljómveit heims, sagði við hann þegar hann var fimm ára að það sem skipti mestu máli í lífinu væri að hann yrði hamingjusamur. Þegar hann byrjaði í skólanum spurði kennarinn alla nemendur hvað þeir ætluðu að vera þegar þeir yrðu stórir. Margir sögðust ætla að verða lögreglumenn, búðarkonur, flugmenn eða hjúkkur. Þegar röðin kom að John Lennon var hann ekki með neitt draumastarf í huga heldur sagðist ætla að verða hamingjusamur. Hann var sendur heim úr skólanum með þeim skilaboðum að hann hefði misskilið verkefnið.
Að öðlast hamingju þykir eftirsóknarvert markmið í lífinu. Fræðimenn hafa lagt sig fram í aldaraðir um að finna hina sönnu uppskrift að hamingjuríku lífi. Hamingjan hefur einnig verið mörgum söngskáldum og rithöfundum hugleikin. Ég er nokkuð viss um að foreldrar ykkar séu með þá framtíðarsýn að þið verðið hamingjusöm.
Í einni smásögu Leó Tolstoj, sem var rússneskur rithöfundur og leikskáld á 19. öld, segir frá hópi barna sem er tjáð að lykillinn að hamingju þeirra sé falinn í garðinum. Þau geta fundið hann og öðlast hamingju en á meðan þau eru að leita mega þau ekki hugsa um hvítu kanínuna í garðinum. Það sem síðan gerist er að í hvert sinn sem þau leita þurfa þau að hugsa um kanínuna og finna þar af leiðandi aldrei lykilinn að hamingjunni.
Við eigum öll hvíta kanínu og jafnvel margar. Hvítu kanínurnar eru uppáhaldsafsakanir okkar fyrir því að gera ekki það sem til þarf til að ná því sem við ætlum okkur og láta drauma okkar rætast. Dæmi um slíkar afsakanir eru: Ég er ekki á réttum aldri, ég er ekki tilbúin(n), ég fæddist á röngum stað, er í röngu stjörnumerki, ég tilheyri minnihlutahópi, ég tala ekki fullkomna íslensku, ég er með ADHD, mig skortir menntun eða hæfileika. Við höldum oft að við séum á einhvern hátt takmörkuð. Sumir segja: „Ef ég gæti bara dansað, sungið, hlaupið, hugsað eða skapað, þá myndi ég gera stóra hluti.” En málið er að þið mynduð ekki gera neitt meira en þið gerið í dag ef þið eruð ekki að nýta þá hæfileika og styrkleika sem þið búið yfir.
Öll búum við yfir styrkleikum. Skýr sýn á styrkleika sína er mjög mikilvæg ef við ætlum að blómstra í lífinu. Hvað svo sem það er sem við tökum okkur fyrir hendur munum við náum mestum árangri og vera ánægðust þegar styrkleikarnir njóta sín. Að þekkja og nýta styrkleika sína getur aukið innsæi í eigin lífi, fyllt okkur orku, kraft og flæði, aukið líkur á að markmið náist og styrkt sjálfstraustið.
Sjálfstraust og trú á eigin getu skiptir miklu máli í lífinu. Takmarkanir þess sem hægt er að öðlast í lífinu eru fáar og flestar eru þær sjálfskapaðar. Mig langar að deila með ykkur sögu um flóaþjálfun. Flær eru alþekkt sirkusdýr og sirkusflóm eru kenndar ýmsar kúnstir. Til að þjálfa þær eru þær settar í krukku með lokinu á. Flærnar, sem geta stokkið hundrað sinnum hæðir sínar, hoppa upp af ákafa en reka sig í lokið aftur og aftur. Það líður ekki langur tími þangað til þær hætta að hoppa eins hátt. Þegar maður tekur svo lokið af hoppa þær ekki lengur upp úr krukkunni, þær kunna það ekki lengur. Stundum erum við eins og þessar flær. Við setjum okkur metnaðarfullt markmið og fyrst eru engin takmörk á draumunum. En svo rekum við okkur á, gerum mistök eða fáum neikvæðar athugasemdir. Þetta hefur þau áhrif að við hættum að gera tilraunir. Við bara skrúfum lokið á og hættum að hoppa. Boðskapurinn í flóasögunni er að við eigum aldrei að gefast upp og halda áfram að hoppa hátt.
Það er nefnilega allt í lagi að gera mistök í lífinu. Thomas Edison, sem var einn af mestu uppfinningamönnum heims á sínum tíma, var einu sinni spurður að því hvort það hefði ekki verið erfitt að gera svona mörg mistök en hann gerði eins og kunnugt er um 10.000 tilraunir áður en hann fann upp ljósaperuna og plötuspilarann. Svar hans var: “Ég gerði engin mistök. Ég fann 9.999 leiðir sem virkuðu ekki. Hver tilraun færði mér nær öllum þessum uppgötvunum.”
Þegar við vinnum að markmiðum okkar er mikilvægt að hlusta ekki á gagnrýni annarra. Mig langar að deila með ykkur sögu um hóp froskaunga sem tók þátt í kapphlaupi. Markmiðið var að komast upp á topp hás turns. Margmenni hafði safnast saman til að fylgjast með hlaupinu og hvetja þátttakendur. Hlaupið var ræst og þá kom í ljós að enginn áhorfendanna trúði því í raun að froskaungarnir kæmust alla leið upp. Það eina sem heyrðist voru setningar eins og: ,,Þeir munu áreiðanlega ALDREI komast alla leið” eða ,,Ekki séns á að þeim takist þetta, turninn er allt of hár!”. Froskaungarnir duttu niður, hver á fætur öðrum, nema einn, sem hélt ótrauður áfram. Eftir mikið erfiði komst hann á toppinn. Allir vildu auðvitað fá að vita hvernig hann hefði farið að því að vinna þvílíkt afrek. Þá kom í ljós að sigurvegarinn var heyrnarlaus! Lærdómurinn af þessari sögu er: Vertu heyrnarlaus þegar einhver reynir að telja þér trú um að þú getir ekki náð því sem þú ætlar þér og látið draumana rætast. Láttu aldrei taka frá þér þína fallegustu drauma og óskir. Hugsaðu allaf um kraft orðanna af því að allt sem þú heyrir og lest hefur áhrif.
Það er ekki aðeins mikilvægt að loka eyrunum fyrir dómhörku annarra heldur þurfum við einnig að átta okkur á því þegar “innri gagnrýnisröddin” tekur völdin og laumar sér inn í hugsanir okkar. Við erum mörg mjög góð í að brjóta okkur niður, kalla okkur illum nöfnum eða fara aftur og aftur yfir mistök í huganum. Lykillinn að vellíðan og árangri er að sýna sjálfum sér umhyggju, hlýju og góðvild fremur en hörku. Koma fram við sjálfan sig eins og maður myndi koma fram við góðan vin. Hvetja sjálfan sig til dáða, standa með sjálfum sér í blíðu og stríðu og vera sinn eigin besti vinur.
Í meistaraverkefninu mínu í jákvæðri sálfræði leitaði ég í viskubrunn eldri borgara til að fræðast um hamingjuna. Ég tók viðtöl við 13 manns á aldrinum 70-91 árs um það hvernig eigi að lifa hamingjuríku lífi. Ég ætla að fá að deila fimm góðum ráðum með ykkur.
Viðmælendendur mínir eru á því að hver sé sinnar gæfu smiður og að maður eigi á að vera höfundur að eigin lífi. Í hamingjunni felst að hafa jákvætt viðhorf og líða vel í eigin skinni. Gera það besta úr því sem maður hefur og vera sáttur við sitt. Forðast að velta sér upp úr því sem maður getur ekki haft áhrif á.
Í öðru lagi nefna þeir mikilvægi þess að rækta tengslin við ástvini. Lífið er lítilsvirði án vináttu og fjölskyldulífs. Jákvæð félagstengsl auka lífsánægju og almenna vellíðan. Það veitir þægilega ilfinningu að eiga gott net í kringum sig og geta deilt tilfinningum sínum og áhyggjum með öðrum. All you need is love, eins og Bítlarnir sungu forðum.
Þriðja atriðið sem viðmælendur nefna er að hafa nóg fyrir stafni og gera það sem veitir manni lífsfyllingu. Hafa tilgang í lífinu og taka virkan þátt. Læra og vaxa og hafa eitthvað sem fangar hugann á hverjum degi. Hafa eitthvað til að hlakka til.
Fjórða atriðið sem þeir nefna er að gefa af sér og láta gott af sér leiða. Vera einhvers virði fyrir annað fólk, stuðla að vellíðan annarra og gera þannig samfélagið betra. Gefa meira en maður þiggur. Gera gagn.
Fimmta atriðið sem þeir nefna er þakklæti. Að sýna ákveðna auðmýkt gagnvart lífinu og taka því ekki sem sjálfsögðum hlut. Hver stund í lífinu er afar dýrmæt og með því að beina athyglinni markvisst að því góða í lífinu eykst jákvæðni, gleði, bjartsýni og vellíðan.
Ég ætla að enda þessa ræðu á vísu sem tengdapabbi minn, Eðvarð Sturluson frá Súgandafirði, samdi:
Svo að geti hugsun okkar orðið skörp og skýr
er skynsemina best að láta ráða,
síðan reyna að þroska það sem innra í okkur býr
efla krafta hugans og vekja þá til dáða.
Þakka ykkur kærlega fyrir og njótið dagsins.