Hildur Knútsdóttir flutti erindi við borgaralega fermingu í Salnum í Kópavogi 22. apríl 2018.
Kæru fermingarbörn og aðstandendur,
Mig langar að byrja á því að þakka fyrir að fá að vera með ykkur hér í dag. Því þegar ég var spurð hvort ég gæti séð mér fært að koma hingað og tala, þá var ég mjög upp með mér og þótti það mikill heiður. Svo liðu vikurnar og þá byrjaði ég náttúrulega að vera svolítið stressuð yfir því hvað ég ætlaði eiginlega að segja við ykkur.
Ég fór að hugsa um mína eigin fermingu, en ég fermdist einmitt sjálf borgaralega árið 1998, og ég reyndi að rifja upp hvað hefði legið mér á hjarta þá og hvort ræðan sem hafði verið haldin hefði hreyft við mér. Og þá fattaði ég að ég mundi barasta ekki neitt eftir ræðunni sem hafði verið haldin í minni fermingu. Ég mundi ekki einu sinni eftir því að það hefði einhver komið og haldið ræðu.
Þannig að það minnkaði aðeins pressuna.
En ég hélt samt áfram að velta fyrir mér hvað ég vildi segja við ykkur. Og ég fann að mig langaði ekki til að koma hérna og messa yfir ykkur um hvernig þið eigið að vera eða hvernig þið eigið að haga ykkur í framtíðinni. Ég ætla ekki að segja ykkur að dagurinn í dag marki tímamót og að athöfnin sé vendipunktur þar sem þið gangið inn í salinn sem börn og að þið verðið orðin fullorðin þegar þið yfirgefið hann. Og mig langar ekki að segja að nú, þegar barnæskan sé að baki, þá þurfið þið að átta ykkur á hinu og þessu og vera svona og hinsegin.
Það eru aðallega tvær ástæður fyrir því að ég ætla ekki að segja það við ykkur:
Í fyrsta lagi: Lífið er skrýtið og flókið. Það er röð tilviljana. Og ég held að það sé ekki hægt að velja eitt andartak, eina stund, þar sem maður verður fullorðin. Ég verð sjálf þrjátíu og fjögurra ára í júní. Ég á tvö börn og er með lán hjá Íbúðalánasjóði. En mér finnst ég samt ekki vera fullorðin. Mér finnst ég oft vera bara krakki í einhverjum þykjustuleik. Eins og um daginn, þegar ég fékk mér nýtt visa-kort. Það er svona gullkort. Þá fannst mér fáránlegt að ég, unglingurinn, væri komin með eins visa-kort og mamma mín á. Því ég man nefnilega enn svo vel eftir kortinu hennar, því ég fékk stundum að leika mér með það þegar ég var lítil.
Og nú skal ég segja ykkur leyndarmál: Eiginlega allir fullorðnir – allavega þeir sem ég þekki – eru bara í einhverjum þykjustuleik, og finnst þeir ennþá vera krakkar inni í sér. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þeim finnst ábyggilega skrýtið að klæða sig í læknasloppinn, í dragtina, í jakkafötin eða flugmannsbúninginn og fara í vinnuna.
Hvað er það líka að vera fullorðinn? Hvað er fullorðinslegt? Að taka ábyrgð, já, það er stundum nauðsynlegt og gott og blessað. En það þykir ekki fullorðinslegt að leika sér. Og það þykir ekki fullorðinslegt að gráta. En ég held að við þurfum að gera meira af hvoru tveggja. Og ekki skammast okkar fyrir það.
Annað sem að hinir svokölluðu fullorðnu gera stundum er að tala niður það sem þeir kalla „barnalegt“. Hafiði til dæmis tekið eftir því að þegar Alþingismenn og ráðherrar vilja gera sérstaklega lítið úr pólitískum andstæðingum sínum og hegðun þeirra, þá fara þeir að tala um að þeir hagi sér eins og þeir séu á leikskóla. Ég þoli það ekki. Því hvað er eiginlega frábærara en leikskóli? Þar er borin virðing fyrir öðrum. Ef einhver gerir á annars hlut er lagt upp úr því að segja fyrirgefðu og að ná sáttum, án þess þó að einhver þurfi að kyngja stoltinu. Á leikskóla eru allir jafnir og enginn er merkilegri en annar. Það er passað upp á að allir fái jafnmarga eplabáta í kaffinu og allir fá kórónu þegar þeir eiga afmæli. Á leikskóla lærir maður alveg fullt og maður fær að vera með vinum sínum allan daginn. Hvað er eiginlega frábærara en að vera á leikskóla? Og ég get sko lofað ykkur því að ef Alþingi Íslendinga væri meira eins og leikskóli þá væri samfélagið betra.
Önnur ástæðan fyrir því að ég vil ekki messa yfir ykkur um einhverjar lífslexíur er síðan sú að ég er bara alls ekki sammála því að eldra fólk sé endilega eitthvað vitrara en ungt fólk. Bara alls ekki. Leikskólarnir og Alþingi eru kannski gott dæmi. Við, hin fullorðnu, höfum auðvitað meiri reynslu í einhverjum tilvikum, en það er ekkert endilega alltaf af hinu góða. Reynsla getur auðvitað verið dýrmæt. En slæm reynsla getur líka dregið úr fólki. Gert það meinhæðið og vonlaust.
Ég gæti sagt ykkur frá mínum sigrum og ósigrum, en það er engin ástæða til þess að ætla að þeir verði endilega þeir sömu og ykkar. Veggirnir sem ég hef rekist á eru ekkert endilega veggirnir sem bíða ykkar. Og stundum er bara betra að vera ekki meðvitaður um hindranir sem bíða. Því kannski ákveðið þið bara að fljúga í staðinn fyrir að hlaupa, og af hverju ætti ég þá að vera búin að hræða ykkur með sögum af öllum holunum á veginum áður en þið leggið af stað?
Ég þarf ekkert að segja ykkur hvað skiptir máli í lífinu. Ég þarf ekki að segja ykkur að manneskjur eru verðmætari en hlutir, vinátta er dýrmætari en eiginlega allt, og að skyndigróði er oft skammlífur. Þið vitið að við þurfum að passa upp á plánetuna okkar og lífríkið hér, því ef umhverfið er í rústi, á hverju eigum við þá að lifa? Þið vitið að stríð er óásættanlegt ástand og að fjölbreytt samfélag er sterkara samfélag.
Ég held það sé frekar hið svokallaða fullorðna fólk sem þyrfti að láta minna sig á þetta. Fólkið sem öllu ræður hér á jörðinni, fólkið sem skipar ríkisstjórnir, fólkið sem er ráðherrar, forsetar og forsætisráðherrar. Fólkið sem stjórnar stórfyrirtækjum. Því það eru þau sem eru að skemma plánetuna, það eru þau sem einblína á skyndigróða, það eru þau sem fara í stríð og kasta sprengjum.
En það er samt þrennt sem mig langar til að segja við ykkur. En það er ekki vegna þess að þið eruð unglingar. Það er ekki vegna þess að ég er fullorðin og að þetta sé einhver sannleikur sem ég hef höndlað vegna þess. Nei. Ástæðan er sú að þetta er eitthvað sem ég þarf að minna sjálfa mig á á næstum því hverjum degi. Þetta er það sem ég er enn að reyna að læra og tileinka mér.
Númer eitt: Það er hægt að láta drauma sína rætast. En það gerist ekki af sjálfu sér. Þeir sem að skara fram úr eru fæstir snillingar. Þeir eru yfirleitt bara duglegir. Og munum svo endilega að það skiptir heldur ekki öllu máli hvort maður skarar fram úr eða ekki. Það sem skiptir máli er að gera það sem veitir manni gleði.
Númer tvö: Og þetta er eitthvað sem ég þarf að minna mig á á hverjum einasta degi. Það er: Ekki vera of dómhörð. Leyfum öðrum að njóta vafans. Kannski er stærðfræðikennarinn leiðinlegur við ykkur af því að maðurinn hennar var að greinast með krabbamein og hún er áhyggjufull. Kannski stendur bekkjarfélagi sig illa í skólanum af því einhver er vondur við hann heima. Það er svo auðvelt að vera dómharður og ákveða að eitthvað sé svona eða hinsegin, án þess að vita það í raun. Og getiði ímyndað ykkur hversu mikið betri heimurinn yrði ef allir væru aðeins duglegri við að setja sig í spor annarra? Tækjum við þá ekki betur á móti flóttamönnum? Myndu ekki falla færri sprengjur?
Og númer þrjú: Munið að þið hafið rödd. Ef ykkur blöskrar eitthvað, segið eitthvað. Ekki láta valta yfir ykkur. Látið í ykkur heyra. Stundum getur ein rödd breytt heiminum. En við erum auðvitað sterkari í kór. Og það er skemmtilegra að syngja þannig.
Til hamingju með daginn og takk fyrir mig.