Geir Konráð Theodórsson, sögumaður og hönnuður, flutti eftirfarandi ræðu við borgaralega fermingu á Akranesi 2019.
Komið þið blessuð og sæl og hjartanlega til hamingju með daginn.
Í dag eru tímamót fyrir ykkur. Þið eruð að vaxa úr grasi, á leiðinni að verða fullorðin og þið eruð að taka stórt skref inn í framtíðina.
Framtíðin er ykkar.
En framtíðin getur verið ögn ógnvekjandi. Margir segja: “heimur versnandi fer“.
Sjónvörp, símar og öll þessi tæki okkar virðast oft yfirfull af neikvæðni. Þessi tæki sýna okkur náttúruhamfarir, stríð, sjúkdóma, fátækt og að allt sé að fara á versta veg.
Þetta getur verið yfirþyrmandi.
Framtíðin er ykkar.
Hverskonar framtíð er þetta fyrir ykkur?
En ekki óttast, öll þessi neikvæðni sem glymur í kringum okkur gefur oft ekki rétta mynd af raunveruleikanum.
Miðað við allar þær kynslóðir sem lifað hafa í gegnum árþúsundin þá duttu þið í lukkupottinn, og ég skal segja ykkur það að miðað við fortíðina að þá er framtíðin björt. Við erum 7.5 milljarðar á jörðinni í dag. En þrátt fyrir að við höfum aldrei verið fleiri, þá hafa hlutfallslegar staðreyndir á ótrúlega mörgu aldrei verið betri.
Færri deyja vegna náttúruhamfara.
Færri deyja í stríði.
Færri eru myrtir af glæpamönnum.
Færri lifa í sárafátækt.
Færri fara hungraðir að sofa.
Færri sem lifa í þrældómi.
Færri mæður deyja við að barnsburð.
Færri ung börn deyja fyrir aldur fram.
Færri börn eru neydd til að vinna.
Færri smitast af alnæmi.
Færri reykja.
Færri kjarnorkusprengjur eru til.
Aldrei hafa fleiri búið í lýðræðisríkjum en í dag.
Aldrei hafa fleiri haft aðgang að rafmagni og veraldarvefnum.
Aldrei hafa fleiri verið læsir.
Aldrei hafa fleiri komist úr fátækt og upp í millistétt.
Aldrei hafa fleiri landsvæði verið gerð að þjóðgörðum.
Aldrei hafa fleiri haft svona háar lífslíkur.
Aldrei hafa fleiri haft aðgang að menntun.
Aldrei hafa fleiri verið bólusettir gegn sjúkdómum.
Aldrei hafa fleiri haft aðgang að öruggu vatni.
Aldrei hafa fleiri haft jafnmikinn frítíma og nú.
Aldrei hefur mannkynið framleitt jafn mikið af mat, skrifað jafn mikið af vísindagreinum, eða skapað jafn mikið af allskonar list. Er þetta ekki dásamlegt?!
Vert er að hafa þetta í huga næst þegar neikvæðnin glymur í kringum ykkur.
Framtíðin er ykkar.
Auðvitað eru enn vandamál í heiminum, margir eiga um sárt að binda, illa er farið með náttúruna og margt sem við öll verðum að gera betur. En eins og þið heyrið þá er hægt að gera heiminn betri. Þið þurfið samt ekkert að hraða ykkur inn í framtíðina, hvað svo sem þið gerið þá vona ég að þið njótið samtíðarinnar. Njótið stundarinnar. Njótið þess að vera ung. Bara njótið þess að lifa.
Það er svo dásamlegt að lifa og njóta í dag.
Heimurinn er tengdur og kóngafólk fortíðarinnar myndi öfunda ykkur fyrir það úrval sem ykkur býðst til að njóta. Ávextir ferðast yfir hnöttinn til ykkar, tónlist mannkynssögunnar bíður ykkar á veraldarvefnum og þið getið spjallað við fólk hvar sem það er í heiminum.
Hugsuðir og spekingar fortíðarinnar myndu líka öfunda ykkur. Það er svo mikil þekking sem hefur verið safnað saman og er aðgengileg í dag, og það er svo margt sem við getum gert með tækjum og tólum að það er töfrum líkast. Það er ein hugvekja um töfrakenndan raunveruleika okkar sem fær mig ávallt til að brosa.
Það er vísindunum að þakka að við vitum með vissu að við erum öll hérna tengd saman.
Hvað meina ég með að við séum tengd?
Við vitum núna að við erum tengd hvort öðru líffræðilega, við öll hérna inni eigum einhverstaðar í fortíðinni sameiginlegan forföður eða formóður. Ekki bara við fólkið hérna inni, allt mannfólkið á jörðinni er tengt. Ekki nóg með það, ef við förum nógu langt aftur í tímann finnum við líffræðilega tengingu við kettina hérna fyrir utan, við fluguna í glugganum, við blómin í skreytingunni. Við vitum að allt líf á jörðinni er tengt þróunarlega séð.
Vísindin segja okkur að við erum líka tengd efnislega. Við og bílarnir hér fyrir utan, við og steypan í húsinu, við steinvala á toppinum á Everest fjallinu, við og jörðin sjálf. Nær öll efnin í okkur og öllu hérna í kringum okkur urðu til saman fyrir löngu þegar fornar stjörnur brunnu út og sprungu. Efnisskýið kom svo saman að nýju og sólin okkar myndaðist, jörðin og hér erum við í dag.
Að lokum erum við svo tengd alheiminum sjálfum. Hver einasta stjarna á næturhimninum, hver einasta vetrarbraut, hvert einasta atóm í alheiminum. Allt var tengt saman í óendanlega þéttu faðmlagi fyrir Miklahvell.
Að við séum öll svona tengd þykir mér magnað og í raun nauðsynlegt að muna eftir.
Ég vona að þið munið eftir þessum tengingum á lífsleiðinni.
Flóttafólkið sem þið sjáið í fréttunum, þau eru ættingjar ykkar.
Nashyrningar sem eru veiddir til að nota hornin þeirra í kukl, þeir eru ættingjar ykkar,
Kóralrifið sem deyr við súrnun sjávar er ættingi ykkar.
Við erum öll ein stór fjölskylda á þessum bláa hnetti sem við tengjumst, og fjölskyldur eiga að hugsa vel um hvort annað.
Kæru fermingabörn.
Njótið þess nú að vera með fjölskyldunni ykkar.
Njótið dagsins.
Njótið lífsins.
Framtíðin er ykkar.
*Fyrir þá sem vilja vita meira þá er ræðan innblásin af bókinni Factfulness og heimildunum þar. Factfulness: Ten Reasons We’re Wrong About the World – and Why Things Are Better Than You Think er bók frá 2018 eftir Hans Rosling, son hans Ola Rosling og tengdadóttur, Anna Rosling Rönnlund.