Bragi Bjarnason flutti erindi við borgaralega fermingu í Fjölbrautaskóla Suðurlands 21. apríl 2018
Kæru fermingarbörn, fjölskyldur þeirra og aðrir gestir
Það er mikill heiður að fá að standa hér í dag og ávarpa þennan flotta hóp sem gengur í gegnum einn af merkilegri áföngum lífsins. Innilega til hamingju með daginn. Ég heiti Bragi Bjarnason og er 37 ára (reyndar ekki fyrr en næsta miðvikudag en hver er að telja……..), þriggja barna faðir sem býr hérna á Selfossi. Ég er uppalin á sveitabæ rétt austan við Hellu, gekk í ML á Laugarvatni og fór þar yfir götuna og kláraði íþróttafræðina við íþróttakennaraskólann. Hef starfað sem þjálfari á öllum aldursstigum, kennari, framkvæmdastjóri íþróttafélags og núna er ég menningar- og frístundafulltrúi hjá Sveitarfélaginu Árborg en þar er einmitt hluti af mínu starfi að vinna að uppgangi íþrótta og frístunda ásamt forvörnum, bæjarhátíðum, ferðaþjónustu og fleiru á svæðinu. En nóg af mér, þetta er dagurinn ykkar og ég ætla að vona að þið njótið dagsins og getið tekið eitthvað jákvætt og nýtanlegt úr því sem ég hef fram að færa til ykkar.
Það má segja að maður komist yfir ákveðin fyrsta þröskuld við fermingu. Verið að klára einn áfanga í lífinu og opna þann næsta. Það að segja maður verður hálf fullorðin eða það var allavega sagt við þann sem hér stendur fyrir um 23 árum síðan þegar ég var í svipuðum sporum og þið eruð í dag og þó margt hafi breyst á þessum árum þá stendur þessi staðhæfing finnst mér enn í fullu gildi. Þið sem einstaklingar standið á sömu tímamótum og allir aðrir sem hafa gengið í gegnum ferminguna. Það erum við samfélagið sem höfum aftur á mót breyst heilmikið á þessum tíma og til hins betra í mörgum efnum líkt og það þekkist sem betur fer ekki mikið í dag að þegar maður var á fermingarári þá mátti maður orðið mæta á þorrablótið í sveitinni og fá sér staup með mömmu og pabba. Þarna höfum við sem samfélag breyst til batnaðar að mínu matiJ.
Það er svo geðveikt margt svo stórkostlegt að gerast á ykkar aldri sem þið finnið fyrir en um leið eru þið að mótast til framtíðar. Reyna að átta sig á því hvað maður er og hvað maður vill. Hrífast af einhverjum, upplifa fyrstu ástina, fá áhuga á nýjum hlutum.
Allt eitthvað sem ég man ennþá og ég held að foreldrar hérna geti rifjað upp líka. Margt sem maður sjálfur getur tengt sig við og eitt af því væri t.d. þar sem ég hef alla mína tíð verið virkur í íþróttum og keppt í mjög mörgum íþróttagreinum. Á ykkar aldri byrjaði ég fyrst að stunda körfubolta og æfa reglulega og nota bene ég var ekki alls ekki bestur á fyrstu æfingunni og heldur ekki á annarri en mér fannst þetta gaman og ég hélt áfram að mæta. Eitt skref í einu og svo fékk ég að koma inn á í leik undir lok skólaársins.
Þarna er ég að lýsa hlut sem ég fann og ákvað eftir fyrstu æfingarnar. Mér fannst þetta skemmtilegt og mig langaði til að spila svo ég setti mér markmið. Markmið um að ná að komast í liðið. Ég vissi að ég yrði að standa mig betur en hinir og því æfði ég mig heima og á endanum náði ég markmiðinu. Þá hugsaði ég mér annað markmið. Ég ætlaði að verða hluti af byrjunarliðinu og náði því haustið eftir með því að vera duglegur að æfa allt sumarið og síðan, næsta markmið að verða bestur í liðinu og þótt ég segi sjálfur frá þá tel ég mig hafa náð því líka. Í þessu litla dæmi sem er dagsatt hafði ég áhuga og vilja til að bæta mig og ná lengra. Ég hafði trú á sjálfum mér í þessu. Á sama tíma hafði ég nefnilega ekki alltaf trú á sjálfum mér í öðrum hlutum. Var smá feimin í samskiptum, ekki bestur að svara fyrir mig og varð því oft undir hjá þeim sem voru duglegir við að hreyta orðum í mann og reyna að niðurlægja einstaklinga. Kannski einhver ykkar hérna sem kannist við þessa stöðu eða eruð í hinum endanum á henni. Alla vega, ekki láta svona aðstæður brjóta ykkur niður. Hafið trú á ykkur sjálfum og haldið áfram eða leitið að því sem ykkur finnst gaman og hafið áhuga á að gera. Einbeita sér að því jákvæða í kringum mann og smátt og smátt mun það ná yfir allt þetta neikvæða.
Markmiðin í lífinu eiga akkurat að vera jákvæð, uppbyggjandi og fylla okkur eldmóð að ná settu marki. En þau verða auðvitað líka að vera raunhæf þannig að þið náið þessum litlu reglulegu markmiðum en svo setur maður sér stærri langtímamarkmið. Nefni stutt dæmi:
- Þið ætlið að klára stúdentspróf eða komast í landsliðið í ykkar grein. Þetta væri t.d.langtímamarkmið
- Til að ná þessu langtímamarkmiði er ég með fullt af litlum markmiðum sem leiða mig áfram að því. T.d. ég ætla ná öllum prófum á fyrstu önninni eða gera aukaæfingar heima á hverjum degi þennan mánuðinn. Allt hlutir sem leiða þig að lokamarkmiðinu.
Markmiði er hægt að breyta eða beygja og svo má ekki gleyma að við erum öll ólík, ótrúlega fjölbreyttur hópur með ólíka sýn á hlutina sem eiga algjörlega rétt á sér. Sem þýðir að við setjum okkur mismunandi markmið í takt við það og ekki festast í einhverjum staðalímyndum sem eru teiknaðar upp í blöðum eða á netinu. Verið þið, þið sjálf. Þannig að útfrá því, setjið ykkur markmið því það auðveldar ykkur að ná árangri í því sem þið eruð að fást við því. Alveg sama hvað það er og þetta er ótrúlega auðvelt og mörg ykkar ef ekki öll eruð að gera þetta ómeðvitað í dag.
Líkt og ég nefndi áðan hefur samfélagið okkar breyst heilmikið á ekki mjög mörgum árum og enn eitt jákvætt í þeim efnum eru ykkar möguleikar á að hafa áhrif á nærsamfélagið. Það er nefnilega þannig að við íbúarnir á öllum aldri búum til okkar nærsamfélag og nú er tæknin (líkt og facebook, twitter eða Snapchat) búin að færa ykkur einstaklingunum aukið vald til að koma fram með góðar hugmyndir eða úrbætur fyrir samfélagið. Bið ykkur bara að vera málefnaleg, kurteis og skrifa ekki á netið eitthvað um einstakling sem þú gætir ekki sagt við hann í eign persónu.
En varðandi samfélagið okkar þá finnst mér alltaf góð tilvitnun „Þetta er ekki spurning um hvað samfélagið gerir fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir samfélagið“ Sem við eru t.d. í dag upplifa í gegnum „Plokkið“. Fólk að fara út og tína rusl í kringum sitt hverfi til að halda því snyrtilegu. Algjörlega frábært og sýnir að það er hægt að gera ótrúlega margt með samstilltu átaki.
Önnur leið fyrir ykkur til að hafa áhrif á samfélagið núna væri t.d. með þátttöku í ungmennaráði í ykkar sveitarfélagi. Skoðun ykkar ungmennanna skiptir nefnilega gríðarlega miklu máli enda eru það þið sem takið við af okkur hinum og það er frábært ef þið hafið skoðun á því sem er að gerast í dag og komið henni áfram. Þarna er enn einn farvegurinn komin sem var því miður ekki til þegar ég var á ykkar aldri. Þið finnið það kannski að ég öfunda ykkur aðeins að vera í þessum sporum í dag
Já tíminn er fljótur að líða og tækfærin liggja í loftinu og bíða eftir því að verða gripinn og gerð að einhverju stórkostlegu. Þið hafið öll hér inni jafn mikla möguleika á að grípa þessi tækifæri og látið aldrei draga ykkur niður í þá hugsun „Ég get þetta ekki“ því þið getið gert það sem ykkur langar til ef þið hafið viljann og áhugann.
Ég get samt lofað ykkur einu, það verður ekkert endilega auðvelt og það gerist svo sannarlega ekki af sjálfu sér. Þið munið öll hérna inni gera mistök einhverntímann á lífsleiðinni eða lenda í erfiðum aðstæðum sem þarf að takast á við. Og það er fullkomlega eðlilegt. Ég meina horfum aftur til ársins 1903 þegar Wright bræðrum tókst að koma mannaðri flugvél á loft í fyrsta skipti. Ef þeir hefðu ekki haft trú á sjálfum sér og óbilandi áhuga þá hefðu þeir hætt löngu áður því þeir gerðu ótalmörg mistök á leið sinni að þessum örlagaríka degi 14. desember 1903 þegar flugvélin komst loksins á loft og hélst uppi.
Þið eruð hér í dag að takast á loft, inn í nýjan áfanga á ykkar lífsleið. Verið óhrædd við mistökin og notið þau til að læra af þeim og halda áfram að bæta okkur sem einstaklingar.
Innilega til hamingju með daginn ykkar, takk enn og aftur fyrir að leyfa mér að vera hluti af honum og vegni ykkur sem allra best í framtíðinni. Ég hef fulla trú á ykkur.
Bragi Bjarnason