Bergþór Þór Ingólfsson, leikari og leikstjóri, hélt ræðu við borgaralega fermingu í Reykjanesbæ 30. mars 2019. Myndir frá athöfninni má sjá á Facebook-síðu Siðmenntar.
Ferming.
Til hamingju með daginn.
Njótið hans.
Verið glöð.
Verið stolt.
Verið spennt.
Í dag eruð þið boðin velkomin í tölu fullorðinna.
En þið verðið ekki fullorðin
með því að ganga í gegnum þessa athöfn.
Þið verðið ekki fullorðin í dag.
Ekkert okkar verður fullorðið á einum degi.
Ég held ég verði til dæmis aldrei fullorðinn.
Fermingunni fylgja engin aukin lagaleg réttindi.
En á næstu árum verða réttindunum og skyldum smám saman mjatlað í ykkur.
15 ára megið þið:
Fara í sund með barn sem er yngra en 10 ára.
Þið takið ábyrgð á eigin kynhneigð og -hvötum.
Þið verðið sakhæf.
16 ára:
Eruð þið laus undan skólaskyldu.
Þið megið ganga í og úr þeim trúfélögum sem ykkur hentar.
Þið megið taka dráttarvélarpróf.
Þið megið fara til læknis án þess að láta foreldrana vita.
Þið greiðið fullan skatt.
17 ára:
Megið þið taka bílpróf
og stunda áhugaköfun.
18 ára:
Verðið þið sjálfráða.
Fjárráða.
Þið berið ábyrgð á peningum ykkar og skuldum.
Foreldrar ykkar bera ekki lengur ábyrgð á ykkur.
Megið ganga í staðfesta sambúð.
Megið kaupa tóbak.
Þið megið bjóða ykkur fram í kosningum.
Þið fáið kosningarétt. – notið hann!
20 ára:
Megið þið kaupa áfengi og eiga skotvopn.
30 ára:
Eruð þið orðin nógu gömul til að hægt sé að skipa ykkur sem dómara.
35 ára:
Getið þið boðið ykkur fram til forseta.
Þið hafið 21 ár til að undirbúa framboðið. Ég mana ykkur öll.
Þessar skyldur og réttindi detta niður á ykkur á tilteknum afmælisdögum
og allt gott með það.
En þetta eru bara lögin
og þau eru mannanna verk.
Svo er það lífið.
Lífið sem þið ætlið að lifa innan laganna.
Lífið er svo miklu stærra,
svo miklu stórkostlegra,
svo miklu undraverðara.
Þegar þið fæddust inn í þennan heim
voruð þið saklaus
og aðeins fær um það eitt
að leita uppi geirvörtu til að nærast.
Eða hvað?
Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi átt spjall
við færustu rannsóknarteymi heims
en ég hef verið að Gúggla og Jútjúba
og þykist viss um að mjög flínkir vísindamenn
hafi verið að grufla í því síðustu þrjátíu árin
að komast nærri þeirri staðreynd
að í framheila okkar séu staðsettar
það sem kallað hefur verið á íslensku spegilfrumur.
Frumur, sem gera okkur fært að spegla
tilfinningar okkar og tilveru í öðrum lífverum.
Ef þetta er satt
þá fæddumst við ekki aðeins saklaus
og fær um að leita að geirvörtu.
Við fæddumst með samhyggð.
Við fæddumst með eiginleikann
til að finna til með öðrum.
Við fæddumst til að leita ástúðar
og veita ástúð til baka.
Frumþörf okkar er að tilheyra.
Vera hluti af samfélagi.
Góður geðlæknir sagði mér
að 20 sekúndna faðmlag
framleiddi efni í heilanum – oxítósín
sem væri betra en flest lyfseðilskyld geðlyf.
Kannski erum við mannskepnurnar
kúrudýr,
knúsudýr,
faðmlagsverur.
Ég veit, af reynslunni,
að faðmlag frá dætrum mínum,
vinum eða eiginkonu,
gefur mér miklu meiri kraft
til að takast á við verkefni dagsins
en allir orkudrykkir heimsins.
Við erum auðvitað ekki alveg svona einfaldar lífverur.
Þess vegna höfum við fundið upp alls kyns leiðir til að fá tækifæri til að knúsast.
Við fundum upp fótbolta svo við gætum fagnað og faðmast eftir markaskor.
Við höldum jól og afmæli til að hægt sé að þakka fyrir pakka með faðmlagi.
Þegar við fæðumst
þreifum við ekki aðeins eftir geirvörtu
í leit að móðurmjólk,
við leitum líka að faðmlagi.
Góð selfie er ekkert annað en knúsbeiðni.
Like er vanmáttugt og fjarlægt faðmlag
þótt það dugi ekki alveg.
Skjárinn er alltaf á milli.
Það fólk sem ætlar að misnota sér knúsþörf okkar
í annarlegum tilgangi má ekki taka faðmlagið frá okkur.
Verum á varðbergi gagnvart úlfinum sem át Rauðhettu
en hættum ekki að heimsækja ömmur okkar og afa
því þar er enn hægt að fá bestu faðmlögin.
Traust og nánd eru lykilorð fyrir framtíðina.
Beisiklí þýðir það: Verum vinir. Verum sæmilega sanngjörn hvert við annað.
Þá sigrumst við á hverju sem er.
Þá getum við átt ágreiningsefni og jafnað þau.
Þvert á litarhátt, landamæri, trúarbrögð eða pólitískar skoðanir.
Hér er ég að bjóða ykkur velkomin í fullorðinna manna tölu
en tala eins og barn. Líklega vegna þess að ég er sjálfur enn barn.
Þið fáið líka að vera börn áfram.
Það eru 21 ár þangað til þið hafið leyfi til að bjóða ykkur fram til forseta.
Það er hellings tími.
Við okkur, fólkið, sem þegar er búið að bjóða velkomið í fullorðinna manna tölu,
segi ég hið sama:
Traust, nánd og faðmlag.
Þannig byggjum við upp heilbrigða og örugga framtíð byggða á mennsku.
Þá skiptir ekki máli hvoru megin örorku eða landamæra við lendum í lífinu.
Einhver mun líta á okkur sem systkyn sitt.
Fermingarbörn.
Verið hugrökk.
Eltið drauma ykkar.
Verið örlát á hæfileika ykkar.
Hafið skoðanir.
jafnvel þótt það muni koma í ljós síðar að þær hafi verið rangar.
Verið hugrökk og örlát.
Takið ákvarðanir um það sem ykkur sjálfum þykir rétt.
Verið viðkvæm. Verið sterk.
Verið höfundar að eigin lífi.
Takið ákvarðanir bæði með hjartanu og góðum rökum.
Hlustið á mælinn innra með ykkur.
Þið fæddust með þann mæli í brjóstinu.
Hann hjálpar ykkur að greina rétt frá röngu.
Notið heilann.
Notið tungumálið.
Þegar mælirinn finnur að eitthvað er að
komið því þá í orð.
Gerist listamenn, ljóðskáld,
gerið við bíla, græjið ískápa,
eðlisfræðingar, efnafræðingar,
fóstrur, félagsfræðingar, formenn,
málarar, mannfræðingar,
ráðherrar, röntkentæknar, rabbarbarararæktendur,
hagfræðiskáld og hugverkafólk
Í dag er það okkar sem eigum að vera fullorðin
að fagna framtíðinni.
Fagna því að það skulið vera þið
sem verðið fullorðin – bráðum.
Verið glöð.
Verið stolt.
Verið spennt.
Lífið er fullt af tækifærum.
Til hamingju með daginn.