Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ráðstefna um trúleysi næsta sumar

Samfélag trúlausra (SAMT) mun ásamt Atheist Alliance International (AAI) standa fyrir ráðstefnu um trúleysi dagana 24. og 25. júní næsta sumar. Ráðstefnan verður haldin í samvinnu við nokkur innlend félög um efahyggju og trúleysi. Þar á meðal Siðmennt, Skeptikus og Vantrú. Þekktir fyrirlestrar hafa boðað komu sína í júní og er því von á spennandi ráðstefnu.


Meðal þeirra sem hafa nú þegar boðað komu sína eru Richard Dawkins, Dan Barker, Julia Sweeney og Margaret Downey.

Dawkins er heimsfrægur líffræðingur sem hefur skrifað margar metsölubækur um þróunarkenninguna. Má það nefna “The Blind Watchmaker”, “The Selfish Gene”, “The Ancestor’s Tale” og “Unweaving the Rainbow”. Dawkins hefur verið ötull baráttumaður gegn því að sköpunarkenning Biblíunnar verði kennd sem vísindi í bandarískum ríkisskólum.

Barker er fyrrum bókstafstrúarpredikari sem smá saman tapaði trú sinni og er í dag einn af þekktari efasemdarmönnum og trúleysingjum í Bandaríkjunum. Barker hefur skrifað nokkrar bækur og er þar helst að nefna bókina “Losing Faith in Faith” sem fjallar á persónulegan hátt um hvernig Barker missti trúna.

Sweeney er leikkona og rithöfundur. Sweeney hefur leikið í fjölmörgum kvikmyndum og lék á sínum tíma í skemmtiþáttunum “Saturday Night Live”. Hún er einn af höfundum þáttanna “Desperate Housewives”. Sweeney er trúleysingi og hefur fjallað á opinskáan hátt um afstöðu sína bæði í ræðu og riti. Hún mun flytja vinsælan einleik á ráðstefnunni sem kallast “Letting Go of God”.

Downey er einn af leiðtogum Fríþenkjarafélags Fíladelfíu (Freethought Society of Greater Philadelphia) og er ötull baráttumaður fyrir mannréttindum og gegn misrétti í Bandaríkjunum. Downey er löggiltur stjórnandi borgaralegra athafna.


Nánari upplýsingar verður að finna hér þegar nær dregur næsta sumri. SAMT hefur gefið út bækling til að auglýsa ráðstefnuna á erlendri grund og er hann að finna hér við þá sem hafa áhuga.

Til baka í yfirlit