Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Píratar styðja aðskilnað ríkis og kirkju

Siðmennt sendi öllum framboðum til Alþingis fimm spurningar og óskaði eftir afstöðu þeirra. Svörin verða birt á næstu dögum í þeirri röð sem þau bárust.

Spurningarnar snúa að veraldlegu samfélagi og nauðsynlegt að kjósendur geti áttað sig á afstöðu framboðanna.

Styður framboðið aðskilnað ríkis og kirkju?

Já.
Þetta er samþykkt stefna Pírata:

Stefna ber að fullum og algjörum aðskilnaði ríkis og kirkju og jafnri stöðu allra trúar- og lífsskoðunarfélaga. Um Þjóðkirkjuna gildi sömu lög og reglur og um önnur trúar- og lífsskoðunarfélög.

Mun framboðið beita sér fyrir því að á næsta kjörtímabili verði hafinn undirbúningur að ferli sem ljúki með aðskilnaði ríkis og kirkju?

Já.

Það þarf að endurskoða samninginn sem ríkið gerði um kirkjujarðir með tilliti til hvort hann sé sanngjarn og eðlilegur um þær eignir sem um er að ræða. Einnig þarf að skoða hvort betra væri að greiðslur ríkisins væru skilgreindar sem afborganir frekar en afnot.

Miðað við þróun á lífsskoðunum almennings og viðhorfi til kirkjumála er ekki ólíklegt að í náinni framtíð muni þjóðaratkvæðagreiðsla samþykkja aðskilnað ríkis og kirkju. Það er því ekki óskynsamlegt fyrir ríkið að búa sig undir það.

Styður framboðið skráningu trúar- og lífsskoðanir almennings?

 

Höfum ekki mótað stefnu um hvort ríkið fylgist með þróun trúmála eða skrái einstaklinga, það er þó grundvallar munur á því að skrásetja einstaklinga og fylgjast með almennri þróun íslensku þjóðarinnar með könnunum.

Ef ríkið innheimtir ekki sóknargjöld er ekki sérstök ástæða til að fylgjast með trúarskoðunum einstaklinga. Lýðrannsóknir geta svarað spurningum um hvernig trúhneigð Íslendinga þróast.

Mun framboðið beita sér fyrir því að þau sem standa utan trúfélaga verði undanþegin svokölluðum sóknargjöldum?

Já.

Mun framboðið að beita sér fyrir því að afnema lagaskyldu (lög nr. 35/1970) um að sveitarfélögum sé skylt að sjá trúfélögum fyrir ókeypis lóðum og ívilnunum tengdum því?

Já. Píratar hafa lagt fram frumvarp þess efnis nú þegar. Meðan lögin skylda sveitarfélög til að úthluta trúfélögum lóðir verður að fara eftir þeim, en það er óeðlilegt að gefa trúfélögum lóðir ókeypis þegar almennur skortur er á íbúðarhúsnæði.

Frá Siðmennt:

Sumar spurningarnar gætu virst léttvægar en falla í þann flokk sem við getum kallað „frelsis“ málefni. Þó þau skori ekki hátt í áherslum kjósenda eins og t.d. heilbrigðismál og skólamál þá eru margir sem telja þau þrátt fyrir það mikilvæg. Fólk samsamar sig viðhorfum framboðanna og mátar sig við þau.

Það skal tekið fram að Siðmennt tekur ekki afstöðu til einstakra flokka eða frambjóðenda.

Til baka í yfirlit