BORGARALEG FERMING 2011. Háskólabíó. Sunnudaginn 10. apríl 2011
Ég vil byrja á því að þakka Siðmennt fyrir að leyfa mér að halda þessa ræðu – og óska ykkur öllum fermingarbörnunum hjartanlega til hamingju með að borgaralegu ferminguna. Það er alveg aðdáunarvert að það sé svo mikið af unglingum sem spyrja sig sjálf krefjandi spurninga og gleypi ekki við öllu umhugsunarlaust, og gangi í gegnum sína fermingu á siðferðislegum og heimspekilegum grunni. Þið eruð algert æði.
Einu sinni var ég staddur á listahátíð í Berlín. Þar sá ég eitt alflottasta og áhrifaríkasta listaverk sem ég hef séð á æfinni. Listaverkið var eins og öryggishlið á flugvelli. Á öllum flugvöllum þá er alltaf leitað á manni – verið að athuga hvort maður sé með byssur eða hnífa á sér. Þetta listaverk var nákvæmlega svona. Þetta var leitartæki sem pípaði á mann, og maður þurfti að labba í gegnum þetta á listasýningunni. Það var eitt hlið fyrir karla og eitt fyrir konur. Nema hvað, það var búið að steypa og móta hliðin, þannig að útlínurnar á því væru nákvæmlega eins í laginu eins og tvær heimsfrægar fullkomnar manneskjur, Jennifer Aniston, og Arnold Schwarzenegger.
Svo áttu konurnar að krumpa sér gegnum útlínurnar á Jennifer Aniston og karlarnir að klöngrast gegnum útlínur Arnolds Schwarzeneggers. Vesenið var – að ef þú passaðir ekki fullkomlega við þessar útlínur – og ef þú snertir útlínurnar á hliðinu – þá fór öryggiskerfið í gang. Og ekki nóg með það. Það kom strimill út úr tækinu um leið og þú fékkst rautt ljós, og á miðanum stóð. „Þú ert ekki samþykktur í þessu samfélagi.“
Stelpurnar fengu spes skipanir úr vélinni. Til þess að verða samþykkt þarftu að gera eftirfarandi: Aflita á þér hárið, stækka um 7 sentimetra, lengja á þér lappirnar, fara í fitusog, sérstaklega kringum maga, rass og læri, setja sílíkon í brjóstin á þér, fjarlægja tvö rifbein, setja smá geitafitu í varirnar á þér, vítamínsprautur í andlitið á þér, nota bláar litaðar augnlinsur, og vera góð.
Ef strákarnir ætluðu að verða sér úti um viðurkenningu og samþykki – þá þurftu þeir að fara í ræktina að lágmarki 9 sinnum í viku, éta ekkert nema fæðubótarefni, taka að lágmarki 120 kíló í bekkpressu, brjóta upp kinnbein og neðri kjálka til að fá ferkantaðri andlitsdrætti, fara í magaminnkun ef þú átt það til að éta of mikið, eiga nógu mikið cash, flottan bíl, vaða í kellíngum og vera töff.
Það þarf varla að taka það fram – en ALLIR, sem prófuðu að fara í gegnum fullkomnunarhliðið, FÉLLU Á PRÓFINU. Þetta listaverk var frábær ádeila á hvaða hátt ákveðinn menningarafkimi í samfélaginu vill helst steypa okkur öll í kökuform. Og ég veit ekki með ykkur, en mér finnst mjög ljótt að steypa fólk í kökuform. Við erum ekki kökudeig. Við erum fólk.
En svo var listasýningin búin og veruleikinn tók við. Þá er nákvæmlega þessum skilaboðum sem stóðu á miðunum skellt framan í mann, eins og rjómatertu, á hverjum einasta degi. Á hverjum degi eru þessi skilaboð í netmiðlum eða tímaritum, eða jafnvel venjulegum dagblöðum sem koma inn um lúguna hjá manni. Tískuritin segja stelpum hreint út sagt að svelta sig – og þær hlýða.
Stelpur fá framan í sig fyrirsagnir sem eru eitthvað á þessa leið: (ATH. Þetta eru allt saman raunverulegar fyrirsagnir sem ég pikkaði upp af internetinu) „Sjáið appelsínuhúðina á þessari. Svona lítur þessi út án meiköpps. Þessi pía er sko ekki að virka í bikiní. Þessi er auðséð búinn að láta sprauta í varirnar á sér, við erum sko með myndir af henni – fyrir og eftir. Sjáið hvað þessi er ógeðlega hallærislega klædd. Sjáið hvað þessi er töff klædd. Sjáðu hvað þessi er sexý sexý sexý sexý.“ Og fyrir strákana: „Sjáðu hvað þessi er hipp og kúl, hipp og kúl, hipp og kúl. Sjáðu hvað þessi veður í gellum. Sjáðu bílinn sem þessi keyrir á. Þessi veður í „cash“. Sjáðu byssurnar á þessum. Þessi sjóðheiti gaur er kominn með bumbu, við náðum myndum af honum á ströndinni. Sjáðu hvað þessi er mikill lúði, fífl, aumingi, fullur og vitlaus!.“
Ég veit ekki með ykkur – en mér finnst þessi skilaboð vera ofbeldi og mannvonska af verstu mögulegu sort. Það er svo mikil dómharka í þessu og jafnvel bælt mannhatur. Það er nákvæmlega enginn kærleikur í þessu. Það er eins og enginn fái séns nema hann líti út eins og fótósjoppuð Hollywoodstjarna. Það sem ég hef áhyggjur af er að það eru líka litlir krakkar að lesa þetta.
Eitt er alveg víst. Þessi skilaboð ógna sjálfsvirðingu okkar allra, eða neyða okkur til að skoða hana og hvort hún sé í nógu góðu jafnvægi. Manneskja sem er ekki með sjálfsvirðinguna í jafnvægi getur orðið fyrir miklum skaðlegum áhrifum af svona fjölmiðlaofbeldi.
Ég er ekki að ætlast til þess að 13 ára unglingar viti hvað sjálfsvirðing er – en ég get lofað ykkur því – að sjálfvirðingin verður örugglega eitt stærsta verkefni ykkar í lífinu. Þið eigið eftir að þurfa að skoða ykkar sjálfsvirðingu og hvað hún nákvæmlega liggur – það sem eftir er æfinnar. Það er enginn útskrift úr sjálfsvirðingarskólanum. Maður þarf að vakta hana á hverjum degi. Maður veit í rauninni ekkert hvað svona hugtök þýða fyrr en maður fær að reyna þau á eigin skinni.
Manneskja sem er með sjálfvirðinguna í jafnvægi, er mjög sátt við það hvernig hún lítur út. Hún fílar sjálfa sig. Manneskja með sjálfsvirðingu hefur enga sérstaka þörf á að líta út eins og Jennifer Aniston, eða Arnold Schwarzenegger. Manneskja með sjálfsvirðingu fílar að vera nákvæmlega eins og hún er. Það er mun skárra að vera frumeintakið af sjálfum sér, heldur en að vera léleg kópía af einhverjum öðrum.
Mikið óskaplega væri nú huggulegt að búa í heimi þar sem fólk er dæmt út frá verkum sínum heldur en hvernig það lítur út. Fólk hefur nú líka verið dæmt út frá litarhafti, kynhneigð, fortíð, ættartengslum. Er ekki mun mikilvægara að spá í það hvaða hæfileika fólk hefur?
Ég trúi því að við séum öll alveg ógeðslega klár í einhverju. Við höfum öll einhverja geggjaða hæfileika á einhverjum sviðum. Við fengum öll einhverja mikla gjöf þegar við fæddumst. Sumir þurfa smá hjálp við að fatta í hverju þessi hæfileiki felst. En flest öll vitum við það innst inni – hvað það er sem okkur er ætlað að gera á þessari jörð. Við vitum alveg hvað það er sem við erum best í. Ef þú hefur einhverja svona sérstaka gjöf, þá gerir maður samfélaginu lang mest gagn með því að gefa hana áfram. Gera bara það sem maður er góður í.
Það er hægt að gefa 13 ára unglingum helling af heilræðum. En ég mæli einna helst með þessu: Næst þegar þið standið andspænis svona dómhörku í fjölmiðlum eða músikvídeóum eða tískuritum – þar sem ykkur er hreinlega skipað að taka þátt í þessum leik sem útlitsdýrkun er – þá verðið þið að spyrja sjálfsvirðinguna fyrst, hvort hún vilji taka þátt í þessum leik. Ekki eyða dýrmætri orku og tíma af lífi ykkar í að líta út á ákveðinn hátt. Ekki eyða orku í að refsa ykkur sjálfum fyrir að líta ekki út á ákveðinn hátt. Það er til nóg af fólki nú þegar, sem refsar sjálfu sér á hverjum degi fyrir það eitt hvernig það lítur út.
Eyðið frekar orku í að gefa hæfileikum ykkar alla þá næringu sem þeir þurfa. Veljið ykkur æfistarf, sem tengist áhugamálinu ykkar. Ég hef tekið eftir því á fólkinu í kringum mig – að þeir sem velja sér æfistarf sem tengist áhugamálinu þeirra – gengur venjulega mjög vel í lífinu. Jafnvel þótt starfið sé mjög ópraktískt, og þótt það borgi ekkert sérstaklega vel, og jafnvel þótt þau hafi mjög litla peninga úr djobbinu – þá líður þessu fólki allavega vel í vinnunni og er mjög hamingjusamt.
Ég get alveg klárað þetta á að gefa heilræðin sem ég sjálfur fer eftir í lífinu; Ekki reykja, ekki drekka, ekki dópa, borðið mikið grænmeti, ekki borða mikið af steiktum og brösuðum mat, reynið að borða eins orginal mat og hægt er, hreyfið ykkur í takt við það sem þið borðið, fáðu þér vinnu sem þér finnst skemmtileg, ekki fara með rifrildi upp í rúm, leysið frekar deilumál á staðnum, syngið eins og enginn sé að hlusta, dansið eins og enginn sé að horfa – og svo er bannað að fara í fýlu.
Til hamingju með daginn.
PÁLL ÓSKAR, tónlistarmaður