Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Oxford-yfirlýsingin um hugsana- og tjáningarfrelsi

Heimsráðstefna húmanista 2014 var haldin í Oxford á Englandi, 8.–10. ágúst 2014. Á ráðstefnunni var samþykkt eftirfarandi yfirlýsing um hugsana- og tjáningarfrelsi:

„Um allan heim, á öllum tímum, hefur hugsana- og tjáningarfrelsi reynst mikilvægasta verkfæri sem völ er á til að stuðla að velferð mannkyns, en hver kynslóð verður að takast á við nýjar hættur sem steðja að þessu grundvallarfrelsi. Með þessa vitneskju að leiðarljósi lýsum við yfir eftirfarandi:

Rétturinn til hugsana- og trúfrelsis er einn og sami réttur fyrir alla. Mannréttindi, eins og þau eru orðuð í 18. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og nánari útfærslum hennar, eru og ættu að vera ein og óskipt réttindi sem vernda mannlega reisn og frelsi allra manna með því að standa vörð um rétt þeirra til að hafa persónulega sannfæringu af hvaða tagi sem er, trúarlega eða ekki trúarlega. Í 7. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna stendur: „Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án nokkurrar mismununar.“

 

Aldrei skyldi þvinga nokkurn mann nokkurs staðar til að láta af eða taka upp trú. Hugsanafrelsi felur í sér réttinn til að þróa með okkur, gaumgæfa, búa yfir og tjá sannfæringu okkar án þvingana, og geta látið í ljós skoðanir okkar og sýn á veröldina hvort sem hún er trúarleg eða ekki, án þess að óttast þvinganir. Það felur í sér rétt til að skipta um skoðun eða hafna trú sem við höfðum áður eða sem okkur var áður innrætt. Þrýstingur um að lúta hugmyndafræði ríkis eða kennisetningum trúarbragða er ofríki. Lög sem fyrirskrifa eða glæpavæða trúarbrögð ganga gegn mannlegri reisn og verður að afnema. Sérhver borgari í sérhverju ríki á rétt á að krefjast afnáms slíkra laga, og öllum ríkjum ber að styðja þá sem fara fram á að njóta persónulegs sjálfræðis og frelsis innan síns samfélags,  hvar sem þeir eru.

Rétturinn til tjáningarfrelsis gildir út um allan heim. Mannréttindin sem sett eru fram í 19. grein Mannréttindayfirlýsingarinnar fela í sér „frelsi til að hafa skoðanir óáreitt(ur) og til að leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra“. Einstrengingsleg þjóðernishyggja eða öryggismálríkisins ættu ekki að koma í veg fyrir að hnattrænt samfélag manna uppfylli fyrirheit nýrrar tækni, fjölmiðla, samfélagsmiðla og persónulegs aðgangs okkar að fjölþjóðlegum tengslanetum. Ríkjum heims ber að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að þegnum þeirra sé fært að taka þátt í þessum hnattrænu samskiptum.

Enginn á rétt á því að vera ekki misboðið eða að heyra ekki andstæðar skoðanir. Virðing fyrir frelsi annarra til persónulegrar trúar eða sannfæringar hefur ekki í för með sér neina skyldu eða þörf til að virða þessa trú eða sannfæringu. Það er afar brýnt fyrir gagnrýna umræðu að geta tjáð andstöðu við hvers kyns sannfæringu eða trú, meðal annars með háðsádeilu, spotti eða fordæmingu í miðlum af öllu tagi, og allar takmarkanir á þessari tjáningu verða að vera í samræmi við 29. grein Mannréttindayfirlýsingarinnar, þ.e. vera til þess fallnar að vernda réttindi og frelsi annarra. Bestu viðbrögð við tjáningu á skoðun, sem við erum ósammála, eru að svara henni. Ofbeldi og ritskoðun eru aldrei réttmæt viðbrögð. Öll lög, sem glæpavæða málnotkun á grundvelli „guðlasts“ eða móðgunar við trú og gildi, hamla frelsi mannsins og ætti að ógilda.

Ríkisvaldið getur ekkisett hugsana- og tjáningarfrelsi skorður einungis til að vernda stjórnvöld fyrir gagnrýni. Ríki sem glæpavæða gagnrýni á gjörðir stjórnvalda eða fulltrúa þeirra, og túlka slíkt sem landráð eða ógn við öryggi ríkisins, eru ekki „sterkar ríkisstjórnir“ sem bera hag almennings fyrir brjósti, heldur dómharðir yfirgangsseggir sem beita ofríki í eigin þágu. Ríkisvaldið ætti að tryggja í landslögum, menntakerfi og almennt í opinberu lífi, að stuðlað sé að og lögð rækt við hugsana- og tjáningarfrelsi til raunverulegra hagsbóta sérhverjum þjóðfélagsþegni.

Trúfrelsi er fortakslaust en athafnafrelsi vegna trúar er það ekki. Sem ábyrgðarfullir samfélagsþegnar viðurkennum við að stundum  verður að takmarka athafnafrelsi okkar svo fremi sem – og aðeins í þeim tilvikum – að gjörðir okkar skerða réttindi og frelsi annarra. Trúfrelsi getur ekki réttlætt að litið sé fram hjá grundvallarreglum um jafnrétti í lögum og um bann við mismunun. Það getur verið erfitt að finna hér jafnvægi, en með frelsi og mannlega reisn að leiðarljósi trúum við að löggjafinn og dómsvaldið geti komið því til leiðar á framsækinn hátt.

Við staðhæfum að grundvallarreglur lýðræðis, mannréttindi, réttarreglur og veraldarhyggja séu sterkustu grunnstoðir fyrir þróun opins samfélags þar sem hugsana- og tjáningarfrelsi er í fyrirrúmi.

Í öllu starfi okkar skuldbindum við okkur til að hafa í heiðri og styðja við núverandi rétt til hugsana- og tjáningarfrelsis innan ramma alþjóðlegra mannréttinda og veita viðnám takmörkunum, innlendum sem alþjóðlegum, á rétti einstaklinga til að hugsa sjálfstætt og tjá skoðanir sínar opinskátt og óttalaust.

Við hvetjum systursamtök okkar og húmanista út um allan heim til að varðveita þessi gildi í lífi og starfi; að stuðla að betri almennum skilningi í okkar nánasta umhverfi á réttinum til hugsana- og tjáningarfrelsis fyrir alla; að hvetja stjórnvöld til að veita þessum gildum brautargengi; og að taka höndum saman með húmanistum og öðrum um víða veröld um að verja þau og þróa áfram, mannkyni öllu til heilla.“

Til baka í yfirlit