Í Fréttablaðinu þann 4. desember birtist ítarleg grein um dauðann. Í greininni var gerð úttekt á kostnaði við legsteina, jarðafarir, erfidrykkju o.s.frv. Bent var á að “Þeir sem eru heiðnir og vilja ekki hvíla í vígðri mold hafa þann kost að hvíla í óvígðum grafreit í Gufuneskirkjugarði. Á þeim 8 árum sem reiturinn hefur staðið til boða hefur aðeins ein gröf verið tekin”
Siðmennt, félag um borgaralegar athafnir, vill vekja sérstaklega athygli á þessu vegna þess að við teljum að flest fólk viti ekki af þessum möguleika. Siðmennt vill einnig benda áhugasömum á að á vefsíðu félagsins, www.sidmennt.is, er að finna ítarlegar upplýsingar um borgaralegar útfarir.
Þar má finna eyðublað sem heitir “Óskir mínar um borgaralega jarðsetningu”. http://www.sidmennt.is/utfor/utfaraeydublad-print.html
Þetta eyðublað er hægt að prenta, fylla út, og afhenda aðstandendum.
Þar getur fólk skráð ítarlega óskir sínar varðandi allt sem snýr að framkvæmd athafnarinnar, val á kistu, föt, tónlist, ljóð og margt fleira. Með því að fylla út eyðublað sem þetta er hægt að gera óskir viðkomandi um greftrun skýrar og vonandi gera framkvæmd athafnarinnar auðveldari fyrir fjölskylduna á þessari viðkvæmu stund.