Nýtt kennsluráð borgaralegrar fermingar hefur nú verið skipað og mun taka við umsjón fermingarfræðslunnar. Ráðið mun setja saman námskrá, undirbúa fjarnám, hafa umsjón með þjálfun leiðbeinenda og sjá um stefnumótun fermingarfræðslu. Þá mun ráðið sinna samskiptum við foreldra, almennri umsýslu og yfirsýn, í samstarfi við verkefnastjóra borgaralegrar fermingar, Heiðrúnu Örnu Friðriksdóttur. Verkefni þessi hafa áður verið á könnu sérstaks kennslustjóra borgaralegrar fermingar, en sú staða hefur nú verið lögð niður. Er þessi breyting gerð á fyrirkomulagi ferminganna í ljósi þeirra vaxandi umsvifa sem orðið hafa á síðustu árum.
Ráðið er skipað tveimur reyndum leiðbeinendum úr fermingarfræðslu Siðmenntar, þeim Unni Hjaltadóttur og Stefaníu Pálsdóttur, ásamt Sigurði Hólm Gunnarssyni og Karli Ólafi Hallbjörnssyni.
Unnur Hjaltadóttir lýkur BA gráðu í heimspeki í haust og hefur þegar hafið framhaldsnám í hagnýtri siðfræði. Unnur er einnig lærður félagsliði, hefur tekið þátt í ýmsum félagsstörfum og starfað talsvert með unglingum í vanda. Unnur hefur starfað sem leiðbeinandi í fermingarfræðslunni í tvö ár og tekið virkan þátt í mótun hennar að eigin frumkvæði og áhuga.
Stefanía Pálsdóttir er með BA gráðu í heimspeki, MA gráðu í ritlist og leggur nú stund á BA í tónsmíðum frá LHÍ. Hún hefur tekið þátt í stjórnarstarfi ýmissa félaga og starfað sem viðburðastjóri. Stefanía hefur starfað í fermingarfræðslu Siðmenntar í 4 ár og séð um mótun á femínískum viðfangsefnum, sem og umhverfisfræðslu og séð um þjálfun leiðbeinenda fyrir þessi viðfangsefni.
Karl Ólafur Hallbjörnsson starfar sem texta- og hugmyndasmiður á auglýsingastofu en lauk nýlega meistaranámi í meginlandsheimspeki við Warwick-háskóla. Áður hefur Karl starfað við fjölmiðlun, ýmis ritstörf og jafningjafræðslu Hins hússins. Karl er þess að auki ritstjóri veftímaritsins Sýsifos sem fjallar um heimspeki, bókmenntir og stjórnmál.
Sigurður Hólm Gunnarsson er iðjuþjálfi að mennt og leggur nú stund á vefmiðlun við HÍ. Sigurður sat í stjórn Siðmenntar um árabil og gengdi um tíma formennsku. Sigurður hefur ekki starfað sem leiðbeinandi í fermingarfræðslu Siðmenntar, en leit er að manni með jafn víðtæka þekkingu á húmanisma og Sigurður, en hann hefur skrifað margt um málefni húmanista á vef sínum Skoðun.is.
Ráðið hefur þegar tekið til starfa og er verkefnið áætlað til eins árs. Ráðsmeðlimir munu sinna störfum sínum fyrir ráðið í verktakavinnu, samhliða öðrum verkefnum, en verkefnastjóri borgararlegrar fermingar er í föstu starfi á skrifstofu Siðmenntar, Skipholti 50c.