Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Norrænir húmanistar lögðu línurnar í Kaupmannahöfn

Norrænir húmanistar lögðu línurnar í Kaupmannahöfn

Sú hefð hefur skapast í samstarfi húmanistafélaga á Norðurlöndum að hittast einu sinni á ári á samráðsfundi til skrafs og ráðagerða. Þrátt fyrir að grunnkjarni félaganna sé sá sami þá eru verkefni þeirra mjög misjöfn og starfsumhverfið ólíkt á milli landa. Að þessu sinni var fundað í Kaupmannahöfn.

Síðustu misseri hafa vissulega gert fjarfundi algengari og aðgengilegri, en það eru einhverjir galdrar sem gerast þegar fólk hittist í eigin persónu. Zoom fundur hefur ekkert kaffispjall á milli erinda né sameiginlegar máltíðir eða óformlega hittinga. Þess vegna eru fundir eins og þessir ómetanlegir í alþjóðlegu samstarfi, en stærsta málið á þessum fundi var einmitt risastórt alþjóðlegt verkefni. Norrænu félögin, með hið danska Humanistisk Samfund í forsvari, munu halda alheimsþing húmanista í Kaupmannahöfn árið 2023.

Um afar spennandi og krefjandi verkefni er að ræða, en þingið er alla jafna haldið á þriggja ára fresti. Af ýmsum óviðráðanlegum ástæðum hefur þingið ekki verið haldið í fullri stærð síðan 2014 í Oxford. 2011 var það haldið í Osló svo að Norðurlandaþjóðirnar eru ekki óvanar því að fást við verkefni af þessari stærðargráðu, en búist er við um 800-1000 gestum.

Fulltrúar Siðmenntar á fundinum að þessu sinni voru þau Inga Auðbjörg Straumland, formaður, Sveinn Atli Gunnarsson, varaformaður og Siggeir F. Ævarsson, framkvæmdastjóri. Alls voru 15 fulltrúar frá Norðurlöndunum á þessum fundi, frá Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Árið 2020 var þessi fundur fyrirhugaður í Færeyjum en féll niður vegna heimsfaraldurs Covid-19. Illa hefur gengið að halda starfsemi húmanista gangandi í Færeyjum, en vonandi sjáum við fulltrúa frá þeim á næsta fundi.

Samtök húmanista í Noregi, Human-Etisk Forbund, HEF, hafa löngum verið í fararbroddi norrænu félaganna en félagið á sér langa sögu þar í landi. Þar var borgaraleg ferming fyrst haldin árið 1951 og árið 2021 eru yfir 100.000 Norðmenn skráðir í félagið. Siðmennt og HEF njóta einnig ákveðinnar sérstöðu í þessum hópi þar sem félögin fá sóknargjöld í sinn hlut og hafa því meira bolmagn til að láta til sína taka t.d. á alþjóðlegum vettvangi, þá helst í starfi Humanists International.

Siðmennt hefur í gegnum árin sótt góðan styrk og leiðbeiningar til norsku samtakanna, og nú er svipað samstarf í deiglunni hjá Siðmennt og danska félaginu, Humanistisk Samfund, en þau líta mjög til okkar að fyrirmyndum um uppbyggingu á sínu fermingarstarfi, sem við tökum að sjálfsögðu fagnandi og munum aðstoða eftir bestu getu.

Á myndinni eru (vara) formenn Norrænu félaganna, frá vinstri: Antti Värri, varaformaður Freethinkers of Finland, David Ronnegard, formaður Humanisterna (Svíþjóð), Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, Lone Ree Milkær, formaður Humanistisk Samfund (Danmörk) og Christian Lomsdalen, formaður Human-Etisk Forbund (Noregur).

 

Til baka í yfirlit