Helgina 14-15. maí mun Siðmennt standa fyrir námskeiði í athafnarstjórnun.
Ljósm. Bragi Þór Jósefsson
Áhersla verður lögð á að fá nema á námskeiðið sem búsettir eru á landsbyggðinni því að þar sárvantar athafnarstjóra. Eftirspurn eftir athafnarstjórum í nafngjafir og sérstaklega giftingar hefur aukist mikið síðustu 2 árin úti á landi. Giftingar í náttúrufegurð landsins njóta vaxandi vinsælda, bæði meðal Íslendinga og erlendra para. Það vantar athafnarstjóra í alla landsfjórðunga.
Þátttökuskilyrði. Til þess að koma til greina sem nemi í athafnarstjórnun hjá Siðmennt þarf umsækjandi að hafa náð 25 ára aldri og:
- Eiga samleið í lífsskoðunum með félaginu (sjá stefnuskrá Siðmenntar).
- Hafa áhuga á athöfnum, mannlegum samskiptum og því að gera athafnardag fólks eftirminnilegan.
- Búa yfir reynslu í því að koma fram og halda ræður/fyrirlestra. Skýrmælgi og opna tjáningu.
- Geta ritað gott mál og skipulegan texta með heimspekilegri nálgun og andríki.
- Búa yfir sjálfstrausti, hlýleika, yfirvegun, snyrtimennsku, þolinmæði, staðfestu, sveigjanleika og frumkvæði.
Þá er kunnátta í tungumálum (a.m.k. ensku) æskileg. Fleiri atriði eiga við en þau eru rædd nánar við umsækjendur eftir fyrirspurn/umsókn.
Námskeiðið er í tveimur hlutum:
- Fjarkennsla í 4 vikur. Lesefni vikulega og eitt ritverkefni. Hefst 17. apríl. (má hefjast viku síðar ef nauðsyn ber til).
- Námskeið helgina 14-15. maí. Viðvera 09-16 báða dagana. Staðsetning líklega á höfuðborgarsvæðinu. Umsækjendur af landsbyggðinnni fá greiddan ferðakostnað.
Námskeiðsgjald er 0 kr. Að loknu námskeiði er ákveðin þjálfun sem þarf að uppfylla áður en vígsluleyfi fæst fyrir giftingar. Ábyrgðarmaður athafna Siðmenntar er Jóhann Björnsson, formaður félagsins.
Námskeiðið beinist aðallega að því að kenna athafnarstjórnun við nafngjafir og giftingar. Athafnarstjórnun við útfarir er einnig kennd en ekki er ætlast til að athafnarstjóraefni taki þær að sér eftir námskeiðið. Athafnarstjórar Siðmenntar eiga þess einnig kost að stýra athöfnum borgaralegrar fermingar.
Umsóknir (með nafni, kt., heimilisfangi og síma) óskast sem fyrst eða í síðasta lagi 16. apríl. (undanþágu frá fresti má skoða til 10. maí). Þær skal senda á athafnir@sidmennt.is
Fagstjóri athafnaþjónustu Siðmenntar og umsjónarkennari námskeiðsins er Svanur Sigurbjörnsson.
Framkvæmdastjóri Siðmenntar og rekstrarstjóri athafnaþjónustunnar er Bjarni Jónsson.
Nánari upplýsingar má fá með sendingu fyrirspurnar til Svans/Bjarna á athafnir@sidmennt.is