Fjölgunin er 85% á 5 árum og athöfnum fjölgað úr einni í sex
Jóhann Björnsson afhendir fermingarvottorð
Í fyrsta skipti í starfi Siðmenntar hefur fjöldi ungmenna sem skráð hafa sig í borgaralega fermingu farið yfir 200. Mikil aukning hefur verið á þátttöku ungmenna í fermingafræðslu Siðmenntar undanfarin ár. Árin 2003-2005 voru þátttakendur um 90, árin 2006-2009 um 115 og árið 2010 voru það 162 ungmenni sem völdu þennan kost. Það var stórt stökk og sem endurtók sig síðasta vor þegar 195 ungmenni fermdust á vegum félagsins. Fyrir borgaralega fermingu 2012 hafa nú yfir 200 ungmenni skráð sig. Aukningin á fimm árum er því 85% en þess ber að geta að skráningu lýkur ekki fyrr en 30. nóvember svo búast má við að fleiri bætist í hópinn. Þetta samsvarar því að 5% af ungmennum á fermingaraldri velji fermingarfræðslu og athöfn Siðmenntar.
Samtímis þessum mikla áhuga hefur athöfnunum fjölgað en þær fara fram á fleiri stöðum á landinu. Það er ekki lengra síðan en árið 2005 að aðeins ein athöfn fór fram í Háskólabíói með 93 þátttakendum. Árið 2012 verða í boði sex athafnir á fjórum stöðum. Tvær í Reykjavík, ein á Akureyri en þar verða um 25 ungmenni fermd (sem er 100% aukning frá í fyrra), ein á Selfossi þar sem 6 fermast og síðan tvær athafnir í Salnum í Kópavogi (ríflega 30 í hvorri fyrir sig).
Forráðamenn Siðmenntar eru einstaklega ánægðir með þennan árangur og segir Hope Knútsson, formaður Siðmenntar og skipuleggjandi borgaralegrar ferminga: „Þessi fjölgun er mjög ánægjuleg og er mikill stuðningur við það gæðastarf sem unnið er af kennurum Siðmenntar undir dyggri stjórn Jóhanns Björnssonar, heimspekings og kennara. Sú nálgun að ræða við ungt fólk um siðfræði, heimspeki, gagnrýna hugsun, fordóma, sorgarviðbrögð, samskipti kynjanna svo eitthvað sé nefnt hefur sýnt sig falla þeim vel í geð og búa þau undir aukna ábyrgð í lífinu.“