Eftirspurn eftir athafnaþjónustu Siðmennt hefur vaxið verulega undanfarin ár og aldrei meira en á þessu ári. Eru þær þegar orðnar fleiri nú á miðju ári en allt árið 2015. Búið er að framkvæma eða panta 200 athafnir en það eru nafngjafir, giftingar og útfarir.
Aukin eftirspurn er aðallega eftir giftingum og hefur fjöldi þeirra næstum þrefaldast frá 2013. Það ár voru þær 36 talsins en eru orðnar 135 í ár. Aukning hefur orðið í giftingum Íslendinga en einnig erlendra para sem leita til félagsins beint eða gegnum fyrirtæki sem sérhæfa sig í slíkum ferðum til Íslands.
Til þess að mæta eftirspurninni hefur Siðmennt þjálfað 16 nýja athafnastjóra á árinu en fyrir voru þeir 25. Með þessari fjölgun hefur Siðmennt tekist að byggja upp net athafnastjóra um landið til þess að gefa fleirum möguleika á að hafa val þegar kemur að mikilvægum athöfnum í lífinu. Fyrir utan höfuðborgarsvæðið eru athafnastjórar starfandi á Vesturlandi, Ísafirði, Dalvík, Akureyri, Húsavík, Höfn í Hornafirði og á Suðurlandi.
Athafnir Siðmenntar eru veraldlegar og eru því valkostur sem kemur í stað trúarlegra athafna. Siðmennt hóf að bjóða upp á þær árið 2008 og hefur þeim fjölgað stöðugt síðan en verulega hratt síðan 2013, þegar félagið hlaut skráningu sem veraldlegt lífsskoðunarfélag. Athafnirnar eru persónulegar, hátíðlegar og fallegar þar sem áherslan er lögð á fólkið sem verið er að þjónusta.
Frá árinu 2008 hafa athafnastjórar Siðmennt framkvæmt 705 athafnir, gift 800 einstaklinga, gefið 240 börnum nafn og séð um útfarir 50 einstaklinga.
Nánari upplýsingar gefur Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar bjarni@sidmennt.is
eða í síma 6123295.