Aldrei hafa jafn mörg börn verið skráð í borgaralega fermingu hjá Siðmennt og í ár en þau eru nú orðin 730 talsins. Þetta er talsverð fjölgun frá síðasta ári, en þá fermdust 630 fermingarbörn borgaralega. Þetta eru um 15% árgangsins í ár, en hlutfallið hækkar um prósentustig á milli ára.
Kennsla hófst 8. janúar í fyrstu hópunum á höfuðborgarsvæðinu, en fermingarfræðslan er kennd á námskeiðum um allt land. Kennsla fer fram á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu, sex stöðum á landsbyggðinni en að auki eru fjórir hópar í fjarnámi á íslensku og einn á ensku. Í viðbót við hefðbundna fræðslu eru tveir hópar í listnámskennslu, einn í útivistarnámi og fjórir hópar sem sækja fermingabúðir á Úlfljótsvatni. Þessi þemanámskeið eru nýjungar sem nú eru í boði í annað sinn og hafa slegið í gegn.
Markmið fermingarfræðslu Siðmenntar er að rækta með markvissum hætti þá þekkingu og færni sem styrkir einstakling til að verða gagnrýninn og virkur þátttakandi í nútímasamfélagi. Nánar má lesa um inntak fermingarfræðslu í námskrá borgaralegrar fermingar.
Skráningafrestur rann út um áramótin en þó er enn hægt að skrá áhugasöm fermingarbörn í lausa hópa eða fjarnám áður en tímarnir hefjast, skráning fer fram á Sportabler.
Við erum stolt af því að bjóða upp á metnaðarfulla húmaníska fermingarfræðslu fyrir börn sem kjósa þennan valkost til að fanga þessum tímamótum í lífinu og sjáum fram á spennandi fermingarvor.