Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Með vonina að vopni – Jólahugvekja Siðmenntar og X-ins 977 – jólin 2019

Líkt og undanfarin ár flytur Siðmennt jólahugvekju á X-inu 977 kl. 18:00 á aðfangadag. Hugvekjuna í ár flytur Inga Auðbjörg Straumland, formaður félagsins. Hugvekjuna má lesa hér að neðan, og við bætum svo slóð á upptökuna við þegar hún kemur á netið. Gleðileg jól, kæru landsmenn!

Með vonina að vopni – Jólahugvekja Siðmenntar og X-ins 97,7 2019

Ágæti hlustandi

Síðasta föstudag, fjórum dögum fyrir jól, var ég bara búin að kaupa eina gjöf, íslenskt hannyrðapönk sem maðurinn minn opnar væntanlega von bráðar, og ég viðurkenni að hnúturinn var farinn að harðna í maganum á mér. Sjálfsásökunartónninn leyndi sér ekki. Hvað var ég að spá að ætla að flytja viku fyrir jól? Og af hverju þurfti ég að vera með í öllum þessum leynijólaleikjum með fólki sem ég þekkti ekki neitt? Ég var varla byrjuð að hnýsast um konuna á Kleppjárnsreykjum í jólavinaleiknum á Twitter og svo átti ég eftir að senda aðra gjöf til Þýskalands handa einhverjum alheimsorkuelskandi þýskum skátahippa sem ég hafði aldrei hitt.

Það sem í byrjun desember var rómantísk hugmynd um velígrundaðar gjafir sem gleðja ókunnuga á aðfangadagskvöld, var, korter í jól, orðið að orkusjúgandi kvíðabolta sem kom sér vel fyrir einhversstaðar undir brisinu í mér og nuddaði mér upp úr óraunhæfum væntingum mínum til sjálfrar mín. Og þar sem ég fann loksins lausa stund og arkaði um vöggu siðmenningar – Skeifuna – að vinna mig í gegnum listann af systkinum og börnum, ömmum og öfum, þurfti ég að stoppa sjálfa mig í slabbinu og minna mig á að jólin fyrir mér snúast ekki um neysluhyggju heldur mannhyggju; húmanisma.

Við sem köllum okkur húmanista erum oft spurð af hverju í ósköpunum við höldum upp á jólin, fyrst við trúum ekki á guð. Spurningin er náttúrulega tvíþætt. Seinni hlutanum er auðsvarað. Uppruni jólanna hefur lítið með guð að gera og þó Kristið fólk hafi tileinkað jólin guði sínum, þá breytir það litlu um það að upphaf flestra jólahefða er heiðið. Jólatréð er þýskt, mistilteinninn keltneskur og Jesús Kr. Jósepsson fæddist kannski í janúar, kannski í apríl og kannski í júní. Allavega ósennilega í desember. Meira að segja er orðið “jól” allsendis óskylt Biblíufræðunum og mikið lán að við höfum hamið okkur í að apa hugtakið “Kristsmessa”, upp eftir enskumælandi þjóðum. En allt skiptir þetta svo sem litlu máli. Kristnu fólki er að sjálfsögðu heimilt að tileinka sér þennan fallega árstíma, þar sem sólin er lægst á lofti en hefur sigurgöngu sína á ný. Og mín vegna mega allir ráða því hvenær þeir eiga afmæli, rétt eins og allir ættu að mega ráða því hvað þau heita, hvern þau elska og hvað þau borða. Líka Jesús.

En þá að fyrri hluta spurningarinnar; Af hverju held ég upp á jólin?
Og það er einmitt í slabbinu í Skeifunni sem er gott fyrir konu að staldra við og velta fyrir sér þessari grundvallarspurningu í lok ársins. Og ef ég hugsa um það, þá er svarið skýrt.
Ég held upp á jólin, af því að mér finnst mannkynið eiga skilið þessa vonarglætu sem hækkandi sól færir með sér. Eftir umhleypinga, fannfergi og storm vitum við vel að það fylgja fleiri kaldir mánuðir í fótspor haustsins, en það er einhvernveginn bót í máli að búa yfir þeirri vissu að sólin er að gera sitt allra besta til að klífa ofar og hanga á himinhvolfinu aðeins lengur, svo að hver dagur fái notið örlítið meira sólarljóss en dagurinn á undan.
Fyrir mér eru jólin tilefni til þess að leggja niður störf og hanga með fjölskyldunni frekar en vinnufélögunum. Að vinnufélögum mínum algjörlega ólöstuðum, þau eru vandað og gott fólk, þá er það örlítið undarlegt að samfélagið búi svo um hnútana að við eyðum 80% af vökutíma barnanna okkar í vinnunni og hittum yfirmanninn oftar en mömmu okkar. Það er því kærkomið frí að hvíla stimpilklukkuna og kúra með fjölskyldu og nánum vinum, eða bara góðri bók og gæða sér á lakkrístoppum og malt-og-appelsínsblöndunni, þrátt fyrir það vefjist fyrir þér á hverju einasta ári, hvort komi nú aftur á undan, maltið eða appelsínið.

Ein velheppnuð gjöf vegur upp þessar fimm sem þú komst ekki yfir að kaupa og afgangurinn af jólamatnum toppar eiginlega borðhaldið sem fram fór kvöldið áður, með gylltum servíettum og rósavínsdreytli.

Fyrir mér eru jólin jólastressið að taka yfirhöndina, – og stundin þar sem þú sleppir tökum á því. Fyrir mér eru jólin að gráta smá ofan í bernaise-sósuna af því hún hljóp í kekki, – og uppgjafarléttirinn þegar þú skellir bara í pakkasósu korter í sex af því að það þekkir hvort eð er enginn muninn. Fyrir mér eru jólin grenilykt, og mandarínulykt, og ilmur af brenndum smákökum, og vaxinu sem brennur í andrúmsloftinu þegar þú blæst á síðasta kertið á jólanótt. Fyrir mér eru jólin samverustundir með systkinum, þar sem ég gjörsigra þau í nýju borðspili og tapa svo í næsta leik. Fyrir mér eru jólin eftirvæntingarfull börn sem dreymir allan daginn um að geta hraðað klukkunni örlítið, og lognast svo út eftir dessertinn, umvafin pakkaböndum með kakó út á kinn.

Fyrir mér eru jólin einfaldlega öll þessi augnablik, hvort sem þau eru hversdagsleg eða hátíðleg. Ég þarf ekki Mið-Austurlenska vitringa til að réttlæta fyrir mér að halda upp á lífið. Lífið þarfnast engra sérstakra ástæðna til að vera yndislegt. Notum öll þau tækifæri sem bjóðast til að fagna lífinu, fagna ástinni og fagna frelsinu. Jólin koma, hvort sem leynivinurinn minn hann Murray í Bambergi í Þýskalandi fær gjöfina sína á réttum tíma eða ekki.

***

Ágæti hlustandi. Jólin eru hátíð hækkandi sólar. Þau eru hátíð vonarinnar. Þegar allt er svart er erfitt fyrir okkur að greina mun á því hvernig dagurinn lengist um þessar mundir, enda lengist hann varla neitt. Í dag settist sólin klukkan 15:20 í Reykjavík og á morgun mun hún setjast klukkan 15:21. Ein mínúta af sólarljósi er ef til vill ekki tilefni til þess, í sjálfu sér, að gera alþrif á heimilinu, höggva niður barrtré og standa yfir sósupottinum langt um lengur en sólin er á lofti í dag. Enda erum við ekki að halda upp á þessa einu mínútu, heldur vonina um að bráðum nái sólarljósið yfirhöndinni og sigri myrkrið. Við finnum kannski ekki að daginn lengi, en við vitum það.

Og þess vegna er mér vonin sérstaklega hugleikin á þessari árstíð.

Það er auðvelt að fyllast vonleysi um þessar mundir, þegar orðin “hamfarahlýnun” og “pokasvæði” keppast um titilinn orð ársins. Þegar stjórnmálin sitthvoru megin við Atlantshafið virðast hafa misst tökin á faglegum stjórnarháttum og lýðræðið er fótum troðið. Það er auðvelt að fyllast vonleysi þegar við vitum að enn er fólk á flótta og undarlega lítið sem Ísland virðist vilja gera í því.

Það er auðvelt að fyllast vonleysi og enn auðveldara að láta vonleysið stýra tilfinningum okkar.

En útlitið er ekki svona svart. Rétt eins og svartasta myrkur ársins er nú að baki, birtir til í heiminum. Þótt ýmsir pólitískir útúrdúrar séu ógnvænlegir, þá er samfélagið almennt á réttri leið.

Þegar ég eignaðist barn fyrir einu og hálfu ári síðan, heltist yfir mig þessi kvíði sem reynir að sannfæra þig um að nái barnið, fyrir eitthvað óútskýranlegt kraftaverk, að lifa af fyrsta árið þrátt fyrir alla þá hættu sem steðjar að því, þá sé þetta hvort sem algjörlega óábyrg hegðun að fæða barn inn í samfélag sem verður bara dystópískara með hverju árinu.

Þegar hormónarnir voru búnir að hlaupa með mig í gönur í dágóðan tíma var ég svo heppin að byrja fyrir tilviljun að hlusta á Factfulness, sem er bók eftir Hans Rosling, Ola Rosling og Önnu Rosling Rönnlund.

Bókin fjallar um ákveðið viðmót gagnrýnnar hugsunar og bjartsýni, – að draga úr áhyggjum með því að tileinka sér aðeins skoðanir byggðar á sterkbyggðum staðreyndum. Hans Rosling og fjölskylda spurðu lesandann einfaldra spurninga um hnattræna þróun; hversu hátt hlutfall íbúa jarðar lifir við fátækt, af hverju fjölgar fólki hér á jörð og hversu margar stelpur klára skólagöngu sína.
Við hjónin hlustuðum á bókina saman, þar sem við ókum um fjallvegi í framandi landi með þriggja mánaða barn í aftursætinu og svöruðum ítrekað vitlaust. Við vorum allt of svartsýn. Það kemur nefnilega í ljós að orðatiltækið Heimur versnandi fer á varla við rök að styðjast. Heimurinn fer batnandi. Fátækt minnkar, skólasókn stelpna lengist og mannskepnan mun ekki halda áfram að fjölga sér á sama hraða og hún gerir núna. Höfundarnir spurðu ekki aðeins lesendur að þessum spurningum, heldur fjöldann allan af alls konar hópum fólks; fjölmiðla, stjórnmálafólk, vísindafólk. Fólk sem á að vita betur. Og alltaf var niðurstaðan sú sama. 80% fólksins vissi minna um staðreyndir heimsins en simpansar, ef simpansar giskuðu handahófskennt.

Hliðarverkun þess að ég öðlaðist betri og bjartsýnni sýn á heiminn í kjölfar hlustunar á staðreyndahyggju Roslingfjölskyldunnar, var sú að það losnaði um kvíðann yfir barninu mínu. Ég áttaði mig á að það þyrfti ekki yfirnáttúrulegt kraftaverk til þess að barnið mitt lifði af fyrsta árið sitt, heldur væru yfirgnæfandi líkur á því að það tækist. Auðvitað gæti alltaf komið eitthvað upp á og auðvitað þyrfti ég að passa hann vel og umvefja hann ást, en líkurnar á að hann spjaraði væru þó svo yfirgnæfandi að það borgaði sig enganveginn að eyða orku í að hafa áhyggjur.

Og þó svo að hnattræn hlýnun sé staðreynd og Trump sé forseti stórveldis og flóttafólk sé á vergangi, þá er vert að muna að það er von. Ég finn vonina og fyllist bjartsýni þegar ég fylgist með öllum þessum ungu konum bjóða stjórnmálaathæfi sitthvoru megin við Atlantshafið birginn. Þær láta kokhrausta karlmenn sem ala á sundrungu ekki komast upp með að gera það óátalið og vekja mörgum von í brjóst um að stjórnmálamenningu þessara ríkja sé mögulega viðbjargandi.

Malala Yousafzai var aðeins 15 þegar hún var skotin af Talíbönum fyrir að tala fyrir skólagöngu kvenna í Pakistan og heldur áfram að beita sér fyrir betri heimi, nú 22 ára gömul.

Og það verður ekki minnst á ungar konur án þess að minnast á Gretu Thunberg. Fyrir ári síðan var hún nánast óþekkt, en er nú hæst hljómandi rödd ungmenna um heim allan. Ungmenna sem ætla ekki að gefast upp á jörðinni, heldur vernda hana og verja með öllum tiltækum ráðum.

Á loftslagsráðstefnunni COP25 í Madríd fyrr í mánuðinum tók Greta til máls. Hún sagði:

“Ég vil segja ykkur að það er von. Ég hef séð hana. En hún kemur ekki frá yfirvöldum eða stórfyrirtækjum. Hún kemur frá fólkinu. Fólkið sem hefur verið ómeðvitað, en er nú að vakna til vitundar. Og þegar vitund okkar eykst, þá breytumst við. Fólk er fært um að breytast. Og fólk er viðbúið breytingum. Og það er vonin, því við höfum lýðræði. Og lýðræði á sér stað alla daga. Ekki bara á kjördag, heldur hverja sekúndu og hverja klukkustund. Það er almenningsálitið sem stýrir hinum frjálsa heimi. Hver stórvægileg breyting í sögunni hefur komið frá fólkinu. Okkur er ekkert að vanbúnaði. Við getum valdið breytingum, strax í dag.”

***

Gagnrýnin hugsun er gott og nauðsynlegt vopn sem efahyggjufólk notar gjarnan í daglegu lífi. En gagnrýnin hugsun á það til að leiða af sér neikvæðni og bölsýni, þegar efasemdirnar leiða okkur í kanínuholur staðreyndanna og besservisserinn í okkur tekur völdin. En eins og Hans Rosling og fjölskylda sýndu fram á er hægt að nota gagnrýna hugsun sem barefli í baráttunni fyrir bjartsýni. Það er hægt að nota hana til að horfa jákvæðum augum til framtíðar, með vonina að vopni. Heimurinn er nefnilega ekki á hraðri niðurleið. Hann silast upp á við, af því að fólk vill og getur breytst til hins betra.

Og þetta vona ég að við tökum með okkur inn í nýja árið. Reynum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni fyrir betri heim. Stuðlum að jákvæðum samfélagsbreytingum með því að láta rödd okkar heyrast sem víðast, og megi rómur okkar vera bæði bjartur og vongóður.

Ágætu hlustendur. Stjórn Siðmenntar og aðstandendur útvarpsstöðvarinnar X-ins 97,7 óska ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður Siðmenntar

Til baka í yfirlit