Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Kirkjur og þverstæður mannleg lífs

Bróðursonur minn, séra Gunnar Jóhannesson, sóknarprestur í Hofsós- og Hólaprestakalli, birti vonda grein í Fréttablaðinu, föstudaginn 28. september sl. Efni hennar er að fordæma Siðmennt, félag siðrænna húmanista, fyrir veraldlega athöfn í Fríkirkjunni nýlega.


Erfitt er að deila við náinn ættingja sem er 39 árum yngri en ég. En ég tel að í grein þessari hafi fræðimaðurinn Gunnar vikið fyrir presti sem vill styðja kirkjuvald. Ég tel að grein Gunnars sé óvirðing við þekkingu hans.
Meginmálið í grein Gunnars er að veraldleg athöfn megi ekki fara fram í kirkju. Þetta er undarleg guðfræði hjá presti í mótmælendasið. Séra Toshiki Toma, prestur innflytjenda í Þjóðkirkjunni, hefur þegar svarað þessu fyrir sitt leyti; kirkjan er aðeins umbúnaður um heilaga athöfn og er ekki heilög af sjálfu sér fremur en aðrir veraldlegir hlutir. Þetta var og skilningur Lúters og helstu lærisveina hans á 16. öld í uppgjöri þeirra við kaþólskan sið.

Nýjar kirkjur í lúterskum sið voru því ekki vígðar. Þær voru hins vegar blessaðar. Gunnar veit vel muninn á þessu tvennu. Það var fyrst á seinni hluta 20. aldar sem farið var að vígja kirkjur hér á landi. Samkvæmt lúterskri hefð er kirkja veraldlegur staður og dugmesti biskup Íslands við innleiðingu lúterstrúar, Guðbrandur Þorláksson (1541–1627), lét afnema kirkjugrið og veitti veraldlegum yfirvöldum rétt til að nota kirkjur með samþykki prests og prófasts. Hér á landi voru kirkjur ávallt margar en hér voru engar aðrar opinberar byggingar. Kirkjur voru því nýttar löngum á margvíslegan hátt, m.a. til veisluhalds, sbr. sjálfsævisögu séra Jóns Steingrímssonar (1728–1791).

Um athöfnina í Fríkirkjunni: Siðmennt á ekkert húsnæði og því var leitað til prests Fríkirkjunnar í Reykjavík, sem er þekktur fyrir að meta kærleika meira en formhyggju. Athöfnin fólst í því að brúðhjónin endurtóku heit sín um ást og traust í viðurvist fjölda manns. Er slíkt athæfi ókristilegt?

E.t.v. þyrfti Siðmennt ekki að vera í húsnæðishraki fengi félagið sóknargjöld meðlima sinna en svo er ekki raunin. Opinberir aðilar veita félaginu enga styrki. Almenn árleg velta þess nemur ríkisgreiddum launum eins prests Þjóðkirkjunnar í tvo mánuði. Nær öll vinna á vegum þess er sjálfboðastarf.

Gunnari finnst þverstæða felast í því að borgaraleg athöfn fari fram í vígðu húsi eins og hann lýsir Fríkirkjunni í Reykjavík. Vera má að hér hafi hann nokkuð til síns máls. En lífið einkennist af þverstæðum og andstæðum sem geta sameinast í eina heild. Þannig byggir kristin trú á þverstæðunum syndinni og náðinni: maðurinn syndgar og fær fyrirgefningu, náð, fyrir trú á Krist.

Að fordæma þverstæður getur aukið skynsemi en einnig skapað umburðarleysi og kreddufestu. Hér ræður samhengi hlutanna hverju sinni. En sanntrúaður prestur sem fordæmir þverstæður ætti að stíga hér varlega til jarðar ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur í trú sinni.

Höfundur er prófessor í sagnfræði við HÍ.
Gísli Gunnarsson

Til baka í yfirlit