Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Jólin þegar ég hélt að ég myndi deyja úr kulda

Jólin þegar ég hélt að ég myndi deyja úr kulda

Jóhann Björnsson athafnastjóri hjá Siðmennt sagði okkur frá eftirminnilegustu jólunum sínum og gaf hann okkur góðfúslegt leyfi til að deila sögunni með ykkur.

Jólin þegar ég hélt að ég myndi deyja úr kulda

1984 og 1985 dvaldi ég sem skiptinemi á sveitaheimili í sveitarfélagi sem kallast St. Alexandre de Kamouraska í Quebecfylki í Kanada. Jólin og jólamánuðurinn þar eru vissulega með því það eftirminnilegasta sem ég hef upplifað á þessum árstíma. Ég skrifaði allnákvæma dagbók allt þetta ár og færði ég upplifanir mínar í þá bók. Ég hef tekið saman reynslu mína af jólamánuðinum, enda gaman að rifja upp framandi jólasiði á þessum árstíma. Ég kalla frásögnina Jólin þegar ég hélt að ég myndi deyja úr kulda, þar sem kuldinn var meiri en ég hafði áður kynnst.

Úr dagbókinni frá desembermánuði 1984:

Ég svaf í ullarsokkum.  Því var ekki að neita að nokkuð átak þurfti til þess að koma sér undan teppahrúgunni sem ég svaf undir og stíga niður á kalt dúklagt timburgólfið.  Það sem einna helst fékk blóðið til þess að streyma hraðar á þessum köldu morgnum var ef lítil mús eða jafnvel litlar mýs sáust hlaupa undan rúminu mínu og skjótast inn í gamlan og gisinn timburvegginn.  Einhvernveginn trúði ég því varla að mýs væru þeim eiginleika gæddar að láta sig hvefa inn í veggi þar sem varla var hægt að sjá að nokkurt gat eða rauf væri á.  En þær samt sem áður skutust eldsnöggt í átt að veggnum og svo hurfu þær rétt eins og einhver hafi gleypt þær.   Tími til kominn að fara á fætur.  Pikka laust í fatahrúguna sem var á stólnum, ef vera skyldi að ein leyndist í buxnaskálminni eða í skyrtuerminni.  Hrista síðan duglega.  Jú öllu var óhætt.  Ekki leyndist mús í fötunum að þessu sinni.  Það var svo sem engin furða að mýsnar leituðu í hlýjuna í þessu 140 ára gamla timburhúsi þegar frostið átti það til að fara allt niður í 32 gráður. 

Jólamánuður var hafinn.  Ég var búinn að dvelja í þessari afskekktu sveit í rúma þrjá mánuði.  Húsið var hvítmálað timburhús á tveimur hæðum.  Moldargólf var í kjallaranum sem var fullur af allskyns drasli.  Það var nokkuð ævintýralegt að koma þangað niður.  Maður gat ekki alveg staðið uppréttur, þar var mikill eldiviðarstafli fyrir veturinn, kassar fullir af kartöflum og lauk, skíði og snjóþrúgur.  Mér var ekkert sérlega vel við að fara þangað niður svona yfir háveturinn þegar kaldast var í veðri þar sem mýsnar áttu sér þar ákveðinn griðarstað, mér brá alltaf svo þegar ég varð þeirra var í myrkrinu þarna niðri.  Samt gat ég ekki skorast undan ef ég var beðinn um að skjótast niður til þess að sækja við í eldinn.  Allir urðu að leggja sitt af mörkum í þessum búskap.

Allt í kring voru malarvegir sem á þessum tíma árs voru snævi þaktir og fólkið sem hér bjó, hafði sjaldan farið úr sveit sinni og til útlanda, hvernig í ósköpunum átti maður eiginlega að komast þangað spurðu bændurnir með augnaráðinu þegar þeir fyrst hittu mig?  Og Ísland, ég var ekki spurður að því hvar það væri heldur hvað það væri.   Ég svaraði iðulega á einn veg:  Ísland er land, nánar tiltekið eyja sem er hinum megin við Grænland.  Jæja já og þar með var málið útrætt.  Ekki veit ég hvort fólk vissi hvar Grænland var en ég ályktaði sem svo að fólk hefði hugmynd um hvar Grænland væri.  Ekki var ég inúíti og ekki veiddi faðir minn ísbirni þó ég hafi af og til þurft að svara spurningum í þá veru. 

Húsbændur mínir voru hjón rétt undir sextugu sem allt sitt líf höfðu alið manninn í þessari sveit.  Húsmóðirinn var lágvaxin, góðleg kona ekki ósvipuð þeirri sem móðir mín dreymdi nokkru áður en ég lagði upp að heiman.  Bóndinn var hinsvegar grófur karl sem hafði erft jörðina af föður sínum, slitinn af erfiðisvinnu og geðvondari mann hef ég aldrei á ævi minni kynnst hvorki fyrr né síðar.  Hann gat átt það til að taka æðisköst og þá var allt ómögulegt, fjölskyldan, skepnurnar, búfénaðurinn og ekki síst útlendingurinn á heimilinu sem þegar hér kom við sögu skildi ekki mjög vel tungumálið sem talað var, þessa gömlu frönsku sem ekki hafði þróast eins og í Frakklandi sem var gamla landið sem geymdi ræturnar, landið sem allir vildu heimsækja þó ekki væri nema einu sinni á ævinni, en flestir létu ekki verða af.  Þó gat karlinn átt sína góðu daga og þá lofaði hann guð almáttugan skapara himins og jarðar fyrir það hversu lánsamur hann var að eiga allt það sem hann átti, jörðina sem gaf af sér lífsviðurværið, skepnurnar, fjölskylduna og kynnin við þennan skrítna útlending sem dvaldi á heimili hans.

Bóndinn á næsta bæ þótti nokkuð gamaldags enda var ég sammála því þegar ég sá hann ganga á snjóþrúgum með öxi á öxlinni í átt að nytjaskógi sínum til þess að höggva við í eldinn.  Þegar hann hafði hoggið nóg spennti hann stóran og mikinn hest við vagn sinn og sótti viðinn.  Auk þess var mér sagt að hann mjólkaði kýrnar í höndum.  Það sá ég reyndar aldrei sjálfur en hafði svo sem enga ástæðu til þess að telja það einhverja lygi.  Svona var þetta ekki á mínum bæ enda voru menn þar duglegir við að nýta sér tæknina á borð við dráttarvélar og mjaltavélar.  Mér hafði verið sagt að þessi náungi væri dálítið skrítinn, hann var ósköp góður og kurteis og ræðinn.  Hann bjó einn með öldruðum föður sínum sem ég reyndar sá aldrei allt þetta ár sem ég dvaldi þarna.  Ég gerði mér í hugarlund að það væri gamall gráskeggjaður náungi sem sæti í ruggustól undir þykku köflóttu teppi og tottaði pípu og biði síns tíma. 

Þennan fyrsta dag jólamánuðar fór ég á fætur rétt fyrir klukkan sex til þess að mjólka kýrnar.  Þó ekki væri leiðin í fjósið löng þá man ég alltaf eftir því að bóndinn á bænum setti ávallt þykkt ullarteppi yfir höfuð sitt og herðar, fór í gúmmístígvél og tuldraði eitthvað fyrir munni sér og lagði í hann.  Sjálfur gekk ég í humátt á eftir honum.

Að loknum mjöltum tveimur tímum síðar var haldið inn í bæ og snæddur hafragrautur ekki ósvipaður þeim íslenska.  Þegar allir voru orðnir vel mettir var sest í hring á miðju gólfi og talað við drottinn.  Húsbændur mínir voru kaþólskir og tóku trú sína ekki af neinni léttúð.  Á grænmáluðum veggnum fyrir ofan frystikistuna í setustofunni var mynd af Maríu mey og Jesú Kristi eins og vestrænir myndlistarmenn hafa séð þau fyrir sér.  Allstór og veglegur kross var á milli myndanna og eitthvert strá sem ég kann ekki frekari skil á hafði verið stungið á bakvið krossinn. 

Bænastundir fjölskyldunnar þar sem hver og einn fór með sína þulu upphátt og lofaði einkum Maríu mey voru haldnar tvisvar sinnum á dag í tuttugu mínútur í senn.  Tuttugu mínútur að morgni strax eftir morgunverð og tuttugu mínútur að kvöldi áður en farið var í háttinn.  Fátt ef eitthvað gat raskað ró þeirrar stundar.  Ef eitthvað óvænt átti sér stað var allt gert til þess að hætta ekki bænahaldi heldur var málunum bara bjargað á meðan bænir voru beðnar.  En hvað gat svo sem gerst sem var svo óvænt að raskað gæti ró til bænahalds?  Sjaldan komu gestir og ekki hringdi síminn oft.  Ég man þó eftir einu tilviki þar sem sinna þurfti dálitlu viðviki á meðan á bænahaldi stóð.  Bænahald var tiltölulega nýhafið þegar fólk fór að gefa hvort öðru bendingar, án þess þó að hætta bænahaldi.  Það hafði sést til músar skjótast bakvið brauðrist á eldhúsborðinu.  Æsingnum var ekki fyrir að fara.  Húsmóðirin reis rólega upp úr stól sínum, teigði sig í köttinn sem ekki hafði orðið músarinnar var og otaði honum á bakvið brauðrist.  Upphófust þarna miklar sviptingar þegar kötturinn reyndi að klófesta músinna með klóri og kvæsi sem tókst að lokum.  Húsmóðirinn greip í dauða músina slengdi henni á gólfið þar sem kötturinn fylgdi fast á eftir og reif hana í sig.  Á meðan á þessu öllu stóð var bænahaldi haldið áfram eins og ekkert hafi gerst.  Þó að einu af sköpunarverkum drottins hafi verið slátrað þarna með köldu blóði var hann engu að síður lofaður og prísaður fyrir allt sitt sköpunarverk.  

Vinnudagurinn í sveitinni hélt áfram og þegar við höfðum tekið til sagir okkar var haldið út í skóg til þess að saga við í eldinn eða til að selja í pappírsvinnslu.   Ýmist var farið á dráttarvél eða þegar lengra var farið eins og þennan dag í desember var gamall blár Buick dreginn út úr skúr sem var alveg að hruni kominn og brunað eftir einbreiðum stígum skógarins. 

Það var svalt í veðri þennan dag eins og endranær þegar við keyrðum inn í skóginn, þrír saman í framsætinu, húsbóndinn sem vafði ullarteppi um höfuð sér, syfjaður og lífsleiður sonurinn sem hafði hætt í skóla sextán ára gamall staðráðinn í að taka við búi föður síns ásamt mér útlendingi sem af einskærri forvitni var að kynna sér lifnaðarhætti fólks í öðru landi.  Sonur bónda sem var jafnaldri minn hafði verið að myndast við að safna yfirvaraskeggi frá barnæsku.  Hann hafði aldrei rakað á sér efrivörina, enda leit hún hörmulega út og er vægt til orða tekið.  Þar skutust út úr húðinni eitt og eitt hár á stangli mislöng.  Ég var sannfærður um að ef hann hefði rakað sig reglulega hefði hann á endanum getað fengið þetta fína þykka yfirvaraskegg ekki ósvipað því sem Friðrik Nietzsche hafði og sjá má mynd af í ýmsum heimspekibókum.  Mér fannst það samt ekki einhvernveginn vera mitt að gefa góð ráð um skeggvöxt enda hafði ég ekki mikinn áhuga á honum á þessum tíma.

Trjábolirnir sem við söguðum niður voru þungir.  Það var því notalegt að setjast niður og borða nestið inni í þéttum skógi við opinn eld þar sem við gátum bæði hlýjað okkur og grillað brauðið okkar.  Af og til í þessum skógarferðum okkar rákumst við á byssumenn sem voru að myndast við veiðar.  Sumir þeirra bjuggu í kofum einhversstaðar í skóginum, en á hverju þeir lifðu komst ég aldrei að.  Yfirleitt var veiðin afar dræm eða jafnvel engin.  Skepnurnar, hreindýrin stóru og litlu bambarnir höfðu fyrir löngu verið hrakin á brott vegna ásóknar bændanna.  Þetta er ekki eins og þegar afi var ungur og fór létt með að veiða hreindýr, enda nóg af þeim þá, sagði sonur bónda.  Eitthvað voru menn þó að baxa við að halda í vonina og veiðimannarómantíkina sem núorðið fólst einkum í því að hafa byssu um öxl sér og spígspora síðan dágóða stund í skóginum.

Eftir dágott dagsverk í skóginum var tími til kominn að halda heim á leið þar sem mjólka þurfti kýrnar.  Við settumst upp í bláa Buickinn, allir í framsætið hver öðrum sveitalegri í slitnum bláum samfestingum, þykkum brúnum frökkum, vinnuskóm með stáltá, þykkar húfur og með þvælda leðurhanska loðfóðraða að sjálfsögðu.  Fjósið var heill heimur út af fyrir sig.  Dýralífið var fjölskrúðugt.  Fyrir utan 45 kýr var stórt og mikið naut í einu horninu, hundur, og um það bil 10 kettir til að halda rottunum í skefjum sem þrátt fyrir það gerðu sig heimakomnar í korngeymslunni.  Mér stóð alltaf stuggur af þeim, kettirnir réðu illa við þær og eitt var á hreinu að út fóru þær ekki á meðan frostið var jafnmikið og raun bar vitni.  Ég man sérstaklega eftir einum degi í fjósinu þegar ein kýrin sló mig allfast með halanum beint í andlitið.  Gleraugun fuku af mér beint ofan í flórin.  Mátti ég róta þar allnokkra stund hálfblindur áður en mér tóksta að hafa upp á þeim á kafi í kúaskít. 

Daginn sem jólahreingerningin var gerð fékk ég bréf frá ömmu.  Ég var búinn að þvo loftið á húsinu dágóða stund með blautri tusku.  Sumsstaðar gat maður staðið á gólfinu og samt náð upp í loft en annarsstaðar þurfti maður að standa uppi á stól til þess að ná upp í sama loftið, þvílíkur var hallinn á þessu húsi.  Amma (fædd 1909) skrifaði með gamalli stafsetningu bréf um dýrtíðina heima á Íslandi og nægjusemina.

Elsku barn skrifaði hún

Kærar þakkir fyrir bréfið frá þjer og kortin, við fengum það 6. des.  Það hefur verið nokkuð fljótt á leiðinni.  Nú eru jólin að nálgast, við fórum og gerðum matarinnkaupin í dag það er nú hægt að fá keypt það er nóg af vörunum í búðunum en allt nokkuð dýrt en við þurfum ekki að kvarta við höfum nóg fyrir okkur.

Ég sit í eldhúsinu og pára þessar línur, afi fór að kaupa nýja hillu yfir handlaugina á baðinu sú gamla brotnaði.  Jæja drengurinn minn ég veit ekki hvort þú getur lesið þetta pár en ég er ekki góð í rjettritun.

Það er leiðinlegt með mýsnar hvað er með kettina geta þeir ekkert við þetta ráðið eru þeir svona latir að veiða, það er slæmt að hafa þennan ófögnuð inni í herberginu.  Ég hef lítið í fréttum að skrifa veit að mamma þín skrifar þér það helsta sem skeður í bænum.  Ég hætti þessu pári.  Vertu svo blessaður og sæll.  Guð veri með þér.  Hjartans kveðjur frá okkur.

 

Ekki liðu margir dagar áður en ég fékk aftur póst enda mikið um sendingar á þessum tíma árs.  Kortið sem ég fékk og var frá bróður mínum var þó frekar stutt og laggott.

Heill og sæll, ég sendi þér kort ég er ekkert að senda þér pakka, ég get sent þér gúmmískó ef þú vilt, þeir voru nú góðir í sveitinni hér heima.  Þú verður að fyrirgefa myndina á kortinu en ég fann enga með belju á sem myndi nú svo sannarlega hæfa aðstæðum þínum nú.  Hér gengur allt sinn vanagang, ég er búinn að sækja hestana, eru engir hestar hjá ykkur?  Ég hef nú ekki meira að segja ég skrifa kannski aftur.  PS. Gaman væri að vita hvað þið gefið beljunum.  Kanntu að mjólka?  Vertu bless þinn bróðir.

 

Áfram hélt jólapósturinn að berast.  Móðir mín sendi bréf og lýsti veðrinu í Keflavík í smæstu smáatriðum undanfarna mánuði, sagði frá atvinnuleysi fiskvinnslufólks þar sem hún var þá starfandi fiskverkakona og samviskubitinu sem hún var með af því hún lagðist í flensu og komst því ekki í kirkju þar sem hún söng einnig með kirkjukórnum.  Svo endaði hún bréfið á svohljóðandi hátt:  Ég bara man ekki eftir miklu meira.  Það skeður svo ósköp lítið hér núna en ég ætla að skrifa bráðum aftur og vonum að þú hafir það mjög gott.  Mamma

Aðfangadagur rann upp bjartur og fagur en þetta var kaldur dagur og nokkuð snjóþungur þó fólk héldi því fram að þetta væri með snjóléttari vetrum sem það man eftir.  Ég veit hvað ég fæ í jólagjöf frá heimilisfólkinu á bænum en það eru stórir og afskaplega hlýir kuldaskór.  Þeim finnst ég vera mjög illa búinn til vetrarvistar.  Þau segja að klæðnaður minn sé ekki nógu hlýr.  Það er þó helst lopapeysan sem mamma prjónaði sem sleppur við gagnrýni.  En skóbúnaður minn þykir vera til skammar og er ekki til þess fallinn að halda lengi í mér lífinu í þessum frosthörkum sem í hönd fara.

Í dagbók mína á aðfangadag skrifaði ég:

24. desember 1984 mánudagur

Aðfangadagur jóla.  Ég fór í fjósið kl. 6 að morgni.  Eftir það var lítið gert.  Um kl. 3 síðdegis var mér boðið að hringja heim til Íslands en þangað hafði ég aldrei hringt frá því ég kom fyrir rúmum fjórum mánuðum.  Ég fór ekki í fjósið seinnipartinn því ég sat enn við símann og reyndi að ná sambandi en það tókst ekki enda símakerfið hér afskaplega gamaldags.  Línan út úr sveitinni var alltaf upptekin. Ég veit ekki hvernig skal lýsa þessu símakerfi, en þetta er einhverskonar gamaldags sveitasími þar sem við deilum símalínu með fleiri bæum og ef einhver er að tala í símann verður maður bara að bíða og fylgjast með þangað til hann er búinn og grípa þá tækifærið og hringja.  Ef tólið er tekið upp og einhver annarsstaðar er að nota línuna þá heyri ég samtalið í mínu símtóli.  Eftir nokkurra klukkustunda bið gafst ég upp á þessu. 

Hér er aðfangadagur ekki haldinn hátíðlegur eins og heima á Íslandi.  Það er beðið eftir að 25. desember renni upp.  Kl. 12 á miðnætti hefst jólahátíðin með guðþjónustu í kirkjunni síðan er haldið heim á bæ og snæddur jólamatur og þar á eftir er skipst á gjöfum.  Við borðum því jólamatinn um kl. eitt eftir miðnætti.  Það þykir mér afleitt enda er syfja farinn að sækja á mig eftir að hafa verið á fótum síðan klukkan sex um morguninn.  Lai, víetnamskur flóttamaður sem dvalið hafði hér á bænum í 10 mánuði fyrir nokkrum árum kom og dvelur hér yfir jólinn.  (Hann átti síðan eftir að koma sér í eitthvert klandur og vera talinn af án þess að nokkur vissi hvar lík hans væri að finna. Árið 2016 fær ég þær fregnir að hann hafi fundist, sé á lífi og sé heill á húfi). Í jólamatinn var kjúklingur.  Vakað var alla nóttina en kl. 5 var farið í fjósið til að mjólka og kl. 7 um morguninn fórum við að sofa.

Þar með voru jólin búinn.  Jólin voru langt í frá eins hátíðleg og á Íslandi og voru frekar lík hverjum öðrum sunnudegi sem ávallt var haldinn heilagur sem hvíldardagur.  Þau voru stutt, ein nótt og svo tók hversdagsleikinn við að nýju.

Leið síðan að gamlársdegi en þá varð ég meira en lítið undrandi.  Vanur mikilli gleði heiman frá Íslandi með flugeldum og fínum mat og löngum vökum þá var ekkert af því að finna á þessum áramótum.  Gamlársdagur var líkur öðrum öðrum dögum, engir flugeldar, ekki vakað frameftir, mig minnir að ég hafi farið að sofa um kl 9 á þessu gamlárskvöldi, og enginn veislumatur.  Morguninn eftir þegar ég fór á fætur óskaði ég fólki gleðilegs nýs árs en enginn tók undir kveðju mína.  Ég veit ekki hversvegna og ég spurði aldrei.  Frostið var 20 gráður og það var ekki fyrr en að kvöldi nýársdags sem nýju ári var fagnað en á mjög svo hógværan hátt.  Ekki með miklum gleðskap og látum heldur var venjubundin bænastund kvöldsins mun lengri en vanalega, ætli hún hafi ekki staðið í tæpa klukkustund og fyrst að henni lokinni óskaði fólk hvert öðru gleðilegs nýs árs.

Til baka í yfirlit