Jólahugvekja húmanistans
Hugvekja á útvarpsstöðinni X 97,7 24. desember 2013
Til hvers eru jólin? Fyrir nokkrum dögum kom upp í heimspekitíma hjá unglingum þessi spurning: til hvers eru jólin? Þetta er athyglisverð spurning og eftir að hún kom upp varð ég forvitinn að vita hvernig unga fólkið myndi svara henni. Margoft hefur maður heyrt fólk segja að jólin séu haldin til þess að fagna fæðingu Jesú Krist og að það sé allt og sumt.
Það ber líklega merki um að tímarnir séu að breytast í samfélagi okkar að svör unglinganna voru allfjölbreytt. Jólin eru til þess að halda upp á afmæli Jesú sagði einn, jólin eru til þess að halda upp á það að nú er daginn tekið að lengja á ný, sólin hækkar á lofti sagði annar, jólin eru til þess að hafa það huggulegt og njóta þess að vera í fríi, jólin eru til þess að vera með fjölskyldu og vinum, jólin eru til þess að gefa og þiggja gjafir og jólin eru til þess að borða góðan mat.
Þetta eru nokkur dæmi um það hvernig unga fólkið svaraði spurningunni til hvers eru jólin?
Það má svo sannarlega segja að allir hafi haft rétt fyrir sér. Það er enginn einn sem hefur einkaleyfi á jólunum og það er enginn einn sem getur sagt hvert tilefni hátíðarhaldanna sé. Jólin eru nefnilega gömul hátíð og það er svo skemmtilegt við jólin að ýmsir siðir mætast á þessum árstíma, siðir sem eru fólki mikilvægir. Er það ekki alveg jafnmikilvægt að fagna því að nú er tekur daginn að lengja og að fagna fæðingu Jesú? Er það ekki líka mikilvægt að vera með vinum, borða góðan mat, gefa og þiggja gjafir? Allt er þetta eitthvað sem skiptir fólk máli og gefur lífinu tilgang og gleði og ástæða er til að fagna á jólunum.
Jú allt gefur þetta lífi fólks gildi og tilgang. Og hvers vegna ættum við þá að halda því fram að jólin séu frekar til eins en ekki annars?
Í fjölbreyttu samfélagi, samfélagi sem oft er kallað fjölmenningarlegt mætist mismunandi lífstíll og afstaða til lífsins. Svör unga fólksins hér að framan ber merki fjölmenningarinnar. Það tilgreindi mismunandi afstöðu til jólanna og það sem meira er, það var engin tilraun gerð til þess að álíta einn hafa réttara fyrir sér en annan. Ef nágranni minn einn heldur jólin til þess að fagna fæðingu Jesú þá er það að sjálfsögðu hið besta mál og ef annar heldur jólin til þess að borða góðan mat og slappa af þá er það líka gott mál. Og ef sá þriðji heldur jólin til þess að njóta þess að vera í fríi og í samvistum við vini og fjölskyldu þá er það einnig hið besta mál.
Í fjölmenningarlegu samfélagi berum við ekki bara virðingu fyrir því að fólk er ólíkt, heldur fögnum við margbreytileikanum og sjáum hvernig hann getur auðgað menningu okkar. Við þurfum ekki að fara í stríð þó fólk velji sér aðrar leiðir í lífinu en maður sjálfur.
Alltof of oft hefur fólk barist vegna þess eins að það aðhyllist ólíka siði og trúarbrögð. Alltof oft hefur fólk látið guð sem svo enginn veit hvort er til stýra gjörðum sínum til ills, í stað þess að horfa á það sem sameinar fólk. Það sem sameinar okkur er það að við erum manneskjur, það sem á að sameina okkur er að við erum ólík og megum vera það. Það er hluti mennskunnar.
Það væri ekki gott ef allir væru eins. Óskaplega væri það leiðinlegt líf ef allir væru eins. Ef allir, þessir 7 milljarðar manna sem búa á jörðinni væru alveg nákvæmlega eins.
Því miður gera sér ekki allir grein fyrir því hvernig margbreytileiki mannlífsins getur auðgað samfélag okkar og menningu. Alltof margir geta ekki sætt sig við það að fólk er misjafnt. Til þess er krafan um að allir séu eins allt of sterk. Þessi krafa um einsleitt samfélag kemur fram í frösum og upphrópunum eins og „við erum kristin þjóð?“ og „Ísland fyrir Íslendinga“ svo eitthvað sé nefnt.
Þessa frasa má heyra reglulega og því miður allt of oft: „Við erum kristin þjóð“ heyrist t.d. þegar gerð er krafa um kristilegt skólastarf í stað skólastarfs fyrir alla, burtséð frá trúarbrögðum og lífsskoðunum. Og síðan er sagt: „en það skaðast enginn á því að heyra boðskap trúarinnar”. Á móti má spyrja hvernig væri skólastarf í landinu ef allt væri leyfilegt sem ekki er beinlínis skaðlegt? Vissulega verður enginn fyrir skaða af því að þurfa að taka þátt í trúarsiðum annarra gegn vilja sínum. En við skulum ekki meta lífið eftir mælikvörðum skaðleysis og skaðsemi og því síður skulum við vega og meta gæði skólastarfs út frá þesskonar mælikvörðum. Það er margt sem við gætum gert í skólum landsins og skaðar börnin ekki, en hvarflar samt ekki að okkur að gera.
Fyrr á þessu ári sendi menntamálaráðuneytið frá sér viðmiðunarreglur um það hvernig samskiptum skóla og trú – og lífsskoðunarfélaga skuli háttað. Þar var stigið skref í rétta átt til fjölmenningarlegs skólastarfs. Þar kemur m.a. fram að eftir fremsta megni skuli forðast að setja nemendur og foreldra þeirra í þá stöðu að þurfa að gera grein fyrir trúar- eða lífsskoðunum sínum. Með því að viðurkenna að trúar- og lífsskoðanir séu einkamál fólks en ekki eitthvað sem skiptir máli í skólastarfi er stigið heillaríkt skref í skólamálum á Íslandi í þá veru að í öllu skólastarfi geti allir tekið þátt burtséð frá trúar- eða lífsskoðunum. Skólar landsins eiga að sameina fólk en ekki sundra.
“Ísland fyrir íslendinga” er einnig frasi sem heyrst hefur allt of oft í samfélagi okkar á undanförnum árum. Þessi frasi heyrðist t.d. oft um það leyti er palestínskir flóttamenn settust að á Akranesi árið 2008. Nýverið gerðust þau jákvæðu tíðindi að flestir þeirra fengu íslenskan ríkisborgararétt. Mér verður stundum hugsað til þeirra sem vildu ekki veita þessum palestínsku fjölskyldum hjálparhönd. Hver skyldi vilji þeirra vera ef þeir sjálfir væru í sömu stöðu og flóttamennirnir voru í fyrir komuna til landsins? Það er stundum hollt að spyrja sig: “Hvað ef ég væri í sporum einhvers annars?”
Það er illa fyrir okkur komið ef við erum svo sjálfsupptekin og eigingjörn að við getum ekki rétt örfáum einstaklingum sem búa við gríðarlega neyð dálitla hjálparhönd.
Þessi skelfilega eigingirni og þetta sorglega verðmætamat birtist með mjög svo áberandi hætti í sjónvarpsfréttum nýverið. Í einni frétt var verið að greina frá lækkun framlags Íslendinga til þróunarhjálpar. Greint var frá því að ákvörðun þessi myndi bitna á ýmsum grunnþörfum sem unnið hefur verið að erlendis s.s. vinnu við neysluvatn, skóla og heilsugæslu. Það er sorglegra en tárum taki að í næstu frétt á eftir, fréttinni á eftir þeirri sem fjallaði um erfiðleika fátæks fólks við að verða sér úti um neysluvatn kom frétt um vandamál á norðurlandi, ef vandamál skyldi kalla. Vandamálið á sér stað í sundlauginni á Akureyri en þar er umdeilt hvort verja skuli verulegum fjármunum í byggingu nýrrar vatnsrennibrautar.
Það verður ekki annað sagt en að þau eru misjöfn vandamálin sem jarðarbúar þurfa að takast á við. Á meðan við Íslendingar sendum þau skilaboð til umheimsins að vegna fjárhagsvandræða hér innanlands sé ekki lengur hægt að aðstoða fólk við að verða sér úti um neysluvatn, vatn til þess að halda lífi er mögulegt að byggja nýja vatnsrennibraut.
Líklega hefur fólk einhvern tímann skammast sín fyrir minni sakir en þetta.
Eins og fram kom í auglýsingum þessarar útvarpsstöðvar er hér um húmaníska hugvekju að ræða. En hvað er átt við með því? Hvað felst í húmanismanum og hvaða erindi á hann í nútímasamfélagi?
Húmanisminn hefur sem viðfangsefni sitt manninn, umhverfi hans og lífsskilyrði og það er ekki ofsagt að í raun er lífið sjálft viðfangsefni húmanismans. Meginþættir húmanismans eru gagnrýnin hugsun, rökræðan, siðferðileg heilindi, mannréttindi og hið góða líf.
Það er ekki tóm til þess að ræða alla þessa þætti hér en mig langar til þess að vekja athygli á mikilvægi tveggja þeirra, annarsvegar þess að hugsa gagnrýnið og hinsvegar mikilvægi siðferðilegra heilinda.
Árið 1784 birti heimspekingurinn Immanuel Kant tímamótagrein sem kallaðist „Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?“ Í grein þessari brýnir Kant fyrir fólki mikilvægi þess að hugsa gagnrýnið og sjálfstætt. Hann segir m.a. „… hafðu hugrekki til þess að nota þitt eigið hyggjuvit!“ Og síðar segir Kant: „Það er svo þægilegt að vera ósjálfráða. Ef ég á bók sem hefur vit fyrir mér, sálusorgara sem tekur á sig samviskukvalir mínar, lækni sem ákveður matarræði mitt o.s.frv., þá þarf ég vitanlega ekkert að leggja mig fram sjálfur. Ég þarf ekki að hugsa, ef ég get borgað …“
Það er ekki bara að þægindahyggjan sé ástæða þess að skortur sé á virkri og gagnrýninni hugsun að mati Kants heldur einnig boð þeirra sem fara með völdin. Hann segir eftirfarandi kveða við úr öllum áttum: „„rökræðið ekki.“ Liðsforinginn segir: „rökræðið ekki, heldur gerið æfingarnar.“ Fjármálaráðherrann segir: „rökræðið ekki, heldur borgið.“ Presturinn segir: „rökræðið ekki, heldur trúið,““
Með húmanismanum er lagt á brattann í baráttunni gegn þessari „leti og ragmennsku“ sem bælir niður gagnrýna hugsun og rökræðu, svo vísað sé til orða Kants annars staðar í textanum.
Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessum skorti á gagnrýninni hugsun. Skemmst er að minnast bankahrunsins árið 2008, en í Viðauka 1 við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að ein af orsökum falls bankanna var skortur á gagnrýninni hugsun.
Þó umfjöllun um bankahrunið og þann skort á gagnrýninni hugsun sem átti sér stað þá hafi verið fyrirferðarmikil, er ekki hægt að líta fram hjá ýmsum öðrum málum sem fjölmiðlar bera á borð fyrir almenning gagnrýnislaust á degi hverjum. Ósjaldan er gert mikið úr fréttum af álfum, draugum, huldufólki, geimverum og fólki sem telur að skottulækningar taki fram hefðbundinni læknisfræði, sem byggir á vísindum, að ógleymdum guði og trúarlegum „kraftaverkum“. Öllu þessu er síðan teflt fram eins og hverri annarri óyggjandi staðreynd án nokkurrar gagnrýninnar ígrundunar.
Siðfræðin og siðferðileg heilindi eru húmanismanum afar mikilvæg. Á degi hverjum megum við eiga von á því að eitthvað sem orkar tvímælis siðferðilega verði á vegi okkar. Ekki þarf annað en að skoða fjölmiðla til að komast að því að stór hluti daglegs lífs felst í því að fást við siðferði. Samskipti okkar við annað fólk, lífsstíll okkar, viðhorf og afstaðan til eigin lífs og annarra hafa siðferðilegt inntak sem við komumst ekki hjá að taka afstöðu til.
Það er útbreiddur misskilningur að gott siðferði hafi eitthvað með guð og boð hans og bönn að gera. Það þarf engan guð til þess að gera sér grein fyrir góðu siðferði og slæmu. Siðferðinu hefur verið svipað til tungumálsins. Við tjáum okkur með tungumáli, en gerum það misvel og erum misjafnlega vel að okkur í málfræði. Svipuðu máli gegnir um siðferðið. Siðferðið er ekki ósvipað tungumálinu að því leyti að það má alltaf bæta og fegra og reglurnar sem farið er eftir eru ekki alltaf skýrar.
Breski heimspekingurinn John Stuart Mill hélt því fram að siðferðilegur styrkur ætti það sammerkt með vöðvastyrk að eflast aðeins við þjálfun. Hvort sem siðferðinu er líkt við tungumál eða vöðvastyrk þá er ljóst að siðferðið má ávallt bæta, og þjálfa má viðbrögð við siðferðisvanda með markvissri ígrundun og rökræðum.
Stundum er því haldið fram að siðferðið sé smekksatriði hvers og eins og engan veginn sé hægt að segja til um það hver hafi rétt fyrir sér þegar um siðferðileg álitamál er að ræða. Siðferðið er alls ekki smekksatriði heldur eru til gildi sem eru sammannleg. Án þessara sammannlegu gilda væri samfélag manna afskaplega dapurlegt. Það er einmitt á slíkum gildum sem mannréttindin eru byggð á. Baráttan fyrir mannréttindum er ein meginbaráttan sem húmanistar um allan heim heyja. Sjónarmið húmanista endurspeglast einkar vel í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948, samanber fyrstu tvær greinarnar: „Allir eru bornir frjálsir og jafnir. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku og við eigum að koma fram hvert við annað af virðingu.“ Og: „Allir hafa sömu réttindi óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungu, trú, stjórnmálaskoðunum eða öðrum skoðunum.“
Ágætu hlustendur.
Stjórn Siðmenntar þakkar kærlega fyrir það tækifæri að hafa fengið að ávarpa ykkur á þessari stundu og óskar ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
-Jóhann Björnsson, heimspekingur.