Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Jólahugvekja 2016 – Við eigum bara eitt líf

Hér má hlusta á og lesa jólahugvekju sem Jóhann Björnsson, formaður Siðmenntar, flutti á X-inu 9,77 á aðfangadag.

 

Ég var staddur í Noregi í ágúst árið 2011. Það er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi, nema vegna þess að þetta var sama ár og voðaverkin voru framin í Útey og í Osló. Víða í borginni mátti sjá skemmdir eftir öflugar sprengingar sem höfðu haft það eina markmið að valda manntjóni. Norska þjóðin var í sárum og sorg eftir að fjöldi ungs fólks hafði fallið fyrir hendi byssumanns sem lét hatrið stýra gjörðum sínum.

Ég sat ráðstefnu þar sem þemað var húmanismi og friður. Fjöldi áhugaverðra fyrirlesara tók þátt en það var einn fyrirlesari sem vakti öðrum fremur sérstaka athygli mína. Þetta var fullorðinn maður að nafni Johan Galtung. Hann var þá 81 árs gamall, fæddur 1930. Johan þessi hefur á langri starfsævi sinni lagt mikið af mörkum til friðar- og sátta um allan heim, bæði með akademískum störfum sínum innan veggja háskóla og einnig á vettvangi deilna og stríðsátaka sem sáttasemjari á milli stríðandi fylkinga.

Eftir fyrirlesturinn keypti ég af honum bók sem er nokkuð athyglisverð. Það mætti ætla að maður sem starfað hefur lengst af á vegum háskóla og virtra alþjóðastofnana væri að selja lærðar og þykkar bækur og ritgerðir, en svo var ekki. Bókin sem ég keypti af honum kallast: Fljúgandi appelsína segir sögu sína. Hún er ekki þung fræðileg úttekt á friðamálum og sáttaumleitunum heldur dæmisaga handa börnum og öllum öðrum, eins og hann kemst að orði í undirtitli. Það er rétt að hafa í huga að dæmisögur og textar sem eiga erindi við börn eiga oftar en ekki einnig mikið erindi við fullorðna.

Aðalsöguhetjan í bókinni er appelsína sem ferðast víða og sér margt. Í henni er einnig sagt frá öðrum appelsínum sem hafa unun af því að gera fólk hamingjusamt með næringu sinni og bragði. Framtíðarsýn þeirra er þannig að þær telja lífi sínu borgið ef einhver vill snæða þær og jafnframt gróðursetja kjarnana þannig að fleiri appelsínur fái dafnað í framtíðinni.

Í þessari dæmisögu er appelsínan sem er í aðalhutverki  höfð fljúgandi til þess að hún geti farið víða og hratt yfir og veitt okkur lesendum góða yfirsýn yfir veruleikann sem mannfólkið býr við.

Appelsínan fljúgandi tók eftir því á ferð sinni að það getur verið erfitt að gera fólki til hæfis og það getur verið erfitt að ná sáttum ef ekki er nóg fyrir alla.

Hefur fólk ekkert betra að gera en að berjast um hluti þegar einstaklingarnir eru tveir en appelsínan sem þeir báðir vilja fá er bara ein? spurði appelsínan fljúgandi þegar hún varð vitni að hatrammri baráttu fólks um eina appelsínu.

Áfram hélt appelsínan ferðalagi sínu til þess að skoða hegðun mannfólksins. Á næsta viðkomustað sá appelsínan fund mikilvægra fulltrúar þjóða sem höfðu talið sér trú um að því meira sem þeir töluðu því betra. Víðar fór hún og sá hvernig lögfræðingarnir skylmuðust með lögunum til þess að finna sigurvegara og fjármálamennirnir létu peningana ráða úrslitum. Hagfræðingarnir sem appelsínan sá héldu í þá trú að enginn væri í raun vinalegur heldur töldu þeir að allar manneskjur væru þannig gerðar að þær hugsuðu bara um eigið skinn, og ef einhver vildi fá appelsínuna yrði öllum brögðum beitt til til að svo yrði. 

Þessi dæmisaga er lýsandi fyrir margt sem má verða vitni að á degi hverjum, margt sem mannkyn þarf að takast á við. Ber þar helst að nefna óvild og eigingirni, stríð og hatur, fátækt og fólk á flótta, græðgi og sóun. Við þetta má síðan bæta stærsta úrlausnarefni mannkyns um þessar mundir sem eru loftslags – og umhverfismál.

Appelsínan fljúgandi sem fyrr er greint frá furðaði sig á því hvernig mannfólkið leysti úr ágreiningsmálum sínum. Ekki þarf að leita langt til þess að sjá hversu óhæft mannfólkið er til að greiða úr ágreiningi. Stríðið í Sýrlandi sem nú hefur geysað í alltof mörg ár er gott dæmi. Ég held að það sé ómögulegt fyrir okkur íbúa Íslands að gera sér í hugarlund þær hörmungar sem þar eru lagðar á fólk. Þar hefur hatrið og miskunnarleysið fengið að ráða för með skelfilegum afleiðingum sem enginn veit hvernig muni fara. Hversvegna hefur enginn herforinginn, stjórnmálamaðurinn eða hermaðurinn staldrað við og spurt: Hvers vegna erum við að þessu? Fyrir hvað erum við að berjast?

Bara ef fleiri myndu gera sér grein fyrir því að við eigum bara eitt líf og það er dýrmætara en svo að við getum eytt því í stríðsrekstur. Hvers virði er að sigra stríð ef maður á svo eftir að deyja frá þessu öllu saman í fyllingu tímans?

Í bók Johans Galtungs segir einnig frá því þegar appelsínan varð vitni að þeirri ranghugmynd fjölmargra stjórnmálamanna að því meira sem þeir töluðu því mikilvægari töldu þeir verk sín. Samræðan er vissulega af hinu góða, með samræðunni má komast að því sem er satt og rétt, gott og fagurt. Samræðan leiðir til sannleikans og þagnarinnar var eitt sinn sagt. En samræða er ekki það sama og að tala. Við þekkjum eflaust öll dæmi af málglöðum stjórnmálamönnum sem

tala bara til þess að hafa orðið og tala bara til þess að önnur sjónarmið komist ekki að eða tala bara til þess að sigra aðra. Það eru þesskonar stjórnmálamenn sem Johan Galtung var að vara við. Slíkum stjórnmálamönnum verður lítið úr verki, hver sem viðfangsefnin eru, hvort sem þarf að stöðva stríð, koma í veg fyrir hungur eða bæta loftgæðin svo fáein brýn verkefni séu nefnd.

Síðast liðið sumar var ég svo lánsamur að fá tækifæri til að ferðast um Suður Afríku. Hluta ferðarinnar fór ég á reiðhjóli og var því mun nær íbúunum heldur en ef ég hefði bara ferðast í bíl. Það var vissulega heillandi á margan hátt að ferðast með þessum hætti en á sama tíma fann ég fyrir ákveðinni ónotakennd. Það sem olli þessum ónotum var ekki bara að verða vitni að þeirri gríðarlegu fátækt sem á sér stað í fátækrahverfunum, þar sem fólk hefur komið sér upp skúrum úr bárujárni, án viðunandi hreinlætisaðstöðu, kyndingu, rafmagni og vatni. Steinsnar frá, mátti nefnilega sjá forréttindahóp samfélagsins búa í nútímalegum og ríkmannlegum húsum sínum. Kjör þessara þjóðfélagshópa sem þarna mætast eru gjörólík.  Sá böggull fylgir skammrifi að til þess að njóta lífsins í velferðinni þarf að greiða hana því verði að búa umkringdur rammgerðum múrgirðingum auk rafmagnsgirðinga, varðhundi og skilti sem á stendur að ef einhver vogi sér inn í garðinn megi búast við vopnaðri varðsveit. Ójafnréttið, óréttlætið og misskiptingin er allt um lykjandi. Þarna upplifir maður ýkstustu birtingarmyndir misskiptingarinnar.

Fátækt er margslungin og mismunandi eftir samfélögum. Hún er mæld á mælikvarða sem tekur mið af efnahagi þeim sem finna má í sérhverju samfélagi á hverjum tíma. Við höfum heyrt af því á undanförnum vikum og mánuðum að fátækt og þar á meðal fátækt barna sé vaxandi hér á landi. Fátækt er ekki vírus, náttúruhamfarir eða slys. Fátækt er verk mannanna, segir í grein sem ég las eitt sinn. Þar var því jafnframt haldið fram og réttilega að mínu mati að verðmætum heimsins er ranglega skipt á milli fólks. Einn af mælikvörðum þess hversu gott samfélagið er fer eftir því hvernig komið er fram við fátækt fólk. Það er mikilvægt að við höfum þessi orð i huga fátækt er ekki vírus, náttúruhamfarir eða slys, fátækt er verk mannanna, þegar við ræðum um fátækt og viðbrögð við henni.

Fátækt hefur ekki bara að gera með fjármuni og húsnæði. Aðsteðjandi umhverfisvandi sem við öll búum við sem íbúar heimsins er ávísun á fátækt. Fyrr á þessu ári var greint frá því í fréttum að loftmengun sé nú helsta ástæða barnadauða í heiminum. Unicef barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur af þessu miklar áhyggjur. Það var ekki að heyra að íslenskir stjórnmálamenn

hefðu af þessu máli miklar áhyggjur fyrir síðustu alþingiskosningar. Ekki reyndust þeir heldur hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar. Engu að síður var talað mikið fyrir kosningarnar þó þessi mál hafi ekki komist á dagskrá. Óneitanlega minntu margir þeirra á stjórnmálamennina sem Johan Galtung sagði frá í bók sinni og héldu að því meira sem þeir töluðu því mikilvægari töldu þeir verk sín. En þó maður segi eitthvað þá er vissulega ekki sama hvað maður segir. Það er nefnilega hægt að hafa mörg orð um fánýta hluti.

Í áðurnefndri sögu Johans Galtung um appelsínurnar er ekki bara minnt á hvernig einstakir hlutir eins og ein appelsína getur valdið ósætti á meðal fólks og hvernig græðgin stýrir gjörðum fólks. Það er einnig bent á að mögulegt er að nálgast hlutina á annan hátt. Það er mögulegt að nálgast hlutina án þess að fara í stríð, án þess að skipta á ranglátan hátt eða án þess að eyðileggja þá eins og svo mörgum er tamt þegar þeir umgangast náttúruna.

Skoðum dæmi úr bók Johans: Tvær stúlkur sem appelsínan rekst á á ferð sinni, þurftu ekki að berjast um appelsínuna þar sem þær kusu að njóta fegurðar hennar með því að horfa á hana. Það þarf ekki alltaf að borða appelsínu til að njóta hennar. Það er hægt að njóta fegurðar hennar með augunum og það má gera án átaka. Þetta var nálgun stúlknanna og þetta er spurning um viðhorf. Með hvaða viðhorfi nálgumst við veruleika okkar.

Það sama má gera þegar fagurt dýralíf er annarsvegar. Það þarf ekki alltaf að drepa til þess að upplifa fegurðina í dýralífinu. Í fyrrgreindri ferð minni um Suður Afríku var virðinngarleysið gagnvart náttúru og dýralífi áhyggjuefni margra þar sem dýralíf er fallegt en á sama tíma viðkvæmt. Sumir telja sig ekki geta notið dýralífsins án þess að sjá dautt dýr fyrir framan sig á meðan aðrir benda á að það er vissulega mikils virði að njóta lifandi náttúru.

Það þarf ekki heldur alltaf að eignast hlutina eða ráða yfir þeim, komst appelsínan að í þessari ferð sinni þegar hún fylgdist með tveimur vinum. Í stað þess að berjast um hver ætti að fá að njóta appelsínunnar ákváðu þeir að skilja hana eftir. Vinátta okkar er meira virði en appelsína, sögðu þeir þar sem þeir yfirgáfu hana í stað þess að deila um hver ætti að fá hana. Þeir hefðu samt getað farið aðra leið en að skilja hana eftir segir í þessari dæmisögu. Þeir hefðu getað gefið einhverjum öðrum hana, einhverjum sem kynni að meta slíka gjöf og þyrfti á henni að halda.

Undir lok ferðarinnar í sögunni góðu sem hefur fylgt okkur hér í dag hitti appelsínan börn sem fundu skynsamlega lausn sem öðrum hafði ekki dottið í hug. Nú auðvitað skiptum við appelsínunni á milli okkar. Þá fær engin allt en allir fá eitthvað, sögðu börnin. Ekki vitlaust það. Börnin eiga það nefnilega til að flækja hlutina ekki um of heldur leita einföldustu lausnanna sem oft kunna að reynast bestar.

Kanadíska söngvaskáldið Leonard Cohen sem er flestum kunnur lést fyrr á þessu ári rúmlega áttræður að aldri. Skömmu áður en hann lést gaf hann út sinn síðasta hljómdisk. Í einu af ljóðunum sem hann flytur á diskinum veltir hann upp fjölmörgum spurningum og þar á meðal þessum: Hvað ef sólin tapaði geislum sínum og við lifðum í endalausu myrkri? Hvað ef tréin væru án laufa og sjórinn algjörlega vatnslaus?

Þessar spurningar Cohens eru síður en svo fráleitar og minna okkur á mikilvægi þess að fara vel með það sem við höfum. Við eigum bara eitt líf og afkomendur okkar líka og það er ekki ástæða til annars en að allir fái notið þeirra gæða sem það býður upp á. Til þess að svo megi verða þurfum við öll að hjálpast að með virðinguna að vopni, virðinguna fyrir hvert öðru, virðinguna fyrir náttúrunni og gæðum lífsins og virðinguna fyrir framtíðinni og lífsskilyrðum komandi kynslóða.

í lok barnabókar Johans Galtung sem hefur verið sem rauður þráður í hugvekju minni er lærdómurinn dreginn saman í einni spurningu og hún er þessi: Segðu mér hvað þú gerir þegar appelsínurnar eru ekki nógu margar og ég skal segja þér hver þú ert.

Þessa spurningu má orða á eftirfarandi hátt sem við ættum öll að hafa sem veganesti inn í framtíðina: Segðu mér hvað þú gerir þegar þú stendur frammi fyrir hinum ýmsu aðstæðum og ég skal segja þér hver þú ert?

Ágætu hlustendur. Stjórn Siðmenntar og aðstandendur útvarpsstöðvarinnar X ins fm 97,7 óska ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Jóhann Björnsson

Til baka í yfirlit