Hér má hlusta á jólahugvekju sem Jóhann Björnsson, formaður Siðmenntar, flutti á X-inu 9,77 á aðfangadag.
Að gera margar litlar byltingar: Jólahugvekja Siðmenntar 2015
Ágætu hlustendur
Ef maður gerir litlar byltingar alla daga þá hreyfist veröldin með manni þangað sem förinni er heitið.
Þessi orð eru höfð eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og birtust í auglýsingu í dagblaði skömmu fyrir jól.
Þau vöktu strax athygli mína, enda afar mikilvæg áminning sem endurspeglar einnig störf og lífsafstöðu húmanista um allan heim.
Húmanistar sem og margir aðrir eru þekktir fyrir að gera margar litlar byltingar, byltingar sem fela í sér umbætur í þágu mannréttinda, mannúðar og menntunar og í þágu dýra og umhverfisverndar. Þessar litlu byltingar húmanistanna eru oftar en ekki hljóðlátar en eiga sér margar stoð í hinum ýmsu mannréttindasáttmálum eins og t.d. í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þar segir m.a.:
- Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum…
- Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.
- Allir hafa rétt til að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.
Við þetta má bæta sem vel má lesa út úr mannréttindayfirlýsingunni að allar manneskjur hafa rétt á að leita hamingjunnar.
Ætla mætti að allt væru þetta sjálfsagðir hlutir á árinu 2015, en svo er alls ekki. Litlu byltingunum er ætlað að færa okkur nær manneskjulegra samfélagi, samfélagi þar sem fólk nýtur virðingar, þar sem fólk hefur réttindi og skyldur, frelsi, mannhelgi og hefur tækifæri til að leita hamingjunnar.
Fjölmargar litlar byltingar hafa verið gerðar á Íslandi á árinu. Má færa rök fyrir því að einhverjar þeirra séu í sjálfu sér ekkert sérstaklega litlar því þær hafa haft heilmikil áhrif.
Sumum hefur verið tíðrætt að undanförnu um að íslenskt samfélag einkennist af tómhyggju og skorti á lífsgildum. Svo er alls ekki, enda bera litlu byltingarnar, sem átt hafa sér stað í samfélaginu þess klárlega merki að fullt af fólki aðhyllist góð og heilbrigð lífsgildi. Þetta fólk, sem betur fer, býður hásaklegum sjónamiðum byrginn á degi hverjum og er það vel. Skoðum nokkur dæmi:
Forsvarsfólk kraftaverkasamkomunnar sem haldin var í Austubæ í nóvember opinberaði ítrekað mannfyrirlitningu gagnvart fólki með fötlun. Ung kona Íva Marín Adrichem sem er blind, fór fremst í flokki ásamt félögum sínum í hreyfingu sem kallast Tabú, og benti á niðurlægingu trúarbragðanna gagnvart fólki með fötlun. Í grein sem hún skrifaði sagði hún m.a.:
Það sem varð til þess að ég skrifa þessa hugleiðingu var ákveðinn maður sem ég mætti kvöld eitt í miðborginni. Hann kom að mér og vinkonum mínum þar sem við vorum á röltinu niður Laugarveginn. Viðkomandi maður hafði ákveðið að þetta kvöld skyldi hann dreifa „orði Drottins”. Ég afþakka kurteislega fyrir okkar hönd, sem varð til þess að maðurinn varð hneykslaður og reiður. Þegar ég ætlaði að ganga í burtu stoppaði hann mig og spurði mig hvassri röddu: „Nú, viltu ekki fá sjónina?“
Þetta kom mér í svo mikið ójafnvægi að ég vissi ekki hvað skyldi segja (sem gerist sko ekki oft). Það eina sem ég gat ælt út úr mér var að mér þætti þetta verulega óviðeigandi spurning. Maðurinn virtist ekki skilja hvað væri svona óviðeigandi og spurði mig hvað ég vildi. Í framhaldi byrjaði hann að segja sögu um það þegar Jesús hitti blindan mann á ferðalagi og veitti honum eina ósk. Blindi maðurinn vildi fá sjónina. Sjálfsagt hefur gerst einhvers konar kraftaverk og maðurinn fengið sjónina, en ég veit það ekki þar sem mér var svo misboðið að ég þoldi ekki að hlusta á restina af sögunni. Því greip ég fram í fyrir manninum og sagðist persónulega óska mér ýmissa annarra hluta en sjónar, til dæmis væri æðislegt ef fullkominn friður ríkti í heiminum. Hann fussaði bara og gekk móðgaður í burtu. Eftir stóð ég niðurlægð og undrandi á því að fólki finnist þurfa að „lækna mig“ og vilji þrönvga upp á mig trúarbrögðum til að svo megi verða. (Þegar trú mismunar, niðurlægir og vanvirðir, tabu.is sótt 20.12.2015)
Maður þessi sem Íva Marín ræðir í grein sinni hagar sér nákvæmlega í anda áðurnefndrar kraftaverkasamkomu. Þar var blindum lofuð sjón, daufum heyrn og lömuðum að stíga upp úr hjólastólum sínum. Allt var gert til að virða ekki manneskjuna í öllum sínum fjölbreytileika heldur var reynt að stimpla fjölbreytileika mannlífsins sem afbrigðileika. Þar birtist skortur heilbrigðra lífsgilda á meðan unga konan sem mótmælti með grein seinni er fulltrúi þeirrar byltingar sem lætur kreddur og fordóma ekki stýra lífi sínu.
Við skulum skoða annað dæmi: Morgunblaðið spurði í desember nokkra einstaklinga á förnum vegi hvort Íslendingar ættu að taka við fleiri flóttamönnum. Einn þeirra svaraði svo:
Nei, ekki eins og staðan er í dag. Við þurfum að huga að því sem er hérna heima fyrir og það eru öryrkjar og aldraðir. Við skulum slá heimahagana fyrst og síðan taka við arfanum hinum megin frá. (Morgunblaðið 13.12.2015)
Flóttamannastraumurinn til Evrópu er þjóðvegur 66 okkar tíma, sagði tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson, KK í Borgarleikhúsinu nýverið. Rithöfundurinn John Steinbeck gerði raunir flóttafólks eftirminnilegar í bók sinni Þrúgur reiðinnar. Þegar maður les lýsingar Steinbecks á raunum flóttafólksins í Bandaríkjunum á krepputímum, fólks sem leitaði lífshamingju og lífsviðurværis fyllist maður samkennd og samúð. Það vakti því óneitanlega athygli mína þegar ein manneskja telur ástæðu til að kalla aðrar manneskjur sem eru í neyð arfa. Arfa köllum við jurt sem flokkast sem illgresi og fólk vill halda fjarri görðum sínum. Að kalla annað fólk illgresi eða arfa er annað dæmi mannfyrirlitningar sem fjöldi fólks sá ástæðu til þess að mótmæla. Þar kom enn ein litla byltingin til sögunnar. Við skulum samt ekki gleyma því að fjöldi fólks sá ástæðu til þess að taka undir þessi orð viðmælanda Morgunblaðsins og er það tákn um þá tómhyggju lífsgilda sem finna má í samfélagi okkar og nauðsynlegt er að spyrna fótum við.
En hvers vegna að andmæla slíkri skoðun? Ástæðan er einföld. Við ættum öll að spyrja okkur: Hvað ef við værum í sporum flóttafólksins? Hvað ef einstaklingar annarra þjóða kölluðu okkur arfa og kæmu fram við okkur af virðingarleysi? Værum við sátt? Nei það get ég ekki ímyndað mér.
Enginn veit sína ævina fyrr en öll er, segir máltækið. Vitum við nokkuð um það hvort við íbúar Íslands eigum eftir að þurfa að reiða okkur á hjálpsemi annarra þjóða? Kannski að „arfinn”, svo notað sé orðalag viðmælanda Morgunblaðins, eigi dag nokkurn eftir að hjálpa okkur.
Ég heyrði eitt sinn mann segja að hann hefði það sem markmið í lífi sínu að tala aldrei illa um annað fólk. Mér finnst þetta svo aðdáunarvert að ég óska þess að við gætum öll tekið þessa afstöðu og gert hana að okkar. Við getum tekið allskonar afstöðu til skoðana fólks, við getum hafnað skoðunum þess og fordæmt, en það þýðir samt ekki að við þurfum að fyrirlíta manneskjurnar eða tala niður til þeirra.
En að fleiri byltinum. Rithöfundurinn Mikael Torfason gerði einnig litla byltingu á árinu þar sem hann vakti athygli á mannfyrirlitningu Votta Jehóva og meðvirkni heilbrigðiskerfisins. Sem barn þurfti hann á heilbrigðisþjónustu að halda sem trúfélag foreldra hans var á móti. Barnið var ekki látið njóta vafans og það var ekki fallist á að það fengi það sem því var fyrir bestu. Í viðtali vekur hann athygli á þessu og bendir á fáránleikann:
Við myndum aldrei leyfa Knattspyrnufélaginu Val það sem Vottar Jehóva komast upp með vegna þess að það er miðað út frá Biblíunni. (Morgunblaðið 20.12.2015)
Í framhaldi af þessari reynslu hans hefur sú spurning orðið áleitnari hvers vegna málið var ekki tilkynnt til barnaverndaryfirvalda. Vonandi eru trúarlegar kreddur ekki lengur látnar ráða þegar börn þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Það er klárlega eitthvað að því heilbrigðiskerfi sem lætur karla í Brooklyn sem stýra fordómafullum söfnuði stjórna því hvort barnavernd sé gert viðvart þegar hagsmunir barns eru látnir víkja.
Talandi um veikindi og börn, þá er er það kaldhæðnislegt að á degi mannréttinda sáu íslensk stjórnvöld ástæðu til þess að vísa sjúkum börnum úr landi ásamt fjölskyldum þeirra. „Lögin kveða á um…. og lögin segja..” voru rökin. Lögin voru talin æðri mannvirðingunni, góðu siðferði og mannúð.
En af stað fór enn ein litla byltingin í landinu okkar og allir vita hver áhrif hennar urðu.
Margar aðrar byltingar voru gerðar á árinu í þágu betra samfélags: Ungar konur risu upp og gerðu byltingu sem kallaðist frelsaðu geirvörtuna, druslugangan var enn ein byltingin og gleðiganga hinsegin fólks er löngu búin að sanna gildi sitt. Allt skiptir þetta máli til að gera samfélag okkar betra og manneskjulegra, til að gera samfélag okkar húmanískara.
Á árinu var einnig vakin athygli á slæmri meðferð dýra hér á landi. Dýrasiðfræði er húmanistum afar hugleikin. Dýr finna til og það eru rök til þess að lágmarka beri þjáningu dýra með öllum tiltækum ráðum.
Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi heiðraði fjóra einstaklinga á árinu fyrir þeirra framlag til betra samfélags.
Tveimur einstaklingum veitt svokölluð húmanistaverðlaun fyrir framlag í þágu mannréttinda eða mannúðar.
Þetta voru þær Erla Hlynsdóttir og Snædís Rán Hjartardóttir. Þær eiga mikið hrós skilið fyrir þeirra framlag til mannréttinda.
Blaðakonan Erla Hlynsdóttir vann þrjú mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómsstóli Evrópu þar sem komist var að því að íslenska ríkið hafi brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem fjallað er um tjáningarfrelsi.
Snædís Rán Hjartardóttir hefur einnig staðið dyggilega vörð um tjáningarfrelsið með því að sigra íslenska ríkið fyrir dómi, sem ekki stóð sig í að veita þá túlkaþjónustu sem nauðsynleg er. Ekki þarf að orðlengja það frekar að túlkaþjónusta er nauðsynlegur hluti tjáningarfrelsisins og það hefur sýnt sig að svo sannarlega þarf að standa vörð um tjáningarfrelsið, ekki bara í útlöndum heldur líka hér á landi.
Siðmennt veitti einnig svokallaða fræðslu- og vísindaviðurkenningu fyrir mikilvægt framlag í þágu fræðslumála á Íslandi. Menntun og upplýsing er einn lykilþáttur í öllu starfi Siðmenntar og húmanista um allan heim.
Ákveðið var að veita tveimur einstaklingum fræðslu- og vísindaviðurkenningu félagsins í ár sem hafa staðið sig vel í að fræða landsmenn og gera þar með sitt til þess að koma í veg fyrir fordóma. Þetta voru Kitty Anderson og Ugla Stefanía Jónsdóttir.
Kitty Anderson er í forystu félagsins Intersex Ísland og hefur unnið mjög gott starf í að fræða fólk um intersex og stöðu intersex fólks á Íslandi.
Ugla Stefanía Jónsdóttir er í forystu félagsins Trans Ísland, félags transgender einstaklinga á Íslandi og hefur unnið mjög gott starf að fræðslumálum um málefni transfólks.
Þegar Siðmennt fékk fyrst hlutdeild í svokölluðum sóknargjöldum, tók stjórn félagsins ákvörðun um að gefa á hverju ári hluta af þeirri upphæð til góðgerðamála. Félagið hefur gefið Kvennaathvarfinu og SOS barnaþorpum. Í ár var ákveðið að láta 600.000 krónur af svokölluðum sóknargjöldum renna til fórnarlamba jarðskjálftanna í Nepal fyrr á þessu ári. Rauði kross Íslands og systursamtök Siðmenntar í Nepal höfðu milligöngu um að koma fénu í góðar þarfir.
Hér hafa verið rakin nokkur dæmi um margar litlar byltingar sem gerðar hafa verið til þess að gera samfélag okkar betra. Margar fleiri hafa verið gerðar sem ekki hafa verið taldar upp, en skipta engu að síður miklu máli.
Fullyrða má að síðusta byltingin sem gerð var fyrir jól hafi verið gerð af starfsfólki og nemendum Langholtsskóla sem ákváðu að sameinast í baráttu fyrir friði með friðargöngu sem farin var undir fögrum tónum John Lennons. Var texti Lennons Imagine í þýðingu Þórarins Eldjárns sunginn. Textinn felur í sér mikilvægan boðskap og hljóðar svo:
Að hugsa himnaríki
og helvíti ekki til
aðeins jörð og himinn
það er auðvelt ef ég vil.
Að hugsa að allir lifðu
og hrærðust hér og nú.
Hugsaðu þér hvergi
nein landamæri lögð
að drepa og deyja fyrir
né deilt um trúarbrögð.
Já, hugsaðu þér heiminn
halda grið og frið.
Mér er sagt ég sé með óra
en ég er ekki einn um það.
Já, komdu með, við höldum hópinn
gerum heiminn að
griðastað.
Að hugsa sér ef engar
eignir væru til,
græðgi og hungur horfin,
hvergi ranglátt spil.
Að hugsa öll gæði heimsins
og jarðar deilast jafnt.
Mér er sagt ég sé með óra
en ég er ekki einn um það.
Já, komdu með, við höldum hópinn,
gerum heiminn að einum stað.
(Imagine eftir John Lennon, íslensk þýðing Þórarinn Eldjárn, Að hugsa sér)
Fyrir hönd stjórnar Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi og X-ins fm977 þakka ég fyrir það tækifæri að fá að ávarpa ykkur á þessari stundu. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og minni enn og aftur á orð rithöfundarins:
Ef maður gerir litlar byltingar alla daga þá hreyfist veröldin með manni þangað sem förinni er heitið.
Jóhann Björnsson