Hugvekja á útvarpsstöðinni X 97,7, 24. desember 2014
Jóhann Björnsson:
„Ég geld ekki rangt með röngu.”
„Ég geld ekki rangt með röngu” eru orð sem höfð eru eftir forngríska heimspekingnum Sókratesi sem uppi var fjögur hundruð árum fyrir okkar tímatal. Sókrates er án efa einn þekktasti og áhrifamesti heimspekingur sögunnar. Hann stundaði heimspeki á götum Aþenuborgar í formi heimspekilegra samræðna við borgarana. Hvað er ást? Hvað er fegurð? Hvað er réttlæti? eru dæmi um spurningar sem bar á góma í þessum samræðum. Sókrates taldi sig ekki vera yfir aðra hafin, hann taldi sig ekki kenna öðrum neitt enda taldi hann að það eina sem hann vissi væri að hann vissi ekki neitt. Hann líkti hinsvegar starfi sínu við starf ljósmóðurinnar sem aðstoðar konur við að fæða börn. Sókrates aðstoðaði fólk við að fæða skilning og þekkingu með gagnrýnum og heimspekilegum spurningum. Með því að spyrja þarf að leita svara og í þeirri leit fæðist skilningur hjá þeim sem leitar.
Ekki voru þó allir ángæðir með þessa heimspekiástundun Sókratesar og sannleiksleit hans varð honum dýrkeypt. Var hann af yfirvöldum talinn fara með hégóma og gera verri málstað að betri, spilla æskunni og trúa ekki á guðina.
Í ritinu Málsvörn Sókratesar segir svo um þetta:
„Sókrates er brotlegur og fer með hégóma er hann brýtur heilann um þá hluti sem eru undir jörðinni og í loftinu, gerir verri málstað að betri og kennir öðrum að gera slíkt hið sama.”
Fyrir þetta var hann dæmdur til dauða. Sókrates taldi sig saklausan af ákærum en ekki hvarflaði það að honum að gera minnstu tilraun til að víkja sér undan dómnum eftir að hann hafði verið kveðinn upp, jafnvel þó hann hafi haft tækifæri til þess að leggja á flótta. Sókrates leit á sig sem heiðarlegan borgara og taldi það skyldu sína að hlýða lögunum þó ranglát væru.
„Ég geld ekki rangt með röngu.”
Sókrates þurfti að lýða vegna skorts á tjáningarfrelsi. Gagnrýnar spurningar hans og heimspekilegar samræður, samræður sem hafa það að markmiði að komast að því sem satt er og rétt, gott og fagurt þóttu ekki stjórnvöldum boðlegar á þeim tíma.
Þetta var fyrir 2500 árum. Enn í dag, árið 2014 er mannkynið að glíma við sama vanda og Sókrates glímdi við. Hugsana- og tjáningarfrelsi er víða skert með skelfilegum afleiðinum fyrir þá sem leggja í að tjá hugsanir sínar og skoðanir, spyrja gagnrýninna spurninga og leita sannleikans í samræðum.
Síðastliðið haust sótti ég alþjóðaþing siðrænna húmanista sem haldið var í Oxford á Englandi. Þátttakendur komu hvaðanæva að úr heiminum og var þema þingsins hugsana- og tjáningarfrelsi.
Fjöldi fyrirlesara deildi reynslu sinni af því að hugsa frjálst og tjá skoðanir sínar. Reynslusögurnar höfðu oftar en ekki að geyma skelfingu mikla þar sem margir höfðu sætt, pyntingum, fangelsunum, ofsóknum og jafnvel verið gerðir brottrækir frá heimahögum sínum fyrir það eitt að tjá hugsanir sínar og skoðanir.
Bara það eitt að spyrja gagnrýninna spurninga, bara það eitt að vilja varpa fram öðrum sjónarhornum, bara það eitt að eiga í samræðum
við aðra er víða nóg til þess að hljóta dóm og verða útskúfun og brottrekstri úr samfélaginu að bráð.
Þær reynslusögur sem ég hlýddi á kunna að vera íbúum Íslands framandi. Við teljum okkur geta spurt gagnrýninna spurninga án þess að verða fangelsuð eða rekin af landi brott. En lærdóminn sem af þessu þarf að draga er sá að þessi réttur til að hugsa frjálst og tjá hug sinn er ekki sjálfsagður þó vissulega ætti hann að vera það. Réttindi sem fólk hefur er alltaf hægt að afnema. Það eru ekki bara stjórnvöld sem geta gert það heldur getur almenningur haft mikið um það að segja hversu gott og öruggt það er að hugsa frjálst, tjá hug sinn og fylgja sannfæringu sinni.
Við eigum að bera virðingu fyrir öllum manneskjum, en við eigum að vera ófeimin við að gagnrýna hugmyndir og skoðanir. Manneskja er eitt en skoðun hennar er annað. Þegar ég gagnrýni skoðun einhvers, hugmynd eða trú er ég ekki að vega að manneskjunni sem slíkri. Ég er þvert á móti að gera henni þann greiða að leyfa henni að sjá aðra hlið á málinu þannig að hún megi þroska og bæta skoðun sína, hugmynd eða trú. Ef skoðanir mínar, hugmyndir og trú eru gagnrýndar þá veit ég að þau sem gagnrýna, vilja að ég geri mér grein fyrir öðrum sjónarmiðum og í því felst ákveðin umhyggja. Þar býr að baki vilji til þess að ég móti mér skoðun að vandlega athuguðu máli þannig að hún megi reynast sem best.
Þetta var það sem Sókrates hafði í huga, að vandað sé til verka þegar skoðanir eru mótaðar.
Hér á landi er ekki allt með felldu þegar kemur að því að hugsa frjálst og tjá skoðanir og hugmyndir. Mikið vantar upp á að þroskuð samræða borgaranna eigi sér stað um erfið álitamál.
Fyrir skömmu hélt félagið Siðmennt málþing sem bar heitið Þurfum við að óttast Íslam? Markmiðið með málþinginu var að ræða umdeilt mál af yfirvegun þar sem allar hliðar væru undir í samræðunum án þess að gripið yrði til óheilinda, innistæðulausra upphrópana og ofbeldis. Markmiðið var efla skilning og þekkingu á málefninu. Gekk það að mörgu leyti vel. Það sem þó skyggði á annars gott málþing var að á meðal gesta voru einstaklingar sem ekki gátu unað því að aðrir væru á annarri skoðun en þeir sjálfir. Einstaklingar sem ekki höfðu hæfni til þess að spyrja yfirvegað gagnrýnninna spurninga og því síður rökrætt heiðarlega. Þess í stað var þeim sem á öðru máli voru óskað vistar í helvíti og þeim hótað öllu illu þannig að um mann fór hrollur. Mér varð hugsað til fyrirlesaranna á þinginu í Oxford, fórnarlamba ofbeldisins gegn frjálsi hugsun og tjáningu skoðana. Það eru þá til einstaklingar á Íslandi sem vilja færa okkur aftur á það stig ómenningarinnar þar sem fólki ber að halda sér saman ellegar hljóta verra af.
Við íbúar Íslands eigum það sameiginlegt með ýmsum afturhaldssömum ríkjum kúgunar og ofbeldis að hér á landi eru í gildi lög sem takmarka frjálsa tjáningu. Þetta eru lög um guðlast nr. 19. frá árinu 1940. Sá sem guðlastar getur átt yfir höfði sér sektargreiðslu eða fangelsisdóm.
Með lögum um guðlast er ekki verið að vernda einstaklinga, það er verið að vernda hugmyndir, kenningar og skoðanir sem í raun kunna að vera samfélagi okkar háskalegar. Hver sem lesið hefur Gamla testamenntið hefur án efa orðið var við hinn skapilla og ósanngjarna guð sem þar birtist sem hinn æðsti dómari á hverri síðu. Þar er hann tilbeðinn, guðinn sem bæði hatast út í konur og samkynhneigða. Sá sem t.d. lastar þann guð og þá trúarkenningu sem þar er getur átt yfir höfði sér að þurfa að dúsa í steininum samkvæmt íslenskum lögum.
Lög sem þessi eru aðeins ríkjandi í tæplega fjórðungi ríkja heimsins. Og það er sorglegra en tárum taki að engin ríkisstjórn hér á landi frá því að lögin voru sett, sama hvort þar sitji vinstriflokkar, hægriflokkar eða miðjuflokkar hafa sé ástæðu til að standa með tjáningarfrelsinu og afnema lögin.
Að gagnrýna skoðanir og hugmyndir er gott. Það sem er verra er þegar ráðist er á persónu fólks. Það er all algengt hér á landi að logið sé upp á fólk til þess síðan að geta gagnrýnt hugmyndir þess og skoðanir. Þá er einhverjum gerðar upp skoðanir sem hann ekki hefur og skoðanirnar síðan gagnrýndar. Þetta er fyrst og fremst gert til þess að klekkja á persónu viðkomandi. Þetta er gert í þeim tilvikum þar sem sá sem vill gagnrýna annan er kominn í þrot, fullur viljaleysis til að ræða málefnalega. Slæmt er þegar lyginni er ætlað það hlutverk að klekkja á fólki persónulega vegna þeirra skoðana sem það hefur.
Síðastliðið haust fékk ég símtal sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi. Nema hvað sá sem í mig hringdi spurði hvort ég hefði séð ummæli sem rituð höfðu verið um mig opinberlega á netinu. Þegar hér var komið sögu hafði ég ekki gert það. Þegar ég síðan sá umrædd ummæli kom í ljós að sá sem þau skrifaði var ósáttur við trúlausa lífsafstöðu mína sem fram hafði komið skömmu áður í viðtali í Morgunblaðinu. Tilefni viðtalsins var námskeið í trúarheimspeki sem ég var leiðbeinandi á og fjallaði um líf án trúarbragða. Í stað þess að gagnrýna lífsskoðun mína sem hefði verið vel þegið, ákvað þessi einstaklingur að vega að æru minni og starfsheiðri með ósannindi að vopni. Þar voru störf mín sem heimspekikennara í grunnskóla gerð torgtryggileg vegna persónulegra skoðana minna.
Í umræddri færslu sem birtist opinberlega sagði:
„Í Morgunblaðinu í gær er sagt frá námskeiði á vegum Siðmenntar sem fjallar um líf án trúarbragða. Kennarinn er leiðbeinandi í borgaralegri fermingarfræðslu. Hann kennir líka heimspeki í Réttarholtsskóla. Með fréttinni er mynd af skólanum og mynd af kennaranum þar sem ungmenni eru í bakgrunni. Kannski er hún tekin í skólanum.
Er nokkur hætta á því að undir formerkjum heimspekikennslu fari fram áróður á forsendum hagsmunaaðilans Siðmenntar, skráðs lífskoðanafélags? Ég spyr af því að ég hef heyrt af því frá krökkum í Réttó að Jóhann liggi ekki á skoðunum sínum.
Ég er auðvitað hlutdrægur því ég er í hinu liðinu en mér finnst þetta mikilvægt umræðuefni. Ég vil hvorki áróður frá kirkjupresti eða borgaralegum „presti” í kennslutíma í skólum barnanna minna.”
Það er vægast sagt dapurlegt að einstakingur sem starfar hjá stofnun hér á landi sem fylgir boðorðinu „þú skalt ekki ljúga” skuli hafa lagst svo lágt að ljúga upp á mig og nemendur mína. Við skulum ekki gleyma því að tjáningarfrelsinu fylgir mikil ábyrgð. Við berum ábyrgð á því sem við segjum. Vegna þeirrar ábyrgðar sem fylgir tjáningarfrelsinu voru ásakanir hans vitaskuld rannsakaðar af skólayfirvöldum og kom þá í ljós hið sanna. Viðkomandi fór fram með helber ósannindi í minn garð. Í niðurstöðu rannsóknarinnar á störfum mínum segir m.a. svo:
„…er það niðurstaða … að ekki sé nein ástæða til að ætla að í heimspekitímum … fari fram „eitthvað misjanfnt”.
Skólanum hafa aldrei borist neinar kvartanir eða vísbendingar af neinu tagi um að heimspekikennsla í skólanum samræmdist ekki aðalnámskrá, siðareglum kennara eða öðrum viðmiðum um skólastarf.”
Ég mun seint og líklega aldrei komast með tærnar þar sem Sókrates hafði hælana þegar kemur að heimspekiástundun með ungu fólki. Það er vissulega ánægjulegt að eiga þátt í því að heimspekiástundun í anda Sókratesar haldi áfram þar sem gagnrýnin hugsun, áleitnar spurningar og heiðarleg rökræða er í forgrunni. Þegar ég las fyrst um að Sókrates hafi verið dæmdur til dauða m.a. fyrir að spilla æskunni með heimspeki sinni hvarflaði ekki að mér að dag nokkurn þyrfti ég sjálfur að líða fyrir það að stunda heimspeki með ungu fólki. Það hvarflaði ekki að mér að á árinu 2014 væri svo illa komið fyrir einhverjum að beita ósannindum ekki ósvipuðum þeim sem Sókrates þurfti að þola fyrir 2500 árum.
Það eina sem ég get gert er að bregðast við í anda Sókratesar: Ég geld ekki rangt með röngu. Ef allir tækju sér þessi orð til fyrirmyndar og útfærðu þau víðar yrði samfélag okkar án efa betra. Ég geld ekki rangt með röngu, ég stel ekki frá þjófinum, ég myrði ekki morðingjann, ég beiti ofbeldismanninn ekki ofbeldi, ég lýg ekki upp á lygarann. Ég geld ekki rangt með röngu.
Ágætu hlustendur. Ég þakka kærlega fyrir það tækifæri að hafa fengið að ávarpa ykkur á þessari stundu. Fyrir hönd Siðmenntar og X-977 óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Jóhann Björnsson