Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Jafnréttishugtakið í fjölmenningalegu samfélagi

Hugvekja sem Claudie Ashonie Wilson flutti fyrir þingsetningu í Iðnó 14. desember 2017.

Jafnréttishugtakið í fjölmenningalegu samfélagi

 

Fundarstjóri, háttvirtir þingmenn og aðrir góðir gestir, góðan daginn.

Ég þakka Siðmennt kærlega fyrir tækifærið og þann heiður að fá að koma og ávarpa ykkur hér í dag. Ég þakka ykkur sömuleiðis fyrir að gefa ykkur tíma til að koma.

Einnig vil ég nýta tækifæri og óska ykkur öll innilega til hamingju með kjör ykkar til Alþingis.

Erindi mitt í dag heitir „Jafnréttis hugtakið í fjölmenningalegu samfélagi“ og vona ég þess að það muni vera til hugvekju fyrir ykkur við störf ykkar á þinginu.

Jafnréttishugtakið á Íslandi

Þegar ég velti hugtakinu jafnrétti fyrir mér tel ég að það sé hugtak sem nær til margra þátta sem kunna að skapa hindrun fyrir einstaklinga. Ólíkir þættir mismununar koma þannig í veg fyrir að einstaklingurinn fá tækifæri til að þroskast, rækta hæfileika sína og lifa heilsusamlegu lífi.

Á Íslandi leggur 65. gr. laga nr. 33/1944 um stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem og ýmsir alþjóðlegir mannréttindasáttmálar sem Ísland hefur gerst aðili að línuna um þessa þætti.

Þannig segir í 1. mgr. 65. gr. laga nr. 33/1944 um Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands að:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

 Sem innflytjandi, er það skilningur minn að af sögulegum ástæðum, og ástæðum samsetningar mannfjölda, þ.e.a.s. að meirihluti samfélagsþegna eru af íslenskum uppruna, hafi áhersla ríkisins í jafnréttismálum verið á grundvelli 2. mgr. 65. stjórnarskrárinnar, en þar segir að:

„Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

 Þann 30. nóvember sl. var nýi stjórnmálasáttmálinn kynntur almenningi. Hann er alls 40 blaðsíðu langur og listar upp öll stefnumál ríkisstjórnarinnar til næstu fjögurra ára.

Um jafnréttismál segir í stjórnarsáttmálanum að „ríkisstjórnin leggur áherslu á jafnrétti kynjanna.“  Sáttmálin útlistar með nákvæmum hætti hvernig ríkisstjórnin hyggst ráðast í það að tryggja kynjajafnrétti.

Ég tek heilshugar undir stefnu hinnar nýju ríkisstjórnar í kynjajafnréttismálum og þær aðgerðir sem hún leggur áherslu á.  Stefna sem þessi er sérstaklega mikilvæg  í ljósi umræðunnar undanfarinna vikna í tengslum við kynjamisrétti, áreitni og ofbeldi á atvinnumarkaði. Það má hins vegar velta fyrir sér hvort að áherslur ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sé ekki of takmarkaðar þegar litið er til samsetningar mannfjölda á Íslandi og þeirrar staðreyndar að fjöldi einstaklinga af erlendum uppruna fer ört vaxandi.

Samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofunni eru 13% af mannfjöldanum af erlendum uppruna [annarri kynslóð innflytjenda hér meðtalið] og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. Þannig að tæplega 40.000 manns á Íslandi í dag eru innflytjendur.

Til samanburðar, var fjöldi innflytjenda, bæði af fyrstu og annarri kynslóð, rúmlega 10 þúsund eða 3,7% þjóðarinnar, árið 2001 þegar ég flutti til Íslands.

Það liggur ljóst fyrir að Ísland er orðið að fjölmenningarlegu samfélagi hvort sem það hefur hlotið formlega viðurkenning sem slíkt eða ekki.

Ég velti fyrir mér hvort stefna ríkisins í jafnréttismálum á kjörtímabilið 2017-2021 geti einskorðast við kynjajafnrétti þegar ljóst er að mögulegt er að mismuna yfir 40.000 manns á öðrum grundvelli heldur en á grundvelli kynja? Verulega takmörkuð jafnréttisstefna kann að vera áhyggjuefni, sérstaklega þegar sáttmálinn kveður ekki á um stefnu ríkisins í innflytjendamálum, þ.e.a.s., rétt annarra sem leiða m.a. rétt sinn af útlendingalögunum og lögum um málefni innflytjenda. Það vakti athygli mína að orðin útlendingar eða innflytjendur birtast hvergi í hinum 40 blaðsíðna stjórnarsáttsáttmála.

Í sáttmálanum segir hins vegar:

„Ísland mun leggja sitt af mörkum til lausnar a flóttamannavandanum og taka á móti fleiri flóttamönnum.“ 

En fremur segir í sáttmálanum:

„Þverpólitískri þingmannanefnd verður falið að meta framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoða þau.“

Það er mikið fagnaðarefni að aukið verði við móttöku kvótaflóttamanna og jafnframt að framkvæmd útlendingalaganna sem tóku gildi í janúar sl. verði metin af þverpólitískri nefnd. Reynslan af framkvæmdinni síðastliðna 11 mánuði sýnir ýmsa meinbugi í lögunum sem leiða til innbyrðis mismununar á milli einstaklinga sem leiða komu sína til landsins og dvöl sína hér af lögunum.

Ég gæti nefnt mörg dæmi um meinbugi bæði í útlendingalögunum sjálfum og í framkvæmd stjórnvalda, en ætla að láta við það sitja að vekja athygli ykkar á tvennu í dag:

Hið fyrra er að þó að dvalarleyfisflokkarnir (þ.e.a.s. ótímabundið dvalarleyfi og tímabundið dvalarleyfi) eigi að vera ólíkir, og veita þar af leiðandi ekki sömu réttindi, kveða þeir hins vegar á um sömu skyldu, sem leiðir til ósanngjarnar mismununar og óvissu um stöðu og framtíð útlendings sem leiðir rétt sinn af tímabundnu dvalarleyfi.

Það hlýtur að teljast óréttlátt og ómannúðlegt að einstaklingur sem tekur virkan þátt í íslensku atvinnulífi og tekur þátt í að byggja upp hin félagslegu kerfi hérlendis árum saman fái enga tryggingu t.d. vegna veikinda, atvinnumissis, og ef viðkomandi missir starf sitt, eða þarf að taka frí frá námi sínu vegna fæðingarorlofs, kunni það að leiða til brottvísunar hans innan 30 daga og eftir atvikum til endurkomubanns. Við þetta má bæta að samkvæmt ársskýrslu OECD fyrir 2016, er atvinnuþátttaka innflytjenda í OECD ríkjum hvergi meiri en á Íslandi, en hér er hún rúmlega 84% þátttaka.

Hið síðara er alvarlegt dæmi. Það er það að börn námsmanna, þ.e. námsmanna sem ekki eru EES-ríkisborgarar, og fæðast hérlendis fá ekki dvalarleyfi, líkt og foreldrar þeirra. Börnin hafa því engin réttindi til dvalar.

Vegna þeirra margvíslegu mismununar sem útlendingar og eftir atvikum innflytjendur verða fyrir á Íslandi, taldi ég að stefnuyfirlýsing fráfarandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Bjartar Framtíðar og Viðreisnar um málefni útlendinga og innflytjenda hérlendis væri viðurkenning á mikilvægi veru og þátttöku útlendinga í íslensku samfélagi.  Þannig segir í stefnuyfirlýsingu fráfarandi ríkistjórnar að:

„Innflytjendur og útlendingamál Í fjölmenningarsamfélagi felst mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga. Innflytjendum verði auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

[…]

Einfalda skal veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins. Meta ber menntun þeirra sem flytjast til Íslands að verðleikum og tryggja að aðbúnaður geri landið eftirsóknarvert til framtíðar.“

Ekkert sambærilegt er að finna í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Það er hvorki minnst á orðin útlendingar né innflytjendur í sáttmálanum. Ég velti þá fyrir mér: Hver er þá stefnu hinnar nýju ríkisstjórnar í málefnum innflytjenda og útlendinga? Og af hverju miðast áhersla stjórnvalda í jafnréttismálum samkvæmt stjórnarsáttmálanum eingöngu við kynjajafnrétti?

Ég las nýlega grein á Kjarnanum með yfirskriftina „„Ekkert um okkur án okkar“ – Þingið verði að endurspegla þjóðina“. Í greininni segir að:

„Samtök kvenna af erlendum uppruna harma sérstaklega að enginn þingmaður sé af erlendum uppruna og skora á stjórnmálaflokkana að bjóða og hvetja innflytjendur að gefa sig fram því stjórnmálin eigi að endurspegla betur fjölbreytileika samfélagsins.“

Í þessu samhengi var bent á í greininni að bæði Nichole Leigh Mosty, þing­maður Bjartrar fram­tíðar og Pawel Bar­toszek, þing­maður Við­reisn­ar, hafi dottið út af þingi í síðustu alþingiskosn­ing­unum.

Þegar síðustu tveir stjórnmálasáttmálar eru bornir saman, þá er ekki hjá því komist að velta því fyrir sér hvort að til þess að jafnréttisstefna ríkisins endurspegli samfélagið í heild, þurfi til þingmenn sem eru af erlendum uppruna?

Nú situr enginn þingmaður af erlendum uppruna á þingi. Ef miðað er við að 13% þjóðarinnar séu af erlendum uppruna ætti hlutfallslega séð átt að vera a.m.k. 8 þingmenn af erlendum uppruna á þingi.

Þegar núgildandi stjórnmálasáttmáli er borinn saman við hinn fyrri, blasir við að það getur ekkert verið um okkur án okkar.

Að mínu mati er nauðsynlegt að unnið sé að jafnræði alla landsmanna í fjölmenningalegu samfélagi. Eflaust þurfa margt að koma til svo að það verði að veruleika og er enginn ein leið í að ná því markmiði.

Ég ætla hins vegar að freistast til að nefna þrjú atriði sem ég tel vera góða uppskrift að byrjuninni, hér við þetta tilefni:

  1. Stjórnmálaflokkarnir tryggi, t.d. með fléttulistum að fleiri þingmenn af erlendum uppruna verði kjörnir á þing og þingið endurspegli þannig samfélagið í heild.
  2. Stefnumótun ríkisstjórnarinnar og lagaumhverfið þurfa að koma heim og saman í jafnréttismálum sem stuðla að því að tryggja jafnrétti allra landsmanna. Innleiðing á tilskipunum Evrópusambandsins um jafnrétti án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna (2000/43/EB) og jafnrétti í atvinnulífi og starfi (2000/78/EB) og fullgilding 12. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, er mikilvægt í þessum efnum. Ágætt er að benda á í þessu samhengi að ólíkt á Íslandi, er alls staðar á Norðurlöndunum að finna heildstæða jafnréttislöggjöf sem byggir m.a. á fyrrgreindum tilskipunum.
  3. Að tryggja það að breyttar áherslur hinnar nýju ríkisstjórnar í jafnréttismálum hafi ekki neikvæð áhrif á þingsályktun velferðarráðuneytisins um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til 2019 sem var samþykkt í september 2016. Þess í stað tryggi ríkisstjórnin að þessari áætlun verði fylgt eftir og sjái jafnvel hag þann sem felst í umbótum sem áætlunin kveður á um.

Ég þakka áheyrnina!

Claudie Ashonie Wilson

Til baka í yfirlit