Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hvert renna þín sóknargjöld?

Hvert renna þín sóknargjöld?

Nú líður að 1. desember og hver skráning þín í trú- eða lífsskoðunarfélag er þann dag ræður því hvert sóknargjöld næsta árs fara. 

Staðreyndir um sóknargjöld:

  • Sóknargjöld eru ekki félagsgjöld, sem hvert og eitt greiðir til samtaka sem viðkomandi hefur gengið í, og hættir að greiða þegar félagsaðildinni lýkur. Sóknargjöld eru einfaldlega framlög úr ríkissjóði, sem allir skattgreiðendur greiða, óháð trúfélagsaðild og óháð tekjum. Þau renna aftur á móti til trú- og lífsskoðunarfélaga í hlutfalli við aðild að þeim samkvæmt Þjóðskrá.
  • Háskólinn fær ekki sóknargjöld þeirra sem standa utan trúfélaga. Því fyrirkomulagi var breytt árið 2009. Þessi sóknargjöld fara beint í ríkissjóð.
  • Sóknargjöld eru ekki innheimt sérstaklega. Það er enginn reitur á álagningarseðlinum þínum sem heitir „Sóknargjöld“, líkt og „Útvarpsgjald“ eða „Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra“.
  • Þótt þú standir utan trú- eða lífsskoðunarfélags greiðir þú samt jafn mikið í skatt og áður. Þú greiðir í raun fyrir sóknargjöldin í gegnum skattkerfið, og það fé rennur beint í ríkissjóð.
  • Félögin sem fá sóknargjöld í sinn hlut ráða engu um upphæð þeirra. Hún er alfarið ákveðin af Alþingi.
  • Sóknargjöld greiða ekki laun presta þjóðkirkjunnar. Ríkið greiðir þau sérstaklega en þjóðkirkjan fær tæpa 4 milljarða í framlög frá ríkinu, óháð sóknargjöldum, í krafti kirkjujarðasamkomulagsins svokallaða. Ríkið greiðir ekki laun fyrir starfsmenn annarra trú- og lífsskoðunarfélaga en þjóðkirkjunnar.
  • Hver og einn borgari ræður því hvert ríkið greiðir fyrir hann sóknargjöld. Hægt er að breyta því vali hvenær sem er á vefsíðu Þjóðskrár.
  • Hér áður fyrr voru allir skráðir sjálfkrafa í sama trúfélag og mæður þeirra, og ennþá eru börn skráð sjálfkrafa í það félag sem báðir foreldrar eru í. Mikill hluti þjóðarinnar er því skráður í trú- eða lífsskoðunarfélag án þess að hafa nokkurn tímann tekið ákvörðun um að tilheyra því félagi.
  • Sóknargjald nemur nú (2024), 1.192 kr. á mánuði eða 14.304 kr. á ári.



Það er einfalt og ókeypis að skrá sig í Siðmennt.

 



(Byggt á grein Siggeirs F. Ævarssonar, fyrrv. framkvæmdastjóra Siðmenntar, á Vísi.is 27 nóvember 2021, sjá grein hér.)

 

Til baka í yfirlit