Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hversu lengi geta stjórnvöld hunsað vilja þjóðarinnar um hlutlaust veraldlegt ríki?

Eftirfarandi grein birtist á visi.is föstudaginn 7. maí 2010.

Í tilefni 20 ára afmælisárs síns mun Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi halda yfirgripsmikið málþing um gildi veraldlegrar skipan á grunnstoðum þjóðfélagsins, laugardaginn 8. maí í Öskju, húsi HÍ frá kl 10:00 til 14:00. Fimm félagar í Siðmennt munu flytja stutt erindi og taka við spurningum úr sal. Málþingið endar á pallborðsumræðum.

 

Svanur Sigurbjörnsson læknir byrjar með sögulegu yfirliti þeirra hugmynda sem mótuðu hinn Vestræna heim hve mest: „Aldir fullvissunar voru að baki og aldir efahyggjunnar, gríðarlegra framfara í þekkingarleit og húmanískrar réttindabaráttu tóku við. Eftir aldir af valdníðslu þurfti að byggja upp traust fólks á því að hægt væri að mynda réttlátt ríki. Til þess þurfti samfélagssáttmála sem fól í sér dreifingu valdsins, þ.á.m. aðskilnað trúarlegra valdhafa frá ríkinu. Á Íslandi tóku stjórnvöld upp brunaútsöluútgáfuna af þessu fyrirkomulagi og tryggðu Þjóðkirkjunni áframhaldandi forréttindi og sjálftöku á þjóðinni. Þjóðin hefur aldrei fengið að kjósa um málið“

Jóhann Björnsson heimspekingur og kennari gagnrýnir menntakerfið og mun hafa m.a. þetta að segja: „Það er svo þægilegt að vera ósjálfráða“ skrifaði Immanuel Kant í stuttri grein árið 1784 um leið og hann hvatti fólk til þess að hugsa sjálfstætt. Þegar litið er til skólastarfs á Íslandi á sjónarmið Kants á ósjálfræði fullt erindi. Þeir sem hafa séð ástæðu til að hugsa sjálfstætt og gagnrýna skólastarf hafa of oft verið litnir hornauga og fengið viðbrögð á borð við þessi: „Hva, það skaðar nú ekki börnin þó…….“ Vegna þess hversu algeng þessi viðbrögð eru er ástæða til þess að spyrja hvort allt eigi að vera leyfilegt í skólum landsins sem ekki er beinlínis skaðlegt.

Í erindi sínu „Hugsanir á dósum: um hjarðhugsun og andlega leti“, mun Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur segja meðal annars: „Fyrir rúmum 70 árum talaði breski heimspekingurinn Susan Stebbing um það sem hún kallaði hugsanir á dósum (potted thinking), sem hún taldi skýrri hugsun og góðri umræðu til mikils trafala. Þar átti Stebbing við það hvernig hinar ýmsu hugmyndir voru einfaldaðar og settar í þægilegan búning og fólk tæki svo við þeim gagnrýnislaust. Er sú umræðuhefð sem við búum við eitthvað betri en sú sem Stebbing gagnrýndi?

Sigurður Hólm Gunnarsson iðjuþjálfi mun fjalla um það nánar um hin óeðlilegu og ósanngjörnu hagsmunatengsl hinnar evangelísk-lúthersku kirkju við ríkið hérlendis. Svíar hafa aðskilið kirkju frá ríki, en hérlendis hunsa stjórnmála menn rökin fyrir því og meirihlutavilja þjóðarinnar, en í desember síðastliðnum vildu 74% landsmanna aðskilnað skv. þjóðarpúlsi Gallup. Einnig verður slegið á léttari strengi og Halldór Benediktsson, líffræðinemi mun fjalla um veraldleg þjóðfélög í vísindaskáldsögum og kvikmyndum. Áhugafólk um þjóðmál ætti ekki að láta þetta málþing fram hjá sér fara. Þjóðin hefur kallað á aukna gagnrýna hugsun og þarna mun hún fá vænan skammt.

Svanur Sigurbjörnsson.
Höfundur er stjórnarmaður í Siðmennt.

Til baka í yfirlit