Hvernig get ég fundið hamingjuna? – Þannig er húmanismi!
Stutt fræðslumyndbönd um húmanisma unnin í samvinnu við bresku húmanistasamtökin, British Humanist Association (Myndband 2 af 4).
Sumt fólk heldur að lífið hafi einn skýrann tilgang.
Það heldur að alheimurinn hafi verið skapaður í ákveðnum tilgangi og að mannfólkið sé hluti af einhverri allsherjaráætlun. Það heldur að tilgangur okkar felist í því að vera hluti af þessari áætlun sem sé skrifuð í alheiminn og bíði þess bara að vera uppgötvuð.
Húmanisti lítur öðrum augum á tilgang lífsins.
Húmanistar sjá ekki að það sé neinn augljós tilgangur með alheiminum heldur sé hann náttúrulegt fyrirbæri án nokkurrar hönnunar. Tilgangur er ekki eitthvað úti í buskanum sem bíður þess að vera uppgötvað heldur eitthvað sem við búum til í okkar eigin lífi.
Og þótt þessi gríðarstóri og óragamli alheimur hafi ekki verið skapaður fyrir okkur er hvert og eitt okkar tengt einhverju stærra en sjálfum okkur, hvort sem það er fjölskylda og samfélag, hefð sem teygir sig aftur í tímann, hugmynd eða málstaður sem mun blómstra í framtíðinni, eða þessari undurfögru jörð sem við fæddumst á þar sem tegundin okkar þróaðist.
Í þessum hugsunarhætti felst að það er ekki bara einn stór „tilgangur með lífinu“ heldur geti hver maður fundið tilgang á mörgum ólíkum sviðum.
Hvert okkar um sig er einstakt og ólíkur persónuleiki hvers og eins veltur á flókinni blöndu af áhrifum frá foreldrum okkar, umhverfinu og tengslum okkar. Hann breytist með fenginni reynslu við ólíkar aðstæður.
Það eru ekki til neinar einfaldar uppskriftir af því hvernig lifa á lífinu sem eiga við alla menn. Smekkur manna er misjafn og það sama má segja um markmið okkar og forgangsröðun.
Einn vill helst teikna, ganga um í skóginum og hugsa um barnabörnin en annar nýtur þess best að elda, horfa á sápuóperur, bergja á eftirlætisvíni eða bragða nýjan mat.
Við getum fundið tilgang í fjölskyldu okkar, starfinu, í því að styrkja ákveðna listsköpun eða bæta stjórnmálastefnu, í gleðinni sem fylgir garðyrkju, áhugamálum eða þúsund öðrum leiðum sem veita sköpunargleðinni útrás eða svala forvitni okkar, auðga vitsmunalífið og tilfinningarnar.
Nú er rétti tíminn til að upplifa hamingjuna og leiðin til að finna tilgang í lífinu er að fara að lifa því – eins vel og af eins mikilli fyllingu og okkur er unnt.
Þannig er húmanismi!
http://www.sidmennt.is | https://www.facebook.com/sidmennt
Sjá nánar:
[posts-by-tag tags=“Þannig er húmanismi“ number = „10“]