Fyrir kosningar sendi Siðmennt öllum framboðunum til Alþingiskosninga spurningar sem m.a. vörðuðu afstöðu þeirra til aðskilnaðar ríkis og kirkju og hvort þeir ætluðu að setja málið í ferli á kjörtímabilinu.
Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð voru sammála um að styðja aðskilnað ríkis og kirkju.
Þegar þessir flokkar voru spurðir hvort tímabært væri að hefja undirbúning að slíku ferli má lesa um það í svörum flokkanna að breið samstaða væri um slíkt á nýju þingi.
Afstaða flokkanna var því í samræmi við vilja Íslendinga sem birst hefur í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið frá árinu 1994. Þá voru rúm 60% hlynnt aðskilnaði en á síðustu árum hefur sá stuðningur vaxið í 72%.
Þess vegna kemur það verulega á óvart að ekkert sé minnst á aðskilnað ríkis og kirkju í nýjum stjórnarsáttmála. Ekki hefur neinn flokkur þurft að gera málamiðlun í málinu eða þurft að sjá það hverfa út af borðinu vegna andstöðu hinna.
Hver er því ástæðan fyrir að málið er ekki í sáttmálanum? Voru svörin sem gefin voru fyrir kosningar innistæðulaus?
Stjórn Siðmenntar lýsir yfir verulegum vonbrigðum sínum með að stjórnarflokkarnir hafi ekki geta staðið við það sem þeir sögðu fyrir kosningar.