Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hvað er borgaraleg ferming og hvað er siðrænn húmanismi?

 

Hér verður fjallað um siðræna manngildisstefnu, sem er þýðing á hugtökunum etískur humanismi. Nýlega fór fram borgaraleg ferming hér á landi og fyrirmynd að henni var sótt til samtaka etískra húmanista erlendis. Ekki hafa allir skilið þá hugmyndafræði, sem slík samtök styðjast við, t.d. var slíkur skilningur ekkert skilyrði fyrir þátttöku í fermingarathöfninni. En það hefði að sjálfsögðu verið í andstöðu við frjálslyndi siðræns húmanisma að gera í upphafi kröfu um einlita hugmynda-fræðilega afstöðu.

Fyrst verður hér fjallað nokkuð um ferminguna en síðan manngildisstefnu.

Borgaraleg ferming.

Tvennkonar gagnrýni hefur einkum komið fram á borgaralega fermingu.

Annars vegar er sagt að með borgaralegri fermingu sé verið að stæla ómerkilega gjafahátíð, sem rétt væri að kirkjan ein sæi um. Með því að nefna athöfnina fermingu sé verið að sýna kirkjulegri athöfn of mikla virðingu. Hins vegar er sagt að það sé óvirðing við kristna kirkju að kenna ókristilega athöfn við eitthvað sem kirkjan ein hefur hingað til séð um.

Ég held raunar að hjá mörgum blandist þetta tvennt saman: Fólk er íhaldssamt og er illa við nýjungar. Öll þessi gagnrýni byggir auk þess á misskilningi.

Með borgaralegri fermingu er á engan hátt verið að lýsa stríði á hendur kristni eða öðrum trúarbrögðum. Fermingin er at-höfn til að stuðla að siðferðilegum þroska. Ef eitthvað nýtist af kristnum helgisiðum eða kristnu siðgæði við þá athöfn væri slík á engan hátt í mótsögn við eðli borgaralegrar fermingar. Hún er eins og áður segir siðræn afstaða og athöfn en án þess að heit sé gefið um trúnað við ákveðin trúarbrögð.

Það hefur einnig verið gagnrýnt að hugtakið ferming sé notað um þessa athöfn. En hugtakið er í sjálfu sér hlutlaust og merkir aðeins staðfesting, sbr. latneska orðið confirmere. Með athöfninni er verið að staðfesta að unglingurinn hafi sótt sérstakt og sérstætt námskeið og að þar með sé merkum áfanga náð í lífi hans.

Sú staðhæfing að hugtakið ferming hafi á Íslandi hingað til aðeins verið notað um kirkjulega athöfn, líkt og segir í íslenskum orðabókum, fræðir okkur um hver venjan hefur verið hér á landi. Erlendis er ferming, öðru nafni konfirmation, fyrir löngu búin að vinna sér sess sem borgaraleg athöfn. Þannig hefur „borgerlig konfirmation“ tíðkast í Danmörku síðan 1913 eins og danskar orðabækur bera vitni um.

Hér ber einnig að athuga að ferming er ekki sakramenti eða heilög athöfn í lúterskri kristni. Þar eru sakramentin aðeins tvö, skírn og altarisganga. Það væri sannarlega gagnrýnisvert ef einhver borgaraleg samtök færu að ræða um „borgaralega skírn“ eða „borgaralega altarisgöngu“. Ferming í umhverfi lúterskrar kristni er allt annars eðlis, enda var ferming lítt eða ekkert stunduð á Íslandi frá siðaskiptunum 1540/50 fram til fram til fjórða áratug 18. aldar. Þá var hún skipulögð á nýjan leik en ekki sem þáttur í nýrri guðfræði, lúterskur rétttrúnaður breytt-ist þá ekkert, heldur sem fullnaðarpróf ungmenna í konunglegu einveldi. Allir skyldu læra að lesa og kunna kristin fræði og prófið í skólalausu samfélagi varð fermingin í höndum prestanna.

Eftir að almennri skólaskyldu var komið á laggirnar á þessari öld varð fermingin að hálfgildings vandamáli hjá kirkjunnar mönnum sem gripu þá til þess ráðs að tengja hana fyrstu altarisgöngunni. Þessi ráðstöfun hlýtur að vera mjög umdeild guðfræði með lúterskum.

Í löndum mótmælenda, jafnt lúterskum og kalvínskum, hefur fermingin verið mjög á undanhaldi á þessari öld og virðist lítil eftirsjá vera eftir henni meðal klerka, enda er hún ekki sakramenti. Á Íslandi hefur fermingin hins vegar haldið velli sem fjölskylduhátíð mikilla gjafa.

Satt að segja finnst mér lútersk kirkja engan veginn vera í stakk búin að geta hneykslast yfir innleiðingu borgaralegrar fermingar. Slíkt gæti kaþólska kirkjan hins vegar gert, en hún lítur á ferminguna sem sakramenti. Á sama hátt hefur kaþólska kirkjan rétt á að hneykslat að notkun lúterskra á fermingarhugtakinu. Frá sjónarmiði þeirrar kirkju getur varla verið eðlismunur á lúterskri fermingu og borgaralegri fermingu.

Siðrænn húmanismi.

Það er ljóst að ekki þarf endilega að fara saman að taka þátt í athöfn án trúarlegs ívafs eins og borgaraleg ferming er og að stofna félagsskap fólks sem í lífsviðhorfi eru agnostíkerar eða aþeistar. (trúleysingar eða guðleysingar). Kristnir einstaklingar geta tekið þátt í athöfn eins og borgaralegri fermingur og jafnvel borgaralegri greftrun (sem ekki er heldur sakramenti hjá mótmælendum. Sumir kalvínskir söfnuðir sleppa þannig meira eða minna öllum helgisiðum við greftrun).

Það er hins vegar ljóst að agnostikerar og aþeistar hljóta að vera burðarásinn í samtökum sem skipuleggja borgaralega valkosti við helstu tímamót lífsins og því hljóta lífsviðhorf þeirra að móta þau.

Slík samtök eru á erlendum málum kennd við húmanisma og etik. Frá upphafi húmanismans á siðmiðöldum hefur negin stefnuáherslan falist í trausti á getu og vilja mannsins til að bæta sjálfan sig og umhverfi sitt: Maðurinn hefur frjálsan vilja til að velja og hafna og ráða örlögum sínum, bæði einn og í samfélagi við aðra. Lögmálum eða valdi utan mannlegs vilja hefur ekki endilega verið hafnað en hins vegar talið að séu þau ekki til þroska eigi að vinna gegn þeim og maðurinn á að geta komist mjög langt í þeim efnum ef vilji hans er tvímælalaus. Slík „lögmál“ eða slíkt vald getur bæði talist til „yfirnáttúrulegra“ og náttúrulegra fyrirbæra.

Húmanisminn hefur því bæði getað samræmst trúarbrögðum og snúist gegn þeim. Hinar ýmsu kirkjur heims snérust þó nær allar gegn manngildisstefnunni fyrr á öldum og jafnt mótmælendakirkur og kaþólska kirkjan létu brenna húmanista á báli á 16. öld. Því hefur húmanisminn þróast sem hugmyndafræði í stöðugri andstöðu við kirkjuleg völd. Lögð hefur verið áhersla á frjálsan vilja mannsins til að ráða örlögum sínum og snúist hefur verið gegn allri forlagahyggju og hugmyndum um að „yfirnáttúruleg“ öfl ráði lífi mannsins.

Vísindahyggja og skynsemistefna 18. og 19. alda voru að miklu leyti sprottnar af meiði húmansimans en vísindahyggjan setti samt húmanismann í hugmyndafræðilegan vanda. Samkvæmt gamalli vísindahyggju átti að vera mögulegt að leysa öll mannleg vandamál með einföldum forskriftum úr náttúruvísindum og félagsvísindum. Forskriftirnar verða að lögmálum, sem hljóta svipað hlutverk og trúarbrögðin: Maðurinn verður samkvæmt „vísindaforskriftunum“ að lúta einu og öllu lögmálum náttúru, sögu eða markaðar líkt og menn áður fyrr urðu að lúta vilja Guðs. Frjáls vilji mannsins má sín lítils í þessari forskriftatrú.

Trúleysi (agnostismi) og guðleysi (aþeismi) sem á nær einhliða rætur að rekja til lögmálsbundinnar vísindahyggju 19. aldar, er því annars eðlis en það trúleysi og guðleysi sem felst í húmanismanum. Þessu til áréttingar hafa húmanistar nú á síðari helmingi 20. aldar bætt hugtakinu etik, siðfræði, við húmanismann. Hún er nokkurs konar undirstrikun manngildishugsjónarinnar. Manninum er gefinn frjáls vilji til að bæta siði sína, þ.e. að bæta sjálfan sig. Húmanisminn væri lítils eða einskis virði án sterkrar siðgæðisvitundar. Til hvers væri að setja traust sitt á manngildið ef tilgangurinn er ekki að bæta manninn?

Auk þess er það sérhverjum manni nauðsynlegt að búa við ákveðin og skýlaus siðferðisgildi einfaldlega til að geta verið í samfélagi með öðrum mönnum. Hér hræða vissulega spor guðlausrar forskriftatrúar, en þar var gjarnan almennum siðferðisreglum í samskiptum manna á meðal kastað fyrir róða á þeim forsendum að þær væru smáborgaralegar og jafnvel kristilegar. Hitler sótti hugmyndir sínarað hluta í „mannbóta“- og kynþáttakenningar sósialdarvinsimans og sniðgekk allar venjulegar siðareglur. Hugmyndalegar rætur stalínismans voru fyrst og fremst trúin á sögulega nauðsyn óhjákvæmilegrar og harðrar stéttarbaráttu og öll mannleg breytni var sniðin eftir þessari trú.

Að þessu leyti líktist guðlausa forskriftatrúin öðrum trúarbrögðum. Þetta ættu allir guðleysingjar að hafa í huga þegar sumir þeirra hyggjast fordæma t.d. kristnina með því að benda á einstakar misgerðir kristinna manna í nafni trúar sinnar.

En húmanisminn er að því leyti líkur trúarbrögðum eins og kristni að hann leggur mikla áherslu á siðfræði hvers og eins. Sérhver húmanisti á að reyna að fara eftir reglunni að gera náunga sínum það sem þú vilt að hann þér geri. Það er engin skömm að fara í smiðju trúarlegrar siðfræði. Þvert á móti er það skylda húmanistans að efla siðfræði sína í samræmi við það besta og skynsamlegasta sem finnst í siðareglum þess samfélags, sem hann lifir í. Allt skilur þetta siðræna manngildisstefnu (etískan húmanisma) frá forskriftatrú gamallar vísindahyggju.

Að endingu skal ítrekað hvað siðræn manngildisstefna er: Maðurinn er, bæði einn og í samfélagi við aðra, með frjálsan vilja og lýtur ekki lögmálum trúarbragða hvort sem þau eru í gervi guðstrúar eða vísindahyggju. Þetta líf er hið eina sem við eigum og við þurfum að efla það og bæta. Við berjumst gegn hleypidómum og þröngsýni og vinnum gegn fáfræði. Samtök um siðræna manngildisstefnu munu stuðla að því að hver og einn geti í frjálsu vali sínu tekið þann kost sem verði engum til meins og honum eða henni til einhvers þroska.

(Mbl. 17.06.1989)

Gísli Gunnarsson

Til baka í yfirlit