Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Húmanistaviðurkenning Siðmenntar 2011

Fimmtudaginn 3. nóvember var hin árlega Húmanistaviðurkenning Siðmenntar afhent, sjöunda árið í röð, og fór viðburðurinn fram á Icelandair Hótel Reykjavík Natura. Handhafi viðurkenningarinnar árið 2011 er Páll Óskar Hjálmtýsson  sem hefur árum saman barist fyrir mannréttindum samkynhneigðra og með jákvæðni sinni, sköpunarkrafti og einlægri framkomu verið landsmönnum öllum kærkomin fyrirmynd.

Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar var úthlutað í fjórða sinn. Árið 2008 hlaut Pétur Tyrfingsson sálfræðingur hana, árið 2009 hlaut Orri Harðarson hana og árið 2010 Ari Trausti Guðmundsson. Eitt af megin umfjöllunarefnum félagsins er þekkingarfræðin og stuðningur við vísindalega þekkingarleit og fræðslu. Félagið veitir viðurkenningu þeim aðila eða samtökum sem hafa fært þjóðinni mikilvægt framlag í þessum efnum. Að þessu sinni eru það Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og  Stjörnufræðivefurinn sem hljóta viðurkenninguna.

Ögmundur Jónasson, Mannréttindaráðherra, flutti ávarp við upphaf viðburðar.

Ljósmyndir frá viðurkenningarafhendingunni er að finna neðst í þessari færslu.

 

Hope Knútsson, formaður Siðmenntar, flutti við þetta tækifæri eftirfarandi ræðu:

Húmanistaviðurkenning Siðmenntar 2011

Það er með mikilli ánægju að Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, veitir í dag, sjöunda árið í röð, húmanistaviðurkenningu Siðmenntar.

Ég vil byrja á því að segja ykkur í stuttu máli frá Siðmennt og fyrir hvað félagið stendur. Siðmennt er tuttugu og eins árs í ár og var formlega stofnað árið 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, er óháð trúarsetningum og það stendur fyrir félagslegum athöfnum. Frá 1988 hefur Siðmennt árlega haldið undirbúnings-námskeið og séð um borgaralegar fermingar. Síðan 2008 hefur Siðmennt einnig boðið uppá veraldlegar giftingar, nafngjafir og útfarir. Við teljum það mikilvægt að geta boðið uppá þessa valkosti og höfum við þjálfað athafnarstjóra til þess að annast þessar athafnir. Þá hefur félagið staðið fyrir umræðufundum um ýmis mál er tengjast siðrænum húmanisma. Hefur félagið meðal annars fjallað um trúarbragðakennslu, heimspeki í skólum, mannréttindi samkynhneigðra, um að taka dauðann í sátt, sorg og sorgarviðbrögð, um erlend félög siðrænna húmanista og margt fleira. Helsta baráttumál Siðmenntar í dag er ósk félagsins um jafna stöðu allra trúarbragða og lífsskoðunarfélaga sem m.a. hefur í för með sér aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi og að Siðmennt öðlist sömu lagalega stöðu og önnur lífsskoðunarfélög.

Siðmennt ákvað árið 2005 að veita árlega sérstaka húmanistaviðurkenningu. Það ár hlutu Samtökin ‘78 viðurkenninguna, árið 2006 Ragnar Aðalsteinsson, árið 2007 Tatjana Latinovic, árið 2008 Rauði Kross Íslands, árið 2009 Alþjóðahús og í fyrra veitti Hörður Torfason henni viðtöku.

Einstaklingar, félagasamtök eða aðrir sem hafa lagt talsvert af mörkum í þágu mannréttinda á Íslandi eiga möguleika á að hljóta viðurkenninguna.

Stefna húmanismans birtist m.a. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna, en í stefnuskrá Siðmenntar segir m.a.:

Siðmennt reynir að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.

Sá sem hlýtur húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2011 er Páll Óskar Hjálmtýsson. Eftir ýfirlýsingu Páls Óskars á Gay Pride deginum í ágúst tók stjórn Siðmenntar ákvörðun um að heiðra hann með þessum hætti. Einn stjórnarmaður Siðmenntar, Kristinn Theódórsson orðaði þetta svona: Við viljum veita honum viðurkenningu fyrir að hafa árum saman verið áberandi talsmaður þess að fólk eigi fá að vera eins og það er. Að fjölbreytni sé góð, að traðka eigi yfir napurlega fordóma á dansskónum með bros á vör, í stað þess að taka fram hermannastígvélin og stappa í reiði. Hann er fyrirmynd jákvæðrar mannréttindabaráttu sem fer fram á götunum en ekki í réttarkerfinu eða á blogginu. Hann er táknmynd þess meðbyrs sem gay pride gangan nýtur á Íslandi í dag. Hann er fyrirmyndar mannréttindabaráttumaður – án þess að allir eigi að vera eins og hann. Hann er lifandi íkon þess að hægt sé að verða svo vinsæll með jákvæðni og sköpunargleði að fordómar gegn kynhneigð hans hafa horfið í skugga velgengninnar og þannig rutt veginn fyrir aðra til að gera hið sama.

Að okkar mati samrýmist starf Páll Óskars hugmyndum húmanismans eins og lýst hefur verið hér í upphafi. Það er mér því mikil ánægja að veita Palla Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar árið 2011 fyrir einstakt og óeigingjarnt starf í þágu mannréttinda á Íslandi. Húmanistaviðurkenning Siðmenntar er táknræns eðlis og samanstendur af viðurkenningarskjali og hógværri gjöf sem er listaverk eftir Elísabetu Ásberg og heitir “Flæði”.

Ég óska elsku Palla til hamingju!

Fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar 2011

Í dag mun Siðmennt einnig veita Fræðslu-og vísindaviðurkenningu félagsins fyrir mikilvægt framlag í þágu fræðslu á Íslandi. Þetta er í fjórða sinn sem Siðmennt veitir þessa viðurkenningu. Fyrrum handhafar þessar viðurkenningar eru Pétur Tyrfingsson sálfræðingur árið 2008, Orri Harðarson rithöfundur og tónlistarmaður árið 2009 og Ari Trausti Guðmundsson rithöfundur og jarðvísindamaður í fyrra.

Ég vil byrja á því að segja hvers vegna Siðmennt lætur sig varða fræðslumál og upplýsta umræðu á Íslandi. Eitt af þremur meginviðfangsefnum félagsins er þekkingarfræði, sem er ein af undirgreinum heimspekinnar rétt eins og siðfræðin. Innan húmanismans er fjallað um eðli og uppsprettu þekkingar og skyld hugtök eins og skynjun, huglægni, hlutlægni, raunhyggju, rökhyggju og afstæðishyggju.

Í stefnu félagsins segir:

Siðmennt telur að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi. Þróun siðferðis þarf að vaxa jöfnum skrefum með þróun vísinda og þau þarf að nota til uppbyggingar, en ekki niðurrifs og eyðileggingar. Húmanisminn tekur mið af því að áreiðanleg þekking um okkur sjálf og heiminn verði til við stöðugt ferli athugunar, rannsóknar og endurskoðunar. Vísindin gefa okkur aðferðir og tæki, en mannleg siðferðisgildi verða að vísa leiðina.

Siðmennt hvetur til gagnrýnnar hugsunar og telur að nýjar hugmyndir eigi að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti eigi að vantreysta þeim.

Tveir aðilar sem hafa starfað mikið saman, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn hafa lagt fram ótrúlega mikinn kraft og mikla hugsjón í þágu vísinda og þekkingar í íslensku samfélagi. Stjörnuskoðunarfélagið er 35 ára gamalt í ár. Félagið hefur aflað fjár til að kaupa og dreifa 300 sjónaukum til rúmlega 220 grunn-og framhaldsskóla ásamt heimildarmynd sem heitir “Eyes on the Skies” framleitt af European Space Agency, the European Southern Observatory og the International Astronomical Union. Ennfremur gerðu félagsmenn Stjörnuskoðunarfélagsins þýðingartexta fyrir myndina og heimsóttu rúmlega 150 skóla um allt land. Félagið bauð upp á námskeið fyrir kennara um notkun sjónauka og ráð um hvernig væri hægt að gera kennslu í stjörnufræði spennandi. Fyrir tveimur árum síðan hélt félagið ljósmyndasýningu undir berum himni á Skólavörðuholtinu með 26 stórar hrífandi myndir af alheiminum. Stóð sýningin yfir í 5 vikur. Mér finnst þetta framtak virkilega magnað!

Fyrir þetta stórkostlega framlag til fræðslu almennings á Íslandi vill stjórn Siðmenntar veita Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og Stjörnufræðivefnum Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar fyrir árið 2011.

Við búum í samfélagi vísinda og tækni en samtímis búum við í samfélagi þar sem ríkir því miður mikil fáfræði og töluvert áhugaleysi um vísindi. Það vantar sárlega fleiri vísinda- og tæknimenntað fólk á Íslandi, en til þess þarf að vekja áhuga fólks á vísindum. Þetta er lykilatriði. Stjörnskoðunarfélagið og Stjörnufræðivefurinn standa sig prýðilega í þessu samhengi.

Mín er ánægjan að afhenda formanni Stjörnuskoðunarfélagsins og ritstjóra Stjörnufræðivefsins Sævari Helga Bragasyni fræðslu-og vísindaviðurkenningu Siðmenntar 2011. Félagið fær viðurkenningarskjal og Siðmennt hefur gefið formanninum flugmiða til Íslands til að geta tekið á móti viðurkenningunni fyrir hönd félagsins og til að vera með okkur í dag til að gleðjast saman.

Til hamingju stjörnuskoðunarmenn!

Ljósmyndir frá viðburðinum – Kristinn Theódórsson myndaði:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til baka í yfirlit