Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Húmanistaviðurkenning Siðmenntar 2008

Í dag fimmtudaginn 30. október var afhent hin árlega Húmanistaviðurkenning Siðmenntar. Viðburðurinn fór fram á Kaffi Reykjavík. Handhafi viðurkenningarinnar árið 2008 var Rauði kross Íslands sem hefur sinnt mannúaðarstarfi í áratugi bæði hér heima og erlendis.

Í ár var auk húmanistaviðurkenningarinnar úthlutað í nýjum flokki viðurkenningar sem hefur fengið heitið Fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar. Eitt af meginviðfangsefnum félagsins er afstaða þess til þekkingarfræði og stuðningur við vísindalega þekkingarleit og fræðslu. Það var því við hæfi að veita viðurkenningu þeim aðila sem félaginu þykir hafa fært þjóðinni mikilvægt framlag í þessum efnum. Sá sem þau hlaut var Pétur Tyrfingsson, sálfræðingur.

 

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hefur frá árinu 2005 veitt árlega húmanistaviðurkenningu félagsins.  Eftirtaldir aðilar hafa fengið viðurkenninguna hingað til:  Samtökin 78, Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og Tatjana Latinovic, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna.  Einstaklingar, félagasamtök og aðrir sem hafa lagt eitthvað mikilvægt af mörkum í anda húmanismans eiga möguleika á að hljóta hana.  Eðli og markmið húmanismans birtast m.a. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna, en í stefnuskrá Siðmenntar segir:

Siðmennt reynir að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.

Nánari fréttir af viðurburðinum verða birtar innan skamms

Til baka í yfirlit