Siðmennt hefur um árabil veitt félögum, einstaklingum og stofnunum viðurkenningar fyrir störf í anda húmanískra gilda. Að þessu sinni hlaut Hinsegin félagsmiðstöðin, sem er samstarfsverkefni Tjarnarinnar og Samtakanna '78, húmanistaviðurkenningu Siðmenntar fyrir sína starfsemi, sem snýr að því að skapa öruggan vettvang fyrir hinsegin ungmenni til að stunda félagslíf á meðal jafningja. Starfsemin hefur vaxið með ógnarhraða og greinilegt að mikil þörf er fyrir framboð á slíkri félagsmiðstöð.
Fræðslu- og vísindaviðurkenninguna hlaut svo Bergið Headspace, sem er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri. Markmið Bergsins er að bjóða upp á lágþröskuldaþjónustu með áherslu á stuðning, fræðslu og ráðgjöf fyrir ungt fólk á forsendum ungs fólks. Hvorri viðurkenningu fylgir 100.000 króna styrkur til starfseminnar
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78 veitti viðurkenningu Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar viðtöku. Á efri myndinni eru þær Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, og Sigurþóra Bergsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Bergsins.