Stærsti frumkvöðull mótmælendakristni, Marteinn Lúter (1483-1546) var í senn táknrænn afkomandi húmanismans og skýlaus andstæðingur hans eftir að hafði fært kenningar sínar í fastmótað form um 1524. Það var efinn og lærdómurinn sem fékk Lúter til að snúast gegn kaþólsku kirkjunni 1517 en það var óttinn við róttækni og samfélagslegt umrót sem gerðu lúterskuna að umburðalausri furstakirkju sem var mótfallin trúfrelsi og afneitaði frjálsum vilja mannsins.
Siðaskiptin á fyrri hluta 16. aldar ollu því auknu umburðarleysi í garð húmanískrar lífssýnar jafnt meðal kaþólskra og mótmælenda þegar leið á öldina, myrkur þetta var óbreytt á 17. öld. Samhliða þessu varð sú kristna hefð, að brenna fólk fyrir galdra, voldugri en nokkru sinni fyrr og síðar. Það var fyrst á seinni hluta 18. aldar sem húmanísk lífssýn fór aftur að koma opinberlega á dagskrá og þá í formi rationalisma, skynsemisstefnunnar.
Það þarf varla að útskýra það með mörgum orðum að efasemdir um guðlega tilvist er rökrétt niðurstaða í húmanískri lífssýn. Kenningunni um „yfirnáttúruleg“ öfl er hafnað, maðurinn einn er ábyrgur fyrir þessu eina lífi sínu. Guðleysi var hins vegar ekki á dagskrá opinberlega í húmanisma 15. og 16. alda enda hefði opinber viðurkenning á því í þá daga verið öruggur aðgöngmiði að bálkestinum í gjörvallri kristninni. Á 18. öld mótaði hræðslan við bálköstinn ekki lengur skoðanir manna í fjölda landa, t.d. Frakklandi. Einstakir húmanistar komu fram í dagsljósið og afneituðu tilvist guðdómsins. Þeim hefur óneitanlega fjölgað mikið síðan, bæði á 19. og 20. öld; tengsl má finna milli aukins guðleysis og framsóknar bæði vísinda og alls kyns lífsspeki, en hvort tveggja má einnig á rekja til húmanismans eins og áður hefur verið vikið að.
En rationalisminn blandaðist einnig kristnum kirkjum á margbreytilegan hátt. Í sumum tilfellum jók hann fyrst og fremst skynsemi í starfi kirknanna án þess að trúarkenningum væri breytt að ráði, svo og viðurkenningu kirknanna á vísindum og breytingum yfirleitt, þetta átti t.d. við Norðurlönd. En í öðrum löndum urði áhrifin djúpstæðari og farið var á grundvelli biblíugagnrýni að draga ýmsar kenningar hefðbundinnar kristni í efa eins og um meyfæðinguna, fórnardauða Krists og þar með þrenninguna. Rationalisminn tengdi þannig únitarisma 16. aldar, sem hafði lifað í skugga hér og þar, við frjálskyndustu trúarbrögð nútímans. (Únitarismi = trú á einhvers konar æðri mátt, guðlegu eðli Jesúm er afneitað, biblían er aðeins mannana verk). Margir íslenskir Vesturfarar urðu únitarar og boðuðu síðan skoðanir síðan á Íslandi.
Meðal prestastéttarinnar íslensku breiddist út frjálslynd guðfræði sem mest átti rætur að rekja til þýsks háskóla. Þannig að úr únitarisma meðal alþýðunnar óx ekki ný kirkja heldur frjálslynd „lúterska“. Segja má að hún móti enn þá trúarvitund meira en helmings Íslendinga, að vísu er hún oft blönduð andatrú.
Þverstæðan er að þetta frjálslyndi hefur unnið ekki aðeins gegn lúterskum réttrúnaði heldur einnig guðleysi hér á landi. En viss þróun meðal þjóðkirkjupresta er sennilega að stuðla að breytingum í þessum efnum. Hjá biskupum og guðfræðiprófessorum hefur markvisst verið unnið gegn trúarlegu frjálslyndi í hálfa öld. Reynt er að skerpa sem mest andstæður milli trúar og trúleysis en í leiðinni eru yfirvöld óbeint verið að ráðast á trúarlegt frjálslyndi sem enn þá ríkir meðal meirihluta sóknarbarnanna. Samtímis sjá vongóðir guðleysingjar hér á landi ný tækifæri til sóknar, allt í nafni húmanismans.
Gísli Gunnarsson
prófessor í sagnfræði
(24 Stundir 2008)