Eftirfarandi erindi flutti Eyja Margrét Brynjarsdóttir, heimspekingur, á samverustund Siðmenntar á Hótel Borg, föstudaginn 1. október. Tilefnið var setning Alþingis og bauð Siðmennt þingmönnum upp á það val að mæta til veraldlegrar samverustundar í stað messu í Dómkirkjunni.
Af vandaðri hugsun
Í bók sinni Thinking to some purpose eða Hugsun að einhverju gagni sem kom út árið 1939 veitir breski heimspekingurinn Susan Stebbing leiðsögn um skýra og vandaða hugsun, en í þeim efnum þótti henni ýmislegt betur mega fara í bresku samfélagi. Hún skrifar:
Það er knýjandi þörf nú á dögum fyrir borgara í lýðræðisríki að hugsa vel. Prentfrelsi og frelsi þingsins nægja ekki. Vandi okkar stafar að hluta til af okkar eigin heimsku, að hluta til af hagnýtingu þessarar heimsku og að hluta til af okkar eigin fordómum og persónulegu löngunum.
Í bókinni kemur Stebbing inn á ýmis atriði er varða góða hugsun en meðal annars kynnir hún til sögunnar það sem hún kallar potted thinking, eða hugsanir á dósum. Um þær segir hún:
…fáar sannar staðhæfingar um flókið ástand er hægt að túlka með einni setningu….Við föllum auðveldlega í þá gryfju að samþykkja samþjappaðar staðhæfingar sem spara okkur fyrirhöfnina við að hugsa.
Þessum samþjöppuðu, og þar með ófullkomnu, staðhæfingum líkir Stebbing við dósakjöt sem hefur verið soðið niður og þar með tapað ýmsum mikilvægum næringarefnum. Dósakjötið getur vissulega haft sína kosti, verið þægilegt í notkun og auðvelt að grípa til þess, en það hefur ekki sama næringargildi og ferskt kjöt. Þar að auki er lykilatriði að dósakjötið, eigi það að vera brúklegt, sé unnið úr raunverulegu fersku kjöti. Hið sama gildir um hugsanir á dósum: þótt það geti stundum verið ástæða til að stytta sér leið í hugsun og einfalda hlutina þá þurfa slíkar hugsanir að eiga uppruna sinn í almennilegum hugsunum sem hugsaðar hafa verið til enda.
Hvers vegna er ég að tala um þetta? Jú, ég held nefnilega að hinn rúmlega 70 ára gamli boðskapur Stebbing eigi fullt erindi við okkur í dag. Ég fæ ekki betur séð en dósahugsanir á borð við þær sem Stebbing lýsir sé að finna út um allt hér og nú. Við tileinkum okkur alls konar slagorð og frasa og byggjum skoðanir okkar á hinum ýmsu mikilvægu málum á þeim og engu öðru. Eins og Stebbing bendir líka á geta slagorð verið gagnleg í ákveðnum tilvikum, t.d. í því skyni að vekja athygli á einhverjum málstað, en þegar skoðanamyndun er byggð á slagorðunum einum saman án þess að kafað sé dýpra skortir nú eitthvað á hugsunina. Það eru ýmsir sem sjá sér hag í því að við hugsum ekki of mikið eða djúpt, að hegðun okkar sé frekar byggð á dósahugsunum sem að okkur eru réttar og sem við gagnrýnum aldrei. Þar koma líklega til tveir áhrifaþættir: peningar og völd. Þeir sem ásælast peningana okkar vilja hafa áhrif á hegðun okkar þannig að við kaupum það sem þeir hafa til sölu og ýmsar stofnanir sem ásælast völd vilja hafa áhrif á hegðun okkar svo að við höldum okkur á mottunni og séum ekki fyrir þeim og auðvitað geta þessir áhrifaþættir svo fléttast saman. Þar sem hrein valdbeiting þykir ekki við hæfi í lýðræðisríki þykir vænlegra að stýra okkur gegnum hugsanir okkar heldur en að berja bókstaflega á okkur. Og við erum upp til hópa stillt og prúð, alla vega svona oftast, tökum við okkar dósum og gerum eins og fyrir okkur er lagt.
Að einhverju leyti er mannlegri félagsþörf þarna um að kenna. Við viljum, alla vega langflest, búa í samfélagi með öðrum manneskjum og til þess þarf okkur að lynda sæmilega vel við þær. En hræðslan við vanþóknun annarra getur gengið helst til langt og þá fáum við það sem kallað hefur verið hjarðhugsun, þegar við hættum alveg að hugsa sjálfstætt og fylgjum bara hugsun fjöldans, eða því sem við teljum vera hugsun fjöldans. Við fylgjum þá því sem okkur er sagt af ótta við útskúfun eða í það minnsta óvinsældir. En fleira kemur til. Oft fylgjum við fjöldanum vegna þess að við treystum ekki á eigin dómgreind, lítum svo á að fjöldinn hljóti að hafa rétt fyrir sér og teljum því ástæðulaust að fara að gera athugasemdir við það. Eða kannski viljum við bara halda friðinn. Annað fyrirbæri sem er svo tengt vantrausti á eigin dómgreind er leti. Traustri dómgreind þarf að fylgja þekking á málefnunum og til að öðlast hana þarf að gefa sér tíma til að kynna sér málin og ekki síður til að velta þeim fyrir sér, hugsa um þau. Stundum nennum við því hreinlega ekki.
Andleg leti og hvatar til hjarðhugsunar hafa gagnverkandi áhrif hvert á annað. Við nennum ekki að setja okkur almennilega inn í málin, höfum fyrir vikið ekkert vit á umræðuefninu, látum eiga sig að mynda okkur sjálfstæða skoðun og tökum bara undir með fjöldanum. Og á hinn bóginn hlýtur það að vera þannig að ef við erum hrædd við að setja fram sjálfstæðar skoðanir, eða jafnvel treystum okkur ekki til að mynda þær, þá venjum við okkur ekki á að ígrunda hlutina heldur temjum okkur að láta bara mata okkur, líðum bara áfram í letivímu.
Hvert er ég svo að fara með þessu þusi? Mergurinn málsins er sá að sem þátttakendur í lýðræðissamfélagi verðum við að taka ábyrgð á eigin hugsun. Til að hægt sé að halda uppi lýðræði sem eitthvað er að marka er nauðsynlegt að þegnarnir séu upplýstir og hreinlega vandi sig við að hugsa.
Enski heimspekingurinn Mary Wollstonecraft, sem var uppi fyrir rúmum 200 árum, tengdi saman skynsemi og siðferði á eftirminnilegan hátt. Kenning hennar felur í sér heildstætt kerfi þar sem samþætting skynsemi og tilfinninga tengist lýðræðishugsjóninni með viðkomu hjá hugmyndum um sjálfstæði, skynsemi og dygð. Wollstonecraft heldur því fram að skynsemin hljóti að vera nauðsynlegur grundvöllur dygðar og segir það skrípaleik að kalla veru dygðuga ef dygðir hennar eru ekki afurð hennar eigin skynsemi. Til að athafnir okkar geti verið frjálsar og dygðugar þurfi að byggja þær á skynsamlegum ályktunum en ekki að fylgja handahófskenndu valdi annarra. Af þessum sökum fordæmir hún herþjálfun og heraga sem hún telur ósamrýmanleg frelsinu en hún er þó fyrst og fremst að gagnrýna hugmyndir sem uppi voru á hennar tímum um að konan ætti að reiða sig á skynsemi karlsins í siðferðismálum. Þessi gagnrýni á samt við um allar hugmyndir um utanaðkomandi kennivald: Siðferðisvera þarf alltaf að nota eigin skynsemi sem grunn siðferðis síns, gagnrýnislaus hlýðni við skynsemi annarra er ekki raunveruleg dygð.
Hvort uppskrift Wollstonecraft að velstilltum og heilsteyptum einstaklingum er nákvæmlega rétt skal ég ekki segja en ég er alveg sannfærð um það að hún hafi haft rétt fyrir sér í því að siðferði án skynsemi sé harla þunnur þrettándi. Ábyrg siðferðisvera tekur ekki gagnrýnislaust við reglum sem henni eru færðar heldur íhugar hún stöðu sína í heiminum og veltir fyrir sér hvers vegna tilteknar athafnir séu, eða séu ekki, réttmætar. Niðurstaðan er sú að við megum ekki láta aðra um að hugsa fyrir okkur. Það er ekki til það hugmyndakerfi, reglukerfi eða kennivald sem fríar okkur ábyrgðinni á eigin hugsun.
–
Tengt efni:
- Fréttatilkynning: Siðmennt býður upp á veraldlegan valkost í hugvekju fyrir þingsetningu
- Umfjöllun að samverustundinni lokinni: Heimspekileg hugvekja í stað messu
- Hugvekja flutt við þingsetningu 1. október 2009
- Hugvekja flutt við þingsetningu 15. maí 2009