Siðmennt úthlutaði árlegum viðurkenningum sínum fyrir árið 2017. Húmanistaviðurkenningin var veitt hópnum #höfumhátt sem vakti athygli á stöðu þolenda kynferðisofbeldis og fjölskyldna þeirra. Jóhann Björnsson, formaður Siðmenntar, sagði í ávarpi sínu við afhendinguna húmanistaviðurkenningarinnar:
„Sá hópur sem stendur að baki átakinu höfum hátt hefur unnið gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf. Starf þetta hefur ekki farið fram hjá neinum sem betur fer og hefur miðað að því að skila skömminni í kynferðisbrotamálum þangað sem hún á heima, vekja athygli á bágri stöðu fórnarlamba kynferðis-ofbeldis í samfélagi okkar og krefjast gagnsæis, heiðarleika og ábyrgðar af hendi ráðamanna. Þetta er átak sem gerir samfélag okkar manneskjulegra og betra.“
Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar hlaut Ástráður – kynfræðslufélag læknanema fyrir ötult og óþrjótandi starf við mikilvægt kynningarstarf. Jóhann sagði læknanemana hafa í mörg ár unnið óeigingjarnt starf við að fræða ungt fólk á grunn- og framhaldsskólaaldri um kynheilbrigði.
Í stefnu Siðmenntar er lögð áhersla á að yfirstíga beri skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.