Nú blásum við til húmanískrar Þjóðhátíðar um Verslunamannahelgina! Húmanistar frá öllum heimshornum flykkjast til Kaupmannahafnar þann 3.-6. ágúst 2023, til að taka þátt í heimsþingi húmanista, en Siðmennt er einn af gestgjöfum þingsins í ár.
Heimþingið, World Humanist Congress 2023, er vettvangur fyrir húmanista frá öllum löndum til að koma saman og ræða saman um mannréttindi, lýðræði og húmanisma, en þema þingsins í ár er: Building better democracies through humanist values.
Hvort sem þú ert athafnastjóri, fermingarfræðari, sjálfboðaliði eða almennur félagi í Siðmennt, þá er þér velkomið að slást í íslenska fararhópinn.
Komdu með til Köben!
Siðmennt styrkir nokkra þátttakendur um flug og ráðstefnugjald en gisting er á eigin vegum. Í ráðstefnugjaldinu er innifalið hádegisverður í 3 daga, te, kaffi og léttar veitingar yfir daginn. Ef þú hefur hug á að sækja Heimsþing húmanista í Kaupmannahöfn 3.-6. ágúst og óskar eftir þátttökustyrk frá Siðmennt, þá biðjum við þig um að fylla inn í þetta form fyrir 1. mars 2023.
Stjórn Siðmenntar áskilur sér að velja úr umsóknum, byggt á virkni í félagsstarfi, en öllum er heimilt að sækja um; eina skilyrðið er að vera félagi í Siðmennt, annað hvort með skráningu hjá Þjóðskrá, eða á vef félagsins.
Spennandi dagskrá
Heimsþingið sjálft stendur frá 4.-6. ágúst og á dagskrá eru spennandi erindi sem varða húmanisma og lýðræði. Þá er sérstakur forþingsdagur þann 3. ágúst, þar sem faghúmanistar geta sótt fjölbreytta þjálfun. Nánari upplýsingar um dagskrána og þingið er að finna á www.whc2023.com