Heimsendaangi kristinnar trúar hefur verið mér hugleikinn undanfarin misseri, eða allt frá því ég las bókina Jesus: Apocalyptic Prophet for a New Millenium eftir hinn kunna bandaríska biblíusérfræðing Bart D. Ehrman (1999). Túlkun Ehrmans á boðskap Jesú, eins og hann birtist í guðspjöllunum, felur í sér að Jesús hafi verið heimsendaspámaður og að skoða beri siðaboðskap hans í því ljósi. Hér er ekki um einkaskoðun Ehrmans að ræða því undanfarin hundrað ár hefur þetta verið sú mynd af Jesú sem stór hluti fræðimanna hefur aðhyllst, „að minnsta kosti í Þýskalandi og Bandaríkjunum“. Þó heimsendaboðskapurinn virðist nú um stundir ekki njóta almennrar hylli meðal kristinna Vestur-Evrópubúa, tekur þessi boðskapur á sig fordómafulla mynd og lifir góðu lífi í Bandaríkjunum þar sem hann vex nú og dafnar sem aldrei fyrir. Hér á eftir hyggst ég gera grein fyrir pólitískum áhrifum kristinnar heimsendatrúar á vestræna menningu og hvort mögulegt sé að kveða niður þennan skæða óvin lýðræðis og skoðanafrelsis.
Nýlega las sr. Bolli P. Bollason yfir söfnuði sínum: „Já, Jesús kemur fyrr en varir á skýi og mun dæma lifendur og dauða eins og við kristið fólk höfum játað og játum enn“. Bolli lét þessi orð falla í prédikuninni „Lausn yðar er í nánd“, sem hýst er á tru.is, og bætti svo við að þá verður „ekki einvörðungu um að ræða friðsama birtingu jólabarnsins“. Þessi dökki angi kristinnar trúar var mjög áhrifamikill innan frumkristninnar en eins og stjórnmálafræðingurinn John Gray (2007) benti nýverið á hefur kirkjan allt frá dögum Ágústínusar (354-430) reynt að draga úr áhrifum heimsendavonarinnar sem litaði heimsmynd Jesú og lærisveina hans. Þrátt fyrir þessar tilraunir var skaðinn skeður því kristin heimsslitafræði (eschatology) hafði skotið varanlegum rótum í vestrænni menningu. Sem dæmi nefnir Gray að á tímabilinu frá elleftu til sextándu aldar spruttu upp heimsendahreyfingar í Englandi, Frakklandi, Spáni, Þýskalandi og víðar um Evrópu. Einn af kunnustu talsmönnum heimsslitafræðanna á þessu tímabili var Jóakim frá Flóra (1132-1202), sem sneri kristnu hugmyndinni um heilaga þrenningu í söguspeki þar sem mannkyn reis upp í gegnum þrjú stig.
Fyrsta stigið í söguspeki Jóakims nefndist öld föðurins og var Abraham leiðtogi þess. Í kjölfar þess fylgdi öld sonarins, sem leidd var af Jesú. Þriðja tímabilið nefndist öld andans og átti leiðtogi „þriðju aldarinnar“ að tryggja allsherjar bræðralag þar til á Dómsdegi, sem Jóakim taldi renna upp 1260. Í framhaldi af þessu bendir Gray á að þrenningarsöguspeki Jóakims hafi átti þátt í að endurvekja heimsslitaákefðina innan kristninnar og birtist hún endurtekið á næstu öldum í skrifum og gjörðum kristinna hugsuða, en kunnastur þeirra var líklega Thomas Müntzer (1489-1525). Heimsendainnblásin söguspeki Jóakims hafði einnig mikil áhrif á veraldlega hugsuði. Nægir þar að nefna Georg W. F. Hegel (1770-1831) og þrískiptingu hans á þróun mannsandans, kenningu Karls Marx (1818-1883) um för samfélagsins í gegnum lénsskipulag, kapítalisma og að endingu í kommúnisma, og þá skoðun Augusts Comtes (1798-1857) að mannleg hugsun þróist frá trúarlegu stigi upp á hið frumspekilega og endi á vísindalega stiginu. Með þessari sögulegu markhyggju áttu Hegel, Marx, Comte og sporgöngumenn þeirra sameiginlegt að boða veraldlega útópíu, sem sagnfræðingurinn Mark Lilla (2007) kallar umsnúna sæluríkistrú (inverted messianism), sem grundvallast á flutningi „fyrirheitatáknmáls Biblíunnar yfir á framrás sögunnar“. Umsnúna sæluríkistrúin litaði einnig hugmyndaheim franskra trúleysingja í kringum aldamótin 1900 (Hecht, 2003). En það sem Gray telur mest sláandi við not veraldlegra hugsuða á hugmyndum Jóakims er að spádómur hans um þriðju öldina lá til grundvallar nafngift þýskra nasista á Þriðja ríkinu (fyrstu tvö ríkin voru hið heilaga rómverska keisaradæmi sem leið undir lok 1806 og svo sameinaða Þýska keisaradæmið 1871-1918). Hugmyndina sóttu nasistarnir til bókarinnar Das Dritte Reich eftir Arthur Moeller van den Bruck (1876-1925), sem út kom árið 1923. Hitler þekkti vel til þessarar bókar enda fannst áritað eintak af henni í neðanjarðarbyrgi hans.
Lilla tekur undir málflutning Grays. Hann rekur heimsslitaáhugann á millistríðsárunum í Þýskalandi m.a. til hins kunna þýska guðfræðings Karls Barth (1886-1968). Í annarri útgáfu bókarinnar Der Römerbrief, frá árinu 1922, hélt Barth því fram að ef kristin trú endurspeglaði ekki heimsslitahugsunina sé hún ekki í neinu sambandi við Krist. Þó Barth hafi sjálfur ekki stutt valdatöku nasista notuðu aðrir þýskir guðfræðingar hugmyndir Barths til þess að réttlæta hana. Barth bauð hættunni heim með orðfærinu sem hann beitti í bókinni, því eins og Lilla bendir á „getur heimsslitatal af sér heimsslitastjórnmál, og skiptir þá engu máli hvaða takmörk guðfræðingar reyna að setja á slíkar hugmyndir“. Áhrifa kristinnar heimsendatrúar gætti ekki bara í stjórnmálahugsun nasista því Gray telur að flestar stjórnmálahugmyndir síðustu tvöhundruð ára, s.s. kommúnismi og ný-íhaldssemi, hafi á einn eða annan hátt verið miðlar mýtunnar um hjálpræði í gegnum söguna, „sem er vafasamasta gjöf kristninnar til mannkyns“. Ólíkt trúarlegum forvera sínum fela veraldlegar túlkanir á söguspeki Jóakims hins vegar í sér að þriðja öldin raungerist einungis í gegnum mannlegar athafnir, en líkt og búast má við á dómsdegi kristinna manna hefur draumunum um veraldlegu útópíurnar fylgt gríðarlegt ofbeldi og mannfórnir. Ekki er þó hægt að kenna áhrifum kristinnar heimsendatrúar alfarið um hörmungar 20. aldarinnar, ekki frekar en áhrifum Upplýsingarinnar (Gordon, 2001; Reill, 2005) og fósturbarna hennar, trúleysi og þróunarkenningunni (Hecht, 2003; Richards, 2008), eins og stundum heyrist. Orsakasamhengi sögunnar er miklu flóknara en svo að hægt sé að réttlæta slíkar einfaldanir.
Nú ætti flestum að vera ljóst að Biblían felur ekki einungis í sér ást, kærleika og réttlæti, eins og orð sr. Bolla í áðurnefndri prédikun eru gott dæmi um. Guðspjöllin fela einnig í sér „sláandi“ dimman boðskap, um alheimsbaráttu yfirnáttúrulegra afla, sem í gegnum tíðina hefur verið notaður „til þess að réttlæta hatur og jafnvel fjöldamorð“ (Pagels, 1995. Sjá einnig Ehrman, 2008). Eftir stendur spurningin hvort okkur stafi enn ógn af kristinni heimsendatrú. Ef eitthvað er að marka nýlega bók bandaríska blaðamannsins og guðfræðingsins Chris Hedges (2006) er sú hætta enn raunverulega fyrir hendi. Rætur ógnarinnar liggja nú, að mati Hedges, í fasískum tilburðum talsmanna þeirra tæplega 50% Bandaríkjamanna sem trúa því að Jesús sé væntanlegur til jarðar á næstu áratugum með ófriði gegn þeim sem ekki trúa á hann. Slík stjórnmálaguðfræði endurspeglar að mati Lilla upprunalegu gerð stjórnmálahugsunar mannkyns. Því miður hefur henni vaxið svo ásmegin víða um heim undanfarin ár að í nýrri bók stjórnmálafræðingsins Elizabeth Shakman Hurd (2008) tekur hún undir með Lilla að heimsstjórnmálin í dag endurspegli að ýmsu leyti ástandið eins og það var í Evrópu í kjölfar siðaskiptanna.
Vandinn liggur hins vegar ekki bara hjá þeim sem aðhyllast heimsendainnblásna stjórnmálaguðfræði, því eins guðfræðingurinn Richard Fenn (2006) hefur bent á viðheldur heimsendaboðskapur trúarrita eins og Biblíunnar möguleikanum á hatri á náunganum og ofbeldi í nafni guðs. Kirkjan sem stofnun er því hluti af vandanum enda hefur hún, skv. Fenn, hafnað því í gegnum tíðina að vefengja þessa hluta Biblíunnar. Af þessum sökum kemst hann að þeirri niðurstöðu að með áframhaldandi þögn haldi kaþólska kirkjan og „hófsamar“ mótmælendakirkjur „áfram að réttlæta trú á endalokin sem tímabil þar sem ókristnum og heiðingjum hefur verið útrýmt“. Í anda þess sem Lilla segir hér að ofan bætir Fenn svo við að þögull stuðningur „við heimsslitaorðgjálfur geti fljótlega breyst í leynimakk um trúarlega innblásið þjóðarmorð“. Þessi skoðun tvímenninganna fékk vísindalegan stuðning á síðasta ári í niðurstöðum rannsóknar á 500 háskólastúdentum í Bandaríkjunum og Hollandi þar sem fram kom að óháð trúskoðunum þátttakendanna er marktækt samband er milli þess að lesa Biblíutexta þar sem guð fer fram á ofbeldi og aukinnar árásargirni (Bushman og fleiri, 2007). Í frétt tímaritsins Nature um rannsóknina kemur fram að fleiri vísindamenn hafa komist að svipaðri niðurstöðu. Það er því ekki hægt að horfa fram hjá ofbeldis- og haturshlutum Biblíunnar þegar rætt er um kristna trú því eins og haft er eftir guðfræðingnum Hector Avalos í fréttinni eru þeir einstaklingar eða trúarsöfnuðir sem „velja ofbeldistúlkunina jafn handahófskenndir og þeir sem velja þá friðsömu“ (Ledford 2007). Spurningin sem eftir stendur hlýtur því að vera: Er Þjóðkirkjan tilbúin að fara að ráðum Fenns og Avalos og fordæma opinberlega eða henda út þeim hlutum Biblíunnar sem ala á heimsendatrú og ofbeldi?
Heimildir
Bushman, Brad J., Robert D. Ridge, Enny Das, Colin W. Key, Gregory L. Busath (2007), „When God Sanctions Killing: Effect of Scriptural Violence on Aggression“, Psychological Science 18:204–207.
Ehrman, Bart D., 1999, Jesus: Apocalyptic Prophet for a New Millennium, New York: Oxford University Press.
Ehrman, Bart D., 2008, God’s Problem: How the Bible Fails to Answer Our Most Important Question – Why We Suffer, New York: HarperOne.
Fenn, Richard, 2006, Dreams of Glory: The Sources of Apocalyptic Terror, Burlington, VT: Ashgate Publishing Company.
Gordon, Daniel, 2001, „On the Supposed Obsolescence of the French Enlightenment“, í Postmodernism and the Enlightenment: New Perspectives in Eighteenth-Century French History (Daniel Gordon ritstjóri), New York: Routledge, bls. 201-221.
Gray, John, 2007, Black Mass: Apocalyptic Religion and the Death of Utopia, London Allen Lane.
Hecht, Jennifer Micheal, 2003, The End of the Soul: Scientific Modernity, and Anthropology in France, New York: Columbia University Press.
Hedges, Chris, 2006, American Fascists: The Christian Right and the War on America, New York: Free Press.
Hurd, Elizabeth Shakman, 2008, The Politics of Secularism in International Relations, Princeton: Princeton University Press.
Ledford, Heidi, 2007, „Scriptural violence can foster aggression“, Nature 446: 114-115.
Lilla, Mark, 2007, The Stillborn God: Religion, Politics and the Modern West, New York: Alfred A. Knoff.
Pagels, Elaine, 1995, The Origin of Satan, New York: Vintage Books.
Reill, Peter Hanns, 2005, Vitalizing Nature in the Enlightenment, Berkeley: University of California Press.
Richards, Robert J., 2008, The Tragic Sense of Life: Ernst Haeckel and the Struggle over Evolutionary Thought, Chicago: The University of Chicago Press.
Lesbókin, 21. júní, 2008
Steindór J. Erlingsson