Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Gleðilegt nýtt ár! – Pistill frá formanni

Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, skrifaði eftirfarandi pistil inn á Siðmenntarspjallið á Facebook á dögunum:

Gleðilegt nýtt ár!

Hin raunverulegu áramót hjá Siðmennt, eins og öðrum lífsskoðunarfélögum, eru í raun í kringum 1. des, en félagsskráning sem grundföllur fyrir ríkisstyrk miðast við þá dagsetningu. Það er því ekki úr vegi að líta aðeins yfir farinn veg á árinu sem er að líða.

23% FJÖLGUN Á EINU ÁRI

Félagar (sem skráðir eru í gegnum Þjóðskrá) eru nú 3.472, en það er 23% fjölgun síðan í fyrra. Okkur fjölgar um 131 á milli síðustu tveggja mánuða. Fjölgun félaga myndar þrýsting á stjórnvöld um að skapa veraldlegra og réttlátara samfélag og eflir rekstrargrundvöll félagsins svo við getum haldið áfram að veita frammúrskarandi þjónustu, berjast fyrir veraldlegu samfélagi og trúfrelsi og þrýsta á stjórnvöld. Í Dóminóspizzumóki á stjórnarfundi í gær ákvað stjórn að stefna á 5.000 félaga fyrir lok afmælisárs, sem er háleitt markmið en vonandi raunhæft á tímabili þar sem afmælishátíðarhöld skapa athygli og samfélagsbreytingar eru örar. Ennfremur fjölgar athöfnum og fermingarbörnum ár frá ári og margir ganga í félagið á þeim tímamótum.

MIKIÐ VATN RUNNIÐ TIL SJÁVAR

Árið hefur svo sannarlega verið viðburðaríkt hjá Siðmennt. Við höfum haft fimm formenn, tvöfaldað starfsmannafjölda skrifstofunnar með ráðningu Heiðrúnar Örnu, verkefnastjóra borgaralegrar fermingar, haldið alþjóðlega ráðstefnu þar sem innlendir og erlendir sérfræðingar ræddu um helstu siðferðislegu álitamál samtímans og forseti Íslands tók til máls, verið gestgjafar og þátttakendur á aðalfundum heimssamtaka húmanista og evrópusamtakanna, boðið einni Star Trek stjörnu til Íslands, fengið einn af okkar ötulu athafnarstjórum, Björgu Magnúsdóttur, til að lesa yfir þingfulltrúum við þingsetningu, veitt nemendum Hagaskóla húmanistaverðlaunin og Sævari Helga fræðsluviðurkenningu og loks hafið þjálfun nýrra athafnarstjóra í útfararstýringu undir leiðsögn breskra og íslenskra þjálfara.

TAKIÐ FRÁ 15. FEBRÚAR

Árið sem er framundan verður vafalaust jafnviðburðaríkt, enda afmælisár félagsins og margt sem er á prjónunum. Ég bið ykkur að taka frá dagsetninguna 15. febrúar, en þá ætlum við að halda Siðmenntarþing með aðalfundi og árshátíð á þessum sjálfum afmælisdegi Siðmenntar. Þar mun fara fram stefnumótun, umræða um húmanisma og veraldlegt samfélag, auk hefðbundinna aðalfundarstarfa.

Inga Auðbjörg Straumland

Við viljum endilega fá sem flesta meðlimi félagsins til að taka þátt í starfi þess, og er Siðmenntarspjallið á Facebook ágætur byrjunareitur. Smelltu hér til að komast þangað!

Þá viljum við líka benda félögum á póstlistann okkar, en hér má smella til að skrá sig á hann.

Til baka í yfirlit