Hér má sjá upptökur frá fyrirlestrum Maryam Namazie á Íslandi dagana 5. og 6. september 2007. Koma hennar vakti mikla athygli og var vel undirbúið og rökfast mál hennar lofað. Salurinn í Odda var troðfullur og fékk hún mjög góðar undirtektir, m.a. frá Írönum búsettum á Íslandi sem hlýddu á.
Hvorum fyrrlestri er skipt í 3 hluta vegna of mikillar lengdar í heilu lagi.
Skýringar á nokkrum enskum orðum og hugtökum sem koma fyrir í ræðu hennar má sjá fyrir neðan.
M Namazie fjallar um blæjuna og kúgun kvenna undir Íslam
Fyrsti hluti
Annar hluti
Þriðji hluti
Maryam Namazie fjallar um fráhvarf trúar, Ráð Fyrrum-múslíma og hið pólitíska Íslam
Fyrsti hluti
Annar hluti
Þriðji hluti
Upptökur og klipping fyrir Siðmennt: Svanur Sigurbjörnsson
.
Religion – trúarbrögð, faith – trú
Life stance organization – lífsskoðunarfélag, þ.e. félag sem hefur ákveðnar stefnur í lífsskoðunum eins og hvað sé gott siðferði, hvernig heimsmyndin sé (útskýring á lífríkinu og stöðu jarðarinnar í alheiminum) og hvernig þekkingu sé best aflað (vísindalega eða með öðru móti), hvort yfirskilvitegar verur eða æðri verur / guðir / guð sé til og hvernig fagna eigi ýmsum áföngum í lífinu (nefning, ferming, gifting) og kveðja / minnast hinna látnu (útför). Lífsskoðunarfélögum má skipta í tvo megin flokka, annars vegar trúfélög og hins vegar veraldleg félög með sömu viðfangsefni. Siðmennt, félag siðrænna húmanista, er dæmi um hið síðar nefnda. Lífsskoðunarfélög eru ekki valdafélög eins og stjórnmálaflokkar en geta haft talsverð áhrif á lífssýn fólk hvað stjórnun og lagagerð varðar. Það er því talsverð skörun á sviði stjórnmálaflokka og lífsskoðunarfélaga.
Islam – Íslam, þ.e. annað hvort hin íslamska trú sem slík eða samheiti yfir öll þau landssvæði í heiminum þar sem íslömsk trú (múhameðstrú) er iðkuð. Á arabísku þýðir orðið „undirgefni“ eða alger hlýðni við Guð múhameðs spámanns. Fylgjendur Íslam eru kallaðir múslimar.
Islamist – Íslamisti, er komið af orðinu islamism eða íslamshyggja sem byggir á því að áhrifa Islam eigi ekki bara að gæta í trúarlífinu heldur einnig í pólitík og stjórnarfari íslamskra þjóða. Íslamistar eru þeir/þær því kallaðir sem fylgja slíku og vilja halda uppi trúarlögum Íslam í stað veraldlegra þingsettra laga. Lög Islam kallast sharia. Íran er dæmi um land þar sem sharia lög eru við lýði. Tyrkland hefur aftur haldið þeim að mestu frá.
Hijab, burka – arabísk orð yfir trúarklæði kvenna á meðal múslima. Burkan hylur allt nema augun. Veil – blæja eða hula.
Intimidation – það að draga kjark úr með hótunum eða ógnunum
Secularism / secularity – veraldarhyggja, þ.e. sú stefna að trúarbrögð og kirkjudeildir séu aðskilin frá hinu opinbera og hafi ekki pólitísk völd í þjóðfélögum. Sönn veraldarhyggja kveður á um að trúarleg starfsemi fari ekki fram í menntakerfinu, dómskerfinu, heilbrigðiskerfinu, lagakerfinu, þinghaldi og öllum opinberum rekstri.
secular – veraldlegur. Lýsingarorð yfir starfsemi, stofnanir, þjóðfélög, lífsskoðanir og aðra þá hluti sem eru ekki trúarlegir og byggja ekki á trú. Dæmi: secular funeral – veraldleg jarðarför. Secular socitey – veraldlegt þjóðfélag. Secular þjóðfélög eru ekki endilega án starfandi trúfélaga en eru alveg eða að mestu byggð á stjórnskipan og valdakerfi sem starfa óháð trúarbrögðum eða kirkjudeildum.
Transgression – brot gegn ríkjandi lögum.
misogynist religion/society – trúarbrögð eða þjóðfélög sem beita konur misrétti
Apologist – Afsakandi eða verjandi, þ.e. persóna sem heldur uppi vörnum fyrir stefnu, trú eða lífsskoðanir sem sæta mikilli gagnrýni. Orðið er jafnan notað af þeim sem heldur uppi gagnrýninni.
Atheist – Guðleysingi eða trúleysingi. Manneskja sem trúir ekki á tilvist æðri máttarvalds. Það er algengt á vesturlöndum að trúleysingjar séu einnig húmanistar en það fer ekki alltaf saman.
Humanist – húmanisti, manngildishyggjumaður, þ.e. persóna sem er trúleysingi en jafnframt fylgjandi lífsskoðunum sem byggja á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði. Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma. Maryam Namazie er húmanisti og virkur meðlimur í Breska húmanistafélaginu. Siðmennt er félag siðrænna húmanista á Íslandi. Hope Knútsson er formaður þess.
Cultural relativism – Menningarleg afstæðishyggja, eða moral relativism – siðferðisleg afstæðishyggja, þ.e. sú skoðun að siðferði fari eftir menningarheimum og að það sé afstætt hvað sé rétt eða rangt á hverjum stað. Fylgjendur þessarar stefnu eru oft á móti því að gagnrýna aðra menningarheima og segja að það sé t.d. ekki okkar í hinum vestræna heimi að skipta okkur af venjum og lífsmáta t.d. austurlandabúa. Það sé jafnvel ekki okkar að hafa nokkuð um það að segja hvernig menningarhópar í sérstökum hverfum hér hagi sínum málum, svo lengi sem það hafi ekki áhrif út fyrir þeirra raðir. Þessi stefna er oft kennd við svokallaðan póstmodernisma.
Universal values, universal rights, natural rights – algild siðferðisgildi eða réttindi um allan heim, eða náttúruleg réttindi allra manna. Þessi hugtök þróuðust í upplýsingunni og boðuðu að allt fólk óháð stétt eða stöðu ætti ákveðin réttindi. Afkvæmi þessa voru mannréttindin. Þessi stefna er ólík afstæðishyggjunni því hér er talið að allir eigi ákveðin grundvallarréttindi óháð menningu, þjóðerni eða trúarsamfélagi. Húmanistar (þ.á.m. Maryam Namazie) eru þessu fylgjandi.
Þetta eru mikilvægustu hugtökin en sjálfsagt má bæta eitthvað við. Vonandi kemur þetta einhverjum að gagni t.d. við lestur greina í The International Humanist News, en það er geysilega gott rit um baráttu húmanista um allan heim fyrir bættum mannréttindum og brotthvarfi hindurvitna. Í marsblaði 2006 eru margar greinar um Islam og í nýjasta blaðinu, ágúst 2007 er fullt af greinum um mannréttindamál kvenna, m.a. grein Maryam Namazie um blæjuna.
– SS