Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Forsendur trúleysis og siðræns húmanisma

Punktar byggðir á fyrirlestrum (1998)

1. Inngangur.

Nú í janúar 1998 flutti ég í tvígang fyrirlestra og hafði umræðustundir í Sálarrannsóknaskólanum svonefnda, þar sem Magnús H. Skarphéðinsson er aðalmaður. Var að mestu leyti um sinn hvorn hópinn að ræða. Átti ég þar að koma fram sem fulltrúi siðræns húmanisma, einkum varðandi „annað líf“, færa sem sagt fram rök þess manns sem ekki trúði á „líf eftir dauðann“. Mér var sérdeilis vel tekið og umræður voru mjög góður og gefandi fyrir flesta, held ég, þ.á.m. mig.

Ég lagði sérstaka áherslu á stöðu mína sem agnostíkers, trúleysingja, sem að vísu tryði ekki á yfirnáttúrulegan mátt en viðurkenndi samt fúslega að margt í þessum heimi væri enn þá óútskýrt. Sú væri hins vegar trú mín að öll væri veröldin einnar gerðar og skiptist ekki í efnisheim og andaheim. Margur ruglingur í þessum efnum gæti stafað af því að hvorki fræðimenn né guðspekingar fyrri alda hefðu skilið að efni gæti breyst í orku og öfugt. Ég sæi enga ástæðu til að draga í efa að ýmsir í áheyrendahóp mínum hefðu skynjað ýmislegt sem hvorki ég né fræðimenn nútímans gætu útskýrt með því sem við vissum núna því að margt væri enn .þá óútskýrt, en sannfæring mín væri hins vegar sú að hér væri um að ræða fyrirbæri sem tilheyrðu eina tilvistarheimininum sem ég tryði á, því lífi sem við lifðum.

Ég lagði áherslu á að hér væri um trú og sannfæringu mína að ræða sem væri í sjálfu sér ekkert „sannanlegri“ og því „réttari“ en trú eða sannfæring annarra. Slíka afstöðu yrði ég að hafa sem efahyggjumaður; engin sannfæring væri svo merkileg að hana mætti ekki ræða og þar með draga í efa. En grundvallarforsenda mín væri samt rökhyggja og skynsemi og ég legði allar hugmyndir á mælistiku hennar. Með því væri ég engan veginn að afneita innsæi, þ.e. „skilningi“ eða „skynjun“ sem við getum ekki hiklaust útskýrt með rökleiðslu; listir eru hér gott dæmi, eigi að síður væri það skylda okkar sem homo sapiens að beita skynsemi okkar og frjálsum vilja hvenær sem mögulegt er

Fyrirlestur minn var fluttur þannig að ég sýndi glærur þar sem meginefni máls míns kom fram; lagði ég síðan út af glærunum eða einfaldlega las efni þeirra. Jafnframt dreifði ég tveimur plöggum; annað var endurskoðuð útgáfa á fyrri skrifi mínu „Siðrænn húmanismi eins og ég skil hann“, sem birst hefur í Fréttabréfi Siðmenntar í fyrri útgáfu: hitt var „Stefnumið húmanismans: Yfirlýsing um gildismat og grundvallaratriði“ eftir Paul Kurtz, sem einnig hefur birst í Fréttabréfi Siðmenntar í þýðingu minni. Blandaði ég saman í fyrirlestrunum nýsömdu efni og efni úr tveimur fyrrgreindum heimildum.

Ég hef reynt að búa til grein fyrir Fréttabréfið sem byggist á þessum fyrirlestri en ég bið lesendur að taka tillit til margbreytilegrar fosendu hennar!

2. Gagnrýni á dulhyggju og tvíhyggju.

Hve mörg „tilverustig“ búum við við? Eitt eða tvö.eða þrjú eða fleiri.? Við stöndum raunar aðeins frammi fyrir tveimur valkostum: Er þetta líf sem við kifum allt eða eru tilverustigin fleiri en eitt. Rétt heiti á þessum valkostum eru Mónismi og Dúalismi.

Húmanismi er mónismi (einhyggja), þ.e. veröldin er aðeins eins eðlis og skiptist ekki í tvö eins og dúalismi (tvíhyggja) gerir ráð fyrir (skipting í „náttúrulegt“ og „yfirnáttúrulegt“). Mónismi og materíalismi (efnishyggja) eru efnislega náskyld hugtök, en sakir margvíslegrar misnotkunar á orðinu „materíalismi“ er ekki alltaf heppilegt að nota það.

Ég er húmanisti og því mónisti. Hvað eruð þið?

* Trúir þú á yfirnáttúrulegt afl? Þá ert þú dúalisti

* Trúir þú á ÆÐRI MÁTT? Þá ert þú dúalisti.

* Trúir þú á GUÐ? Þá ert þú dúalisti.

Samt er óneitanlega stigbreyting á þessu þrennu. Eða hvað? Allt grautur í sömu skál??

Ef þú trúir á æðri mátt, trúir þú á annað tilverustig?

Þetta fer oftast saman en ekki alltaf? Eða hvað?

Nú segjum við að þú trúir þú bæði á æðri mátt og annað tilverustig. Þá hefur þú tvo möguleika:

Þeir eru:

1. „Næsta líf er betra en núverandi líf“.

2. „Næsta líf“ getur bæði verið betra eða verra en núverandi líf.

Himnaríki eða helvíti.

Er e.t.v. einhver með þriðju óskina? Eða fjórðu, fimmtu ósk o.s.frv. Hreinsunareldur t.d. ? Eða endurholdgun?? En er siðlegt að vera stöðugt að gera næsta líf sem geðfelldast?

En svörum staðhæfingu eitt: „Næsta líf er betra en núverandi líf“ Er þá ekki eins gott að losna sem fyrst úr þessum táradal?

Veljið ykkur þá stjörnu Ü I H J K L M O P W R ` h j Z D C > o.fl.

En ef við segjum að næsta líf geti líka verið verra, þá höfum við bæði djöful og helvíti? Ekki satt?

Ef við höfum djöful og helvíti, hlýtur þá ekki djöfullinn alltaf að vera að lokka fólk til sín??

Sem sagt: Djöfullinn er stórvirkur að ná í þjóna, Ekki satt???

Hvar eru bálkestirnir til að útrýma samstarfsfólki djöfulsins????

 

Nú afneitum við hefðbundinni kristinni kenningu og trúum í staðinn á endurholgun.

 

Áður en lengra er haldið: Athugið vel að kristin kenning og kennningin um endurholgun fer ekki saman

En líkt og kristni gerir endurholgun ráð fyrir umbun eða refsingu fyrir framkomu okkar í þessu lífi

Ef þú hagar þér vel, fæðist þú sem æðri mannvera en þú ert nú.

Ef þú hagar þér illa, fæðist þú sem lágsett dýr.

En erum við sátt við þennan píramídaþanka um lífskeðjuna, um æðri og lægri lífsform, um lásett og hásett lífsform?

Og hvort á þessi þanki meir skylt við hin fornu og ríkjandi trúarbrögð Indverja, Hindúsimann, eða þróunarhyggju Charles Darwins á 19. öld, Darwinismann?

Er þessi kenning um píramída tilvistar og dýraríkis virðingarverð

1.Fyrir manninn?

2.Fyrir lífið allt?

 

3. Valkosturinn við dulhyggju: Siðrænn húmanismi.

H.J. Blackham, fremsti talsmaður siðrænna húmanista í Bretlandi í hálfa öld, taldi grundvöll húmanismans vera þessi (Humanism, bls. 13) „Man is on his own and this life is all“

Á íslensku útleggst þetta þannig:

* Maðurinn ber einn ábyrgð á lífi sínu (engin guðleg eða yfirnáttúruleg afskipti)

* Þetta líf sem við lifum núna er það eina sem við eigum. (Af því leiðir að við verðum að rækta það vel).

 

Oft er spurt: Er hægt að vera góður án þess að trúa á annað líf?

Þessa spurningu má orða öðru vísi: Getur maðurinn verið góður án þess að búast við umbun eða óttast refsingu?

Spurningin gerir í raun ráð fyrir frumstæðri eigingirni: Þú hagar þér ekki vel nema þú teljir að þú græðir á því.

Þessari hugsun afneita siðrænir húmanistar!

Rationalismi (skynsemisstefna) er mikilvæg forsenda húmanismans.

Í rationalismanum felst að við eigum ávallt að leita nýs sannleika með hjálp skynsemi og þarafleiðandi rökhugsunar.

Efahyggja er nátengd rationalismanum.

Það er augsýnilega ekki rétt að halda því fram að maðurinn komist yfirleitt aðeins að niðurstöðu með hjálp rökhugsunar!

Tilfinningar, innsæi og umframallt vani ráða e.t.v. mestu um daglega breytni okkar. Því ber okkur að nota rökhugsun sem mest, t.d. til að sjá hvaða tilfinningar, hvaða innsæi og hvaða vani nýtist okkur best!

Okkur ber að leggja áherslu á frjálsan vilja mannsins til að velja og hafna; samtímis því ber okkur að þroska getu okkar til að velja og hafna. Það er m.a. siðferði.

 

Þótt vissulega séu til ákveðin náttúrulögmál ber að varast að nýta þau við skilgreiningar á flóknum fyrirbærum mannlegs samfélags. Trú á löggengisstefnu í mannlegum samskiptum er náskyld guðstrú, var t.d helsta einkenni náttúruguðfræðinnar á 18. og 19. öld (þ.e. náttúran = guð).

Afneitun nauðhyggju skilur siðrænan húmanisma á síðari hluta 20. aldar greinilega frá margvíslegri vísindahyggju fyrri tíma. Við vitum meira nú, t.d. vitum við stöðugt meira um hlutverk tilviljana í „heimi raunvísinda“, og þá ekki síður í mannlegu samfélagi.

Aldrei vanmeta hlutverk huglægra þátta í samfélagsþróun. Að rækta gott siðferði er því sérstök nauðsyn.

Slíkt kemur ekki af sjálfu sér með breyttu samfélagi, til dæmis!

 

Hver og einn verður að rækta sinn eiginn garð.

Siðrænir húmanistar reyna að gera slíkt án guðstrúar. Slíkt er lífsskoðun okkar.

Menning (culture) er að sjálfsögðu það sem einkennir manninn frá öðrum dýrum.

Mikilvægustu þættir menningar felast í „consciousness, compassion, morality, language“, þ.e. vitund um stöðu sína, samúð með öðrum, siðferði, tungumál (í öllum flóknum myndum þess).

Með „vitund“ er að sjálfsögðu átt við þær gáfur sem einkenna manninn sérstaklega. Í biblíunni er þetta útskýrt sem skilningstré góðs og ills.

Siðrænir húmanistar hafa hins vegar annan skilning á eplatínslu þessa trés en gyðingdómur, Islam og kristnin boða:

* Við teljum að sem flestir eigi að tína epli af trénu þar sem það sé sannarlega engin synd að fólk kunni með eigin skynsemi að skilja milli góðs og ills.

* Við viljum ekki lúta einhverju skýlausu, fornu og óbreytanlegu lögmáli um hvað sé rétt og rangt.

* Við teljum ekki að fórnardauði tiltekins einstaklings frelsi okkur frá syndunum svo framarlega sem við trúum á hann.

Nefna má fleiri stefnuatriði siðrænna húmanista, m.a. sum þeirra sem Bandaríkjamaðurinn Paul Kurtz hefur samið:

* Við styðjumst við skynsemi og vísindi til að öðlast skilning á alheiminum og viðfangsefnum samfélagsins.

* Við hörmum allar þær tilraunir sem í gangi eru til að gera sem minnst úr mannlegri skynsemi og leita í staðinn skýringa og björgunar í yfirnáttúrulegum fyrirbærum.

* Við erum þeirrar skoðunar að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi.

* Við viljum njóta lífsins sem við þekkjum núna og efla sköpunargáfu okkar sem allra mest.

* Við viljum rækta sem best siðræn gildi okkar og okkar á meðal.

* Við virðum réttinn til einkalífs. Fullorðið fólk á þar að hafa fullt frelsi til til að velja og hafna, fylgja kynhneigð sinni að eigin vild, að eignast börn samkvæmt eigin ákvörðunum, að hafa aðgang að víðtækri og góðri heilbrigðisþjónustu og fá að deyja í reisn.

* Við setjum traust okkar á almenn siðræn verðmæti:

Tillitssemi, heiðarleika, drengskap, sannsögli, ábyrgð.

Siðfræði húmanismans er ávallt lögð á mælistiku gagnrýnnar og upplýstrar hugsunar. Saman sköpum við tilteknar siðrænar reglur og við dæmum gildi þessara reglna eftir árangrinum.

 

* Við leggjum mikla áherslu á siðmennt barna okkar. Við viljum efla skynsemi og samúð.

* Við viljum efla listir engu minna en vísindi.

* Við erum borgarar alheimsins og horfum með hrifningu á ný sannindi um eðli hans.

* Við teljum að nýjar hugmyndir eigi að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti vantreystum við þeim.

Í nafni manngildisins viljum við standa vörð um og rækta allt það göfugasta og besta sem við getum greint.

Gísli Gunnarsson

 

Til baka í yfirlit