Fyrir skömmu stofnuðu 27 trúfélög og lífsskoðunarfélög með sér formleg samtök á fundi í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur, samþykktu lög og kusu stjórn. Formaður er Pétur Þorsteinsson, prestur Óháða safnaðarins, gjaldkeri Mirela Protopapa frá Bahaí‘um og ritari Siðmenntarfélaginn Mörður Árnason.
Samtökin heita Samráðsvettvangur trúfélaga og lífsskoðunarfélaga á Íslandi (SVTLÍ) og taka við af samnefndum óformlegum félagsskap sem hóf sína göngu árið 2006. Í lögum samtakanna segir þetta um tilgang þeirra:
„Tilgangur samtakanna er að stuðla að umburðarlyndi og virðingu meðal fólks í ýmsum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum með mismunandi trúarafstöðu og ólík lífsviðhorf. ‒ Samtökin standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi … ‒ Starfi samtakanna er ætlað að gefa fulltrúum aðildarfélaganna færi á að kynnast, stuðla að málefnalegum samskiptum þeirra, meðal annars um sameiginleg hagsmunamál, liðka fyrir miðlun upplýsinga og vera vettvangur til að taka á vandamálum sem upp koma.“
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, ávarpaði stofnfundarmenn, og lagði áherslu á gildi mannúðar og mennsku. Nú þyrfti sem aldrei fyrr samstöðu þeirra sem vilja láta gott af sér leiða og stuðla að friði og velsæld. Íslendingar hefðu hingað til verið harla einsleit þjóð hvað varðar trú, en það hefði breyst á undanförnum áratugum, og nú standi tæplega helmingur landsmanna utan þjóðkirkjunnar. „Ég held að það sé hollt okkur öllum að kynnast nýjum siðum og framandi sjónarmiðum. Það hefur í raun svipað gildi og að fara í ferðalag, að fræðast og þroskast og skilja þá um leið bæði hugsun og heimsmynd annarra sem og sína eigin. Það má því segja að samráðsvettvangur ykkar hafi líka menntunargildi, geti opnað augu fólks og aukið skilning þess bæði á sjálfu sér og öðrum.“ Ávarp forseta má lesa í heild hér.
Stjórn Siðmenntar samþykkti aðild félagsins að hinum nýju samtökum og væntir þess að þau geti stuðlað að raunverulegu trúfrelsi á landinu og orðið til þess að auka umburðarlyndi gagnvart fjölbreyttum lífsskoðunum.
Varaformaður Siðmenntar, Sigurður Rúnarsson, í fremstu röð (4. f.h.) á hópmynd af fundarmönnum. Honum á vinstri hönd einn af forystumönnum múslima, katólski biskupinn og fulltrúi búddista. Forsetinn í miðju og til vinstri við hann biskup Þjóðkirkjunnar og allsherjargoði ásatrúarmanna. Myndir: Lárus Bjarnason.
Forsetinn ræðir við Jakob Rolland, prest í Landakoti, og Mörð Árnason frá Siðmennt, sem var fundarstjóri á stofnfundinum. Til vinstri hlustar bahaíinn Mirela Protopapa. Jakob, Mirela og Mörður voru í undirbúningsnefnd fundarins ásamt Steinunni Arnþrúði Björnsdóttur presti í Neskirkju.