Í bæjarfélaginu Eiker í Noregi munu 122 börn fermast borgaralega á næsta ári. Það er rétt um fjórða hvert barn á fermingaraldri þar en fjöldi þeirra sem velja að fermast borgaralega hefur hækkað svotil óslitið á hverju ári. Í ár er enn og aftur met slegið.
Eiker skiptist í Efri-Eiker og Neðri-Eiker. 76 börn fermast borgaralega í Efri-Eiker, en 46 í Neðri-Eiker. Hlutfallið er 27,1% af öllum fermingarbörnum í Efri-Eiker, og 22,9% í Neðri-Eiker. Fyrir Efri-Eiker er þetta aukning um 5,5 prósentustig frá fyrra ári.
„Samanlagt er þetta þá meira en fjórði hluti af öllum 14-ára börnum í Eiker-bæjunum,“ segir Lars-Petter Helgestad sem er yfirmaður deild Human Etisk Forbund í Eiker. „Þetta er í fyrsta sinn í þau 18 ár sem við höfum skipulagt borgaralega fermingu í Eiker að hlutfallið er svona hátt. Við metum þetta mjög mikils.“
Human Etisk Forbund er systurfélag Siðmenntar í Noregi og sér um borgaralega fermingu þar.