Ég get eiginlega ekki lýst því hvað ég er stoltur af því að fá að koma og eiga með ykkur þennan stórmerkilega dag, dag sem er ykkur og fjölskyldum ykkar svo mikilvægur. Það er kannski til marks um hvað mér finnst þetta mikilvægt og merkilegt að það læðist að mér sviðsskrekkur, smá skjálfti, og það þó ég vinni við að koma fram alla daga, útum allt! En þegar það er gaman, eins og hér í dag, er sviðsskrekkur fljótur að renna af manni. Ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn ykkar. Í dag eruð þið aðal og hvet ykkur til að njóta þess í botn!
Ég var að skoða á netinu hvað þið hafið verið að bardúsa með kennurum ykkar. En skemmtilegt prógramm! Umræður og ritgerðir og spennandi verkefni um lífið og tilveruna. Það er vissa mín að þið hafið haft gagn og gaman að þessum undirbúningi og vinnan hér eigi eftir að fylgja ykkur áfram út í lífið. Maður er alltaf að læra og svo tekur maður það með sér áfram. Allt nýtist manni í framhaldinu, þó maður geri sér ekki alltaf grein fyrir því. Mér fannst hún frábær þessa áhersla á umræður í ykkar fermingarundirbúningi, þar sem þið viðrið skoðanir ykkar og hlustið á skoðanir hinna. Mér finnst þetta frábært, enda eru opin skoðanaskipti svo mikilvæg í mannlegu samfélagi. Maður lærir svo mikið af því að hlusta á aðra. Stundum breytast skoðanir manns í kjölfarið og það er bara allt í lagi. Ég skal segja ykkur að eitthvað það mikilvægasta sem ég hef lært á undanförnum árum er að það sem maður veit og skilur, það verður manni vopn. Þess vegna er svo nauðsynlegt að halda alltaf áfram að hlusta, læra og reyna að skilja. Ég kem betur að þessu á eftir.
Þetta er dagurinn ykkar. Ég var að skoða dagskrána og pæla í því sem þið ætlið að leyfa okkur að njóta hér með ykkur og það rann upp fyrir mér hversu ótrúleg orka býr í svona hópi eins og ykkar. Ég veit að foreldrar ykkar og fjölskyldur eru sammála. Þið eruð ekki bara hæfileikarík, þið eruð líka hugrökk og hafið kosið að ganga á móti viðteknum venjum, ákveðið að gera hlutina á ykkar hátt. Þið getið allt!
Og þið hafið líka sannað fyrir mér annað, eitthvað sem verður alltaf ljósara í mínum huga – við erum ekki eins! Það er enginn manneskja nákvæmlega eins og önnur. Ekki einu sinni tvíburar! Við erum öll sérstök og við verðum að rækta það sem við í raun og veru erum.
Á svona skemmtilegri stund eins og fermingunni ykkar verð ég líka pínu öfundsjúkur og hugsa:
mikið hefði ég nú viljað að samtök eins og Siðmennt hefðu verið orðin til þegar ég fermdist og mikið hefði ég viljað að það hefði verið svona gaman hjá mér eins og hjá þeim!
Ef ég hefði gengið í gegnum vinnu eins og ykkar þá hefði örugglega margt farið öðruvísi í mínu lífi. En svo hugsar maður til baka og jú, fermingardagurinn minn var kannski alveg allt í lagi. Það sem stendur eftir þann dag er þessi góða tilfinning að maður sé á leiðinni eitthvað. Vitiði hvað ég á við? Einum áfanga sé lokið og nú taki annar svakalega spennandi við. Ég vona að ykkur líði þannig í dag. Það er allt opið. Þið getið gert næstum hvað sem þið viljið. Þið eruð eiginlega eins og listamaður sem stendur frammi fyrir auðu blaði. Hvað viljiði setja á blaðið? Hvaða snilldarverk bíður þess að líta dagsins ljós?? Það er ekkert alltaf auðvelt að ákveða og það er ekkert alltaf auðvelt að framkvæma en vissan um auða blaðið er alltaf jafn spennandi.
Ég var um daginn í London með manninum mínum. Við vorum þar við vinnu á bókasafni tengdu stórum háskóla í borginni, hann að skrifa um stjórnmál, ég að berjast við að koma saman bók. Talandi um auð blöð, þá gekk mér ekkert að sitja á safninu og skrifa. Mér fannst miklu meira gaman að ganga um á háskólalóðinni og fylgjast með öllu unga fólkinu sem var þar. Ég las auglýsingar um skemmtanir og málfundi og félög af öllum stærðum og gerðum. Ég horfði á ungt fólk, allsstaðar að úr heiminum, að læra saman, borða saman, hlusta á tónlist saman, hlæja saman, vera saman. Svo sagði ég við manninn minn:
Æ, mikið vildi ég nú óska að börnin okkar vildu fara í svona háskóla og upplifa svona stemmningu. Komast að heiman, læra, sjá hvað mannlegt samfélag er stórt og fjölbreytt.
Kannski gera börnin mín það, kannski gera þau það ekki. Það verður þeirra ákvörðun en stóra málið er – möguleikinn er alltaf fyrir hendi. En ég ákvað þar að mig langaði til að hvetja ykkur til að skoða vel þann möguleika að hleypa heimdraganum þegar tækifærið gefst. Skoðið heiminn, njótið samvista við krakka annarsstaðar frá, lærið af þeim og leyfið þeim að læra af ykkur. Gerið heiminn að þessu litla þorpi sem hann í raun og veru er orðinn. Eða eins og litli strákurinn sem kom á leikskólann sinn sagði. Hann var að tala um pabba sinn sem hafði verið í fótbolta kvöldið áður. Leikskólakennarinn spurði með hvaða liði pabbinn spilaði og strákurinn svaraði: Æ ég man aldrei hvort það var Barcelona eða Leiknir! Þetta kalla ég alþjóðavæðingu í lagi!
Já áðan minntist ég á það að stundum er manni algjörlega nauðsynlegt að synda á móti straumnum og elta tilfinningar sínar og innsæi. Ég minntist líka á manninn minn. Það er nefnilega staðreynd, eins og sum ykkar vita, að ég er giftur öðrum karlmanni og við eigum sitthvort barnið sem við ölum upp saman og í samvinnu við mæðurnar. Við erum óvenjuleg en stórskemmtileg fjölskylda í vesturbænum. Höldum með KR og Liverpool og förum í ferðalög í sólina til Spánar eða í rigningu í Borgarfjörðinn með tjaldið okkar á sumrin. Fyrir nokkrum árum síðan hefði það að ég fjallaði um manninn minn og börnin mín ekki vakið mikla hrifningu á samkomu sem þessari. Það hefði ekki þótt við hæfi að tala um samkynhneigðar fjölskyldur við fermingu unglinga. Sem betur fer hafa hlutirnir breyst alveg svakalega í samfélagi okkar og umræðan er opnari og velviljaðri mismunandi þjóðfélagshópum. Ég er búinn að fara út um allt og ræða málefni fjölskylda eins og minnar. Það hefur verið mjög gefandi reynsla, kannski ekki síst vegna þess að við umræðuna hefur losnað um hömlur, fólk sér að lífið er ekki bara svart og hvítt. En hvers vegna er ég að tala um þetta við ykkur hér í dag? Jú vegna þess að ég vil geta sagt aftur: Það er enginn eins – Við erum öll öðruvísi og því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir því, því betra. Við búum í góðu samfélagi en við getum alltaf gert það betra og ég veit þegar ég horfi á ykkur að framtíðin er björt. Mér hefur þótt sérstaklega gaman að ræða þessi mál við krakka eins og ykkur, hvort sem þau eru í efra stigi grunnskóla eða í menntaskólum. Það hefur verið svo gaman að sjá hvað þetta fer allt að verða lítið mál. Umræða um samkynhneigð hættir að vera hættuleg og eins og ég sagði áðan þá fer það sem við vitum að verða okkur vopn.
En nóg um það. Ég veit að þið eruð orðin vön því að fólk spyrji ykkur að því hvað þið ætlið að verða. Ég talaði sjálfur um það áðan hvað framtíðin væri spennandi, talaði um auða blaðið og það alltsaman. Um daginn heyrði ég hinsvegar mjög skemmtilega pælingu sem mig langar til að deila með ykkur. Einhver sagði mér að við ættum að hætta að spyrja unglinga “hvað ætlarðu að verða?”. Við eigum í staðinn að spyrja “hvað ertu?” Mér finnst þetta alveg frábært og ég er mjög sammála þessu. Við eigum nefnilega að horfa á okkur sjálf á hverjum tímapunkti og velta fyrir okkur hvað við erum, hvað við getum, hvað við hugsum og fyrir hvað við stöndum. Alltaf. Við getum ekki stöðugt verið að bíða eftir því að VERÐA eitthvað, við eigum bara að VERA.
Ég horfi á ykkur í dag og ég sé manneskjur sem eru frábærar, nákvæmlega eins og þið eruð. Þið gangið um með spurningar og tilfinningar og meiningar og þær eiga allar rétt á sér. Þið eigið ykkar markmið og drauma og það er engin ástæða til annars en að gera ráð fyrir að þau markmið náist en þið megið ekki gleyma því að vera þau sem þið eruð, ekki þau sem þið ætlið að verða! Þetta á líka við um mannleg samskipti. Ef við erum t.d. alltaf að vona að fólkið í kringum okkur breytist, verði eitthvað annað en það er, þá verðum við sífellt fyrir vonbrigðum. Ef við ætlum þeim sem við eigum samskipti við að þeir séu svona eða hinsegin þá komust við ekkert áfram. Við verðum að taka öðrum manneskjum eins og þær eru, ekki eins og við höldum eða viljum að þær séu. Hafiði heyrt söguna um manninn sem var að keyra út á landi. Það sprakk á bílnum og hann var í vandræðum vegna þess að hann vantaði tjakk. Hann leit í kringum sig og sá sveitabæ. Þangað stefndi maðurinn til að fá tjakk lánaðan. Á leiðinni fór hann að hugsa um það hvort hann fengi ekki örugglega góðar viðtökur á bænum. Hann fór að hugsa að það væri náttúrulega möguleiki að þetta myndi ekki ganga og smám saman komst hann að þeirri niðurstöðu að bóndinn á bænum væri örugglega ömurlegur gæi sem myndi aldrei vilja lána honum tjakk. Það stóðst líka á endum að bóndinn á bænum heyrði bankað og fór til dyra. Þar stór rauður og úfinn maður sem æpti á hann: Eigðu bara þinn fjandans tjakk sjálfur! Og strunsaði svo í burtu.
Þakka ykkur aftur fyrir að leyfa mér að vera með ykkur á þessum frábæra degi. Foreldrar og fjölskyldur – til hamingju með þessa glæsilegu krakka. Fermingarbörn – til hamingju með daginn ykkar. Megi líf ykkar allra verða spennandi og innihaldsrík en fyrst og fremst algjörlega á ykkar forsendum.
Takk fyrir mig.
Reykjavík, 14. apríl 2005