Eyjólfur Örn Snjólfsson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Siðmenntar. Eyjólfur, sem starfaði síðast sem framkvæmdastjóri Íþróttafélags Reykjavíkur (ÍR), lagði stund á rafmagns- og tölvuverkfræði og er einnig með MBA gráðu frá HÍ. Fyrstu árin eftir háskólanám vann Eyjólfur í fjármálageiranum en hefur síðan þá starfað sem sérfræðingur og stjórnandi í öðrum atvinnugeirum.
Inga Straumland, formaður Siðmenntar: „Siðmennt er á mikilli siglingu og við teljum það mikilvægt að leggja áherslu á að styrkja félagið frá rekstrarlegu sjónarhorni. Eyjólfur þekkir líka vel starfsemi félagasamtaka og við teljum að reynsla hans komi að góðum notum í að efla enn frekar félagsstarf og þjónustu við félagsfólk. Við bjóðum Eyjólf velkominn til starfa. “
Eyjólfur: „Ég hlakka mikið til að starfa fyrir Siðmennt enda búinn að fylgjast áhugasamur á hliðarlínunni með uppgangi og vexti þessa félags sem er stöðugt að verða mikilvægari stoð í okkar samfélagi. Ég er skírður og fermdur í Þjóðkirkjunni en aðhyllist lífsskoðunarstefnu húmanista. Gaman er frá því að segja að í síðustu viku steig ég skrefið og breytti skráningu minni þannig að sóknargjöld mín renni til Siðmenntar. Ég kem með sjónarhorn og reynslu úr atvinnulífinu sem ég tel að gagnist inn í starfsemi félagsins og hlakka til að geta lagt mitt af mörkum til að Siðmennt vaxi, dafni og blómstri sem aldrei fyrr.“